Húsavík | Stofnað hefur verið fyrirtækið Orkuveita Húsavíkur ehf. og tekur það við öllum rekstri, eignum og skuldum Orkuveitu Húsavíkur.

Húsavík | Stofnað hefur verið fyrirtækið Orkuveita Húsavíkur ehf. og tekur það við öllum rekstri, eignum og skuldum Orkuveitu Húsavíkur. Fram kemur á vef Húsavíkurbæjar að félagið er stofnað til þess að auka samkeppnishæfni orkufyrirtækis Húsavíkurbæjar í því nýja lagaumhverfi sem er að þróast í orkugeiranum. Engin áform eru uppi um sölu félagsins eða samruna þess við önnur félög.

Í stjórn hins nýja félags voru kjörnir Aðalsteinn Á. Baldursson formaður, Böðvar Bjarnason og Sigurjón Benediktsson. Öllum starfsmönnum Orkuveitu Húsavíkur standa til boða sambærileg störf hjá hinu nýja félagi og hefur stjórnin falið stjórnarformanni að ganga til viðræðna við Hrein Hjartarson, fráfarandi veitustjóra og bæjarverkfræðing um gerð ráðningarsamnings í starf framkvæmdastjóra félagsins.