Jón Hákon Halldórsson
Jón Hákon Halldórsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Hákon Halldórsson og María Sigrún Hilmarsdóttir fjalla um starfsumhverfi fyrirtækja: "Því er nauðsynlegt fyrir íslenskt viðskiptalíf að stjórnvöld tryggi að við séum í fremstu röð þeirra ríkja sem bjóða upp á hagstæðustu starfsskilyrðin fyrir atvinnulífið."

Í SKÝRSLU Verslunarráðs Íslands sem kom út á Viðskiptaþingi í vikunni er bent á hve mikil útrás íslenskra fyrirtækja er orðin. Eru þar tekin dæmi af íslenskum fjármálafyrirtækjum sem hafa fjárfest mikið erlendis að undanförnu og hafa nú umtalsverðan hluta tekna sinna frá Danmörku og Bretlandi. Hið sama gildir um önnur fyrirtæki sem skipta miklu fyrir íslenskt hagkerfi, svo sem stoðtækjafyrirtækið Össur.

En þótt tekjur þessara fyrirtækja komi í auknum mæli frá nágrannaríkjum okkar kjósa stjórnendur þeirra að hafa þau skráð hér á landi. Það skattaumhverfi sem íslensk stjórnvöld hafa skapað á síðustu árum skiptir þarna miklu um. Á rúmum áratug hafa skattar á fyrirtæki lækkað úr 51% í 18% og nýlega voru samþykkt lög frá Alþingi sem fela í sér að eignaskattur á fyrirtæki verði afnuminn.

Þessar breytingar á skattalöggjöfinni eru tvímælalaust til þess fallnar að bæta umhverfi þeirra fyrirtækja sem þegar starfa á Íslandi og gerir Ísland að álitlegum vettvangi fyrir erlenda fjárfesta. En betur má ef duga skal. Samkvæmt fyrrgreindri skýrslu Verslunarráðs eru önnur ríki, jafnvel fyrrverandi austantjaldsríki, farin að átta sig á því að lækkun skatta á atvinnulífið er frumforsenda hagvaxtar í sérhverju ríki. Skattprósentan í Ungverjalandi, er til að mynda 16%, Lettlandi og Litháen 15% og Póllandi og Slóvakíu 19%. Þessi ríki munu verða helstu samkeppnislönd okkar eftir 5-10 ár og sum þeirra eru nú þegar orðin það.

Því er nauðsynlegt fyrir íslenskt viðskiptalíf að stjórnvöld tryggi að við séum í fremstu röð þeirra ríkja sem bjóða upp á hagstæðustu starfsskilyrðin fyrir atvinnulífið. Þetta skiptir ekki aðeins viðskiptalífið máli, heldur alla íbúa þessa lands. Á þessu veltur hvort hér á landi verða í boði hálauna- eða láglaunastörf, hvort hér verður áframhaldandi hagvöxtur og hvort hér á landi verði áfram til fjármunir fyrir sterku öryggisneti fyrir þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu.

Jón Hákon Halldórsson og María Sigrún Hilmarsdóttir fjalla um starfsumhverfi fyrirtækja