17. febrúar 2005 | Innlendar fréttir | 367 orð | 2 myndir

Unnið að skipulagsbreytingum hjá Flugleiðum fyrir aðalfund

Ragnhildur Geirsdóttir ráðin forstjóri Flugleiða

Jón Karl Ólafsson verður forstjóri Icelandair

Ragnhildur Geirsdóttir
Ragnhildur Geirsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
RAGNHILDUR Geirsdóttir hefur verið ráðin forstjóri Flugleiða hf. og Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair. Munu þau vinna með Sigurði Helgasyni, sem hefur verið forstjóri beggja þessara félaga, þangað til hann lætur af störfum 1. júní nk.
RAGNHILDUR Geirsdóttir hefur verið ráðin forstjóri Flugleiða hf. og Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair. Munu þau vinna með Sigurði Helgasyni, sem hefur verið forstjóri beggja þessara félaga, þangað til hann lætur af störfum 1. júní nk. Hannes Smárason verður áfram starfandi stjórnarformaður Flugleiða. Jón Karl var áður framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands og Ragnhildur framkvæmdastjóri rekstrarstýringarsviðs Icelandair.

Flugleiðir hf. er móðurfélag þrettán dótturfélaga og er Icelandair langstærst með um helming af veltu samstæðunnar.

Frekari breytingar

Haldinn var fundur með starfsfólki Flugleiða á Hótel Loftleiðum í gærdag eftir að stjórn félagsins hafði formlega samþykkt þessar ráðningar. Hannes Smárason sagði unnið að frekari breytingum á skipulagi Flugleiða. Hlutverk félagsins við heildarstefnumótun dótturfélaganna þrettán yrði aukið. Móðurfélagið myndi í auknum mæli taka við því hlutverki að samhæfa aðgerðir einstakra fyrirtækja. Með því að ráða sinn forstjórann fyrir hvort félagið væri verið að skerpa skilin þarna á milli. Búast mætti við frekari hrókeringum fyrir aðalfund 10. mars nk. þar sem gerð yrði grein fyrir skipulagsbreytingunum. Það mætti segja að verið væri að gera Flugleiðir að alvörumóðurfélagi.

Fyrst kvenna forstjóri

Ragnhildur er fyrsta konan sem sest í forstjórastól Flugleiða, en hún varð einnig fyrst kvenna til að gegna framkvæmdastjórastöðu hjá félaginu. Hún sagðist taka við góðu búi af Sigurði Helgasyni sem var forstjóri í tuttugu ár. Hún sagði mörg verkefni framundan sem hún hlakkaði til að takast á við með öllu því góða fólki sem ynni hjá Flugleiðum. Það væri rík krafa að félagið skilaði árangri.

"Áður en ég hóf störf hjá Icelandair var ég í stefnumótun hjá Flugleiðum. Þá kynntist ég þeim rekstri mjög vel," segir hún og jafnframt að mörg spennandi verkefni séu framundan.

Jón Karl hefur starfað hjá flugfélaginu í yfir tuttugu ár. Hann segir ný tækifæri að opnast og Icelandair hafi náð frábærum árangri undanfarin ár. "Við ætlum að taka á og við ætlum að vera langbest," sagði hann á fundinum með starfsfólki.

Tveir fyrir Sigurð

Sigurður Helgason sló á létta strengi í sinni ræðu og sagðist auðvitað mjög ánægður með að það þyrfti tvo til að taka við af sér. Hann sagðist vita að þetta hefði verið mjög erfið ákvörðun fyrir stjórnina því mikið væri af hæfu starfsfólki innan Flugleiðasamsteypunnar. Hann treysti því að Icelandair yrði áfram besta flugfélagið.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.