Ég vil að þú vaknir upp af svefni stöðnunarinnar, lesandi góður. Ég vil að þú temjir þér gagnrýna hugsun og takir lífið í þínar eigin hendur. Komdu þér undan viðjum vanans.

Mín helsta huggun í þessari jarðvist er sú fullvissa að ég er ófullkomin vera. Ég er ungur og vitlaus, breyskur og hvatvís, óskipulagður og latur, jafnvel á ég það til að vera dálítið hræddur við annað fólk og segi ekki alltaf nákvæmlega það sem ég er að hugsa, heldur nokkurs konar "sykurskertar" útgáfur af því.

Ein af dásemdum ófullkomleika míns er sú að ég er alltaf að bæta mig. Það er alltaf rými til að verða betri maður og ég mun seint standa í þeirri trú að ég sé kominn á hugmyndafræðilegan eða hugarfarslegan endapunkt.

Þannig er ófullkomleikinn mér sífelld hvatning til að leita og gera betur. Gagnrýna og skoða það sem fyrir liggur og ekki taka allt sem fólk segir sem gefinn hlut. Ég er meira að segja ekki yfir það hafinn að læra af mér reyndari mönnum.

Ég heyrði einu sinni af stúlku sem nam heimspeki, mitt gamla fag, í Háskólanum. Hún sat og hlýddi á ungan skólabróður sinn tala um andúð sína á stóriðju, forræðishyggju, stríðum og ofbeldi gegn Falun Gong. Þegar ungi maðurinn hafði lokið máli sínu sagði þessi unga stúlka við hann: "Það er svona fólk eins og þú sem eyðileggur allt. Af hverju þarftu að vera svona mikið á móti?"

Svipaða sögu kann ég frá því ég fór yfir ritgerðir fyrsta árs nema í einni af hinum "hagnýtu" greinum. Þar var umræðuefnið gagnrýnin hugsun og voru þær ekki ófáar ritgerðirnar sem hófust á orðunum: "Hvers vegna þurfa menn alltaf að vera að gagnrýna allt? Það er svo leiðinlegt þegar allir eru að gagnrýna allt."

Ég held að þetta unga fólk hafi hreinlega ekki enn áttað sig á mikilvægi þess að brjóta hlutina til mergjar og leita sannleikans. Við megum aldrei halda að við séum komin á vitsmunalega endastöð. Við verðum að halda áfram að leita og skoða og gagnrýna, því annars stöðnum við og verðum eins og hraundrangar og jafnvel ekki, því hraundrangarnir verða mosavaxnir, veðrast og molna og breytast því samkvæmt umhverfinu. (Eftir á að hyggja var hraundrangur alveg hræðileg samlíking.) Kannski væri vænlegra að líkja stöðnuðum manneskjum við rekaviðardrumba eða granítstólpa sem taka litlum sem engum breytingum í tíma.

Eitt nærtækt dæmi um stöðnun í samfélagi okkar eru spilunarlistaútvarpsstöðvarnar og sú hefð sem hefur myndast fyrir óbreytanlegum og "aðgengilegum" útvarpsstöðvum fyrir markhópa. Sjálft hugtakið "markhópur" virðist ganga út á það að fólk sé óbreytanlegt og staðnað í móti. Tugþúsundir Íslendinga skipta helst aldrei um stöð á útvarpinu sínu af ótta við að heyra eitthvað nýtt, eitthvað óþægilegt. "Frjálsu" útvarpsstöðvarnar setja þrjú til fimm ný lög í spilun á viku, ef hlustendur eru heppnir, en þessi lög eru öll eins. Þau samrýmast formúlunni algerlega til að ögra alveg örugglega engum. Með því að skipta aldrei um stöð og hætta aldrei á að hlusta á nýja tónlist er fólk að stíga ákveðið og mikilvægt skref í átt að andlegri stöðnun.

Tónlist á að vera ögrandi, hún á að teygja örlítið á heilanum. Lög eiga ekki að heilla gersamlega við fyrstu hlustun. Tónlist á að gegna hugvíkkandi og andlega ræktandi hlutverki en ekki að vera bakgrunnshávaði fyrir verslanir.

Ég leit um daginn ásamt tveimur félögum inn á skyndibitastað þar sem ein af síbyljustöðvunum básúnaði nýjustu froðuna í útvarpinu. Við vinirnir vorum einir á staðnum og ég spurði starfsfólkið hvort hægt væri að skipta um stöð. Því var neitað og sagt að þetta væri það sem viðskiptavinirnir vildu hlusta á. "En við erum einu viðskiptavinirnir núna," benti ég góðfúslega á. Stóð þá ekki á svari: "Þetta á bara að vera svona," og ég sá í augum fólksins að ég var orðinn vandasmiður, leiðinda-furðufugl. Það var örugglega að hugsa: "Það er svona fólk eins og þú sem eyðileggur allt. Af hverju þarftu að vera svona mikið á móti?"

En ég er ekki á móti. Ég er bara með því að fólk hugsi hlutina á ólíkum forsendum, að það taki hlutina ekki sem gefna. Það á að vera í lagi að heyra nýja tónlist öðru hvoru, ekki bara sama gamla örugga hlutinn. Það er engin fýla í því fólgin að leita nýrra leiða.

Í þessu ljósi langar mig að hvetja þá sem þetta lesa til að taka eftirfarandi til greina:

Bíllinn þinn er ekki náttúrulögmál, það er ekki guðsgefinn réttur þinn og skylda að aka honum einn allan daginn. Þá ert þú hluti af umferðarvandanum sem alltaf er verið að skammast í borgaryfirvöldum og vegagerðinni út af. Prófaðu að labba í vinnuna eða taka strætó stöku sinnum, eða láta makann skutla þér. Veltu fyrir þér að búa nær vinnustaðnum. Þá hefurðu meiri tíma utan hans.

Prófaðu indverskan eða mexíkóskan mat. Smakkaðu eitthvað sterkt og framandi. Ögrandi.

Skiptu yfir á Rás 1 eða 2 og þvingaðu þig til að hlusta á metnaðarfullan tónlistarþátt eins og Hringi, Geymt en ekki gleymt eða Hljómalind eða velta fyrir þér þjóðmálunum í Speglinum eða Dægurmálaútvarpinu.

Kíktu á eins og eitt listagallerí og ekki hugsa strax: "Hvaða vitleysa er þetta nú?" Hugsaðu: "Hvað er hann að pæla? Hvert er hún að fara? Hvers vegna?"

Ekki láta forskriftirnar í heilanum á þér ráða för. Taktu stjórn á ferðinni og reyndu að sjá hlutina frá nýjum sjónarhornum.

Lestu ögrandi skáldsögu eða horfðu á skemmtilega og krefjandi kvikmynd, eins og t.d. hina frábæru gamanmynd Sideways.

Yddum höfuð okkar reglulega, því staðnaður hugur er verri en allar heimsins fíknir samankomnar. Er það ekki skylda okkar að halda leitinni áfram?

Eftir Svavar Knút Kristinsson svavar@mbl.is