Hljómsveitin Mór: Halli Gulli, Kristján, Þórhildur og Stefán.
Hljómsveitin Mór: Halli Gulli, Kristján, Þórhildur og Stefán.
Útsetningar íslenskra þjóðlaga unnar í samvinnu hljómsveitarfólks Hljómsveitin Mór, en hana skipa Þórhildur Örvarsdóttir sópransöngkona, Kristján Edelstein á rafgítar, Stefán Ingólfsson á rafbassa og Halldór Gunnlaugur Hauksson, Halli Gulli, á trommur.

Í JÚLÍ 2003 lék Mór á tónleikum á Heitum fimmtudegi í Deiglunni á Listasumri í umsjón Jazzklúbbs Akureyrar. Tónlistin, sem þau fluttu þá og nú, var íslensk þjóðlög í ferskum og nýstárlegum útsetningum hljómsveitarinnar í anda djass, rokks og raunar með mjög alþjóðlegum blæ. Tónlistarfólkið ætlaði sér upphaflega að tjalda til einnar nætur og stofnaði til samstarfsins fyrir þessa einu tónleika sumarið 2003. En hvort tveggja var að hrifning áheyrenda og leikgleði tónlistarfólks var mikil, það mikil að áfram var haldið. Fleiri tónleikar, m.a. á Listasumri 2004, hafa aukið Mó listrænan metnað og það ætti að vera fjölmörgum tónlistarunnendum mikið tilhlökkunarefni að óðum styttist biðin í að fyrsti diskurinn komi á markað. Nafnið Mór vísar eflaust bæði til þess að mórinn var mikilvægasti hitagjafi okkar í gegnum aldirnar og einnig hefur mórauða litnum verið haldið býsna vel á lofti, allavega fyrir ferðamenn, sem eins konar einkennislit þjóðarinnar. Ef fyrri merkingu orðsins er haldið, þá var sá mór ekki einasta góður eldsmatur, því í ofanálag tókst tónlistarfólkinu að halda áheyrendum sínum funheitum af "móhitanum" alla tómleikana.

Þórhildur Örvarsdóttir hefur mikla náðargáfu, þar sem geislandi sviðsframkoma sameinast blæfallegri sópranrödd sem stjórnast af næmu eyra og ríkri tjáningu. Hún er að vissu leyti "englaröddin" innan um oft dekkri, hástemmdari og hvatvísari raddir drengjanna, sem oft skapa ógnardramatík tengda dökkri merkingu textanna. Þetta var mjög áhrifamikið í Veröld fláa, svo ekki sé minnst á Móðir mín í kví kví, þar sem útburðarvæl og kattarbreim kom hári manns til að rísa. Í öðrum lögum eins og Fífilbrekka gróin grund greri grasið í fallegri hljómríkri útsetningu, þar sem bæði gítarleikur Kristjáns og bassaleikur Stefáns var stórfínn.

Útsetningarnar eru í senn þjóðlegar og alþjóðlegar, sbr. keltnesk-írsk áhrif í trommuleik, t.d. í Veröld fláa, oft mið-austræn áhrif í rafgítar og dúdelídú áhrif í bassa. Þannig öðlast þjóðlögin nýja vængi og ef grannt er skoðað eiga þau á þann hátt mikið erindi við heimsbyggðina, sem skortir svo mikið sameiginlegt mál í stað orða og gerða sem slíta og sundra. Styrkleikabreytingar og andstæður í túlkun voru oft miklar. Raunar hefði ég kosið þær mun meiri, sér í lagi var rafgítarinn oft of sterkur í viðkvæmum lögum, eins og Kvölda tekur, Bí bí og blaka og Guð gaf mér eyra, en styrkleikajafnvægi var þó miklu betra í endurtekningu sem aukalag tvö, er Mó var fagnað ákaft í lok tónleika. Bót ræðst á þessu við að hafa hljóðmann og svo verður að vera. Fjölbreytt tónmál hljómsveitar ætti að auðvelda tónlist hennar aðgang að breiðum hópi tónlistarunnenda. Þarna gefur að heyra rokk og blús í bland, klassískan söng og djassspuna. Sterkust áhrif á mig hafði flutningur og útsetning á Blástjörnunni og diskantsöngur Þórhildar í lok Móðir mín í kví, kví hljómar enn fyrir hugskoti mínu. Vonandi verður mér að ósk minni um að þessi ríkulega mótekja megi endast vel.

Jón Hlöðver Áskelsson