"Bið." Olíumálverk eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur.
"Bið." Olíumálverk eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur.
Opið alla daga frá 13-17. Sýningu lýkur 6. mars.

KVIKMYND Andreis Tarkovskís um rússneska íkonmálarann Andrei Rublev (1370-1430) frá árinu 1966 er besta kvikmynd um myndlistarmann sem gerð hefur verið. Enginn vafi í mínum huga. Drepur hún m.a. á spurningunni hvort listamaður eigi að taka pólitíska afstöðu til atburða líðandi stundar eða róa á æðri mið, næra sálina og skapa guði til dýrðar. Út myndina undrar mann að Rublev, sem þjáist af efa sínum um tilvist guðs, skuli ekki taka afstöðu og fyrirlítur hann jafnvel fyrir hlutleysi miðað við allan hrottaskapinn sem hann verður vitni að. En í lokin þegar myndavélin rennur yfir þá dýrð sem listmálarinn hefur skapað er manni hins vegar fyllilega sama um afstöðuleysi Rublevs sem hefur fundið heilagleika í helvíti.

Kristín Gunnlaugsdóttir er listmálari sem gengur út frá reglum íkonmálverksins, enda nam hún íkonagerð á Ítalíu. Í Listasafni Reykjanesbæjar stendur nú yfir sýning á verkum hennar undir yfirskriftinni "...mátturinn og dýrðin, að eilífu..." Þetta brot úr bæn má sjá sem tilvísun í upprunalega merkingu íkonmyndanna sem er ímynd til að tilbiðja og þýðir "helgimynd".

Umhyggjan liggur Kristínu augljóslega á hjarta. Mærin spilar veigamikið hlutverk í verkunum og hlúir að afkvæmum sínum. Hreinleiki og sakleysi eru eðlilega mikilvægur þáttur í helgimyndunum. Hafa þær yfir sér "naífan" blæ og tómleiki endurspeglar ástandið sem einkennir flestar fígúrur Kristínar. Þær bara eru og sýnast tæplega af þessum heimi þótt þær séu oft á tíðum hversdagslegar í fasi.

Myndirnar eru ýmist málaðar með eggtemperu á tré eða olíu á striga. Þær fyrrnefndu eru minni og unnar eftir viðtekinni tækni fyrri alda. Handverkið er fínlegra og skarpara en í olíumálverkunum sem virka eilítið flatari.

Fæst okkar (ef nokkur) í velmegunarríkinu Íslandi hafa upplifað og verið vitni að álíka pyntingum og niðurlægingu og áðurnefndur Rublev. Má því ætla að vegurinn að helgimyndinni sé viðráðanlegri fyrir íbúa velmegunarríkisins en um leið auðveldara að falla í gryfju "dekorasjónar" og sætleika. "Dekorasjón" og sætleiki hafa hins vegar fylgt íkonmálverkinu síðan á tímum Konstantíns keisara og gegna vissu hlutverki í fagurfræðinni að baki. Því er ekki að neita að myndir Kristínar eru ansi sætar en ég fæ þó ekki betur séð en að listakonan nálgist viðfangsefni sitt af heilindum og trú, láti fagurfræði og heilagleika ráða ferðinni. Eina sem mér finnst miður við sýninguna er áreiti sýningarsalarins. Ráða myndirnar illa við arkitektúrinn þrátt fyrir breytingar á salnum til hins betra. Kaótísk konstrúktsjón í lofti gleypir heildarsvipinn.

Jón B.K. Ransu