19. febrúar 2005 | Innlendar fréttir | 465 orð | 1 mynd

Handtekinn við að mótmæla heimsókn Jiangs Zemins til landsins

Dæmdar bætur vegna handtöku

Víða var mótmælt á Suðurlandi þegar Jiang Zemin Kínaforseti og fylgdarlið hans ferðuðust þar um sumarið 2002.
Víða var mótmælt á Suðurlandi þegar Jiang Zemin Kínaforseti og fylgdarlið hans ferðuðust þar um sumarið 2002. — Morgunblaðið/Þorkell
MÓTMÆLANDA, sem handtekinn var er hann mótmælti við heimsókn Jiang Zemin, forseta Kína, að Geysi sumarið 2002, voru í Héraðsdómi Reykavíkur sl. fimmtudag dæmdar 90 þúsund krónur í miskabætur frá íslenska ríkinu vegna handtökunnar.
MÓTMÆLANDA, sem handtekinn var er hann mótmælti við heimsókn Jiang Zemin, forseta Kína, að Geysi sumarið 2002, voru í Héraðsdómi Reykavíkur sl. fimmtudag dæmdar 90 þúsund krónur í miskabætur frá íslenska ríkinu vegna handtökunnar. Gjafsóknarkostnaður mótmælandans, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hans, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hdl., skulu einnig greiðast úr ríkissjóði.

Lögreglan handtók mótmælandann, ásamt þremur félögum hans, við Geysi 15. júní 2002. Taldi mótmælandinn sig hafa orðið fyrir miska vegna ólögmætrar handtöku, frelsissviptingar, hótana og ofbeldis af hálfu lögreglu, ólögmætrar upptöku eigna og skerðingar réttinda til að mótmæla og þar með skerðingar á tjáningarfrelsi sínu. Krafðist hann 500 þúsund króna miskabóta frá íslenska ríkinu af þessum sökum.

Félagar mannsins sem mótmæltu með honum hafa einnig höfðað mál og krafið ríkið um miskabætur.

Jiang Zemin kom í opinbera heimsókn hingað til lands 13.-16. júní 2002 í boði forseta Íslands. Maðurinn ákvað ásamt félögum sínum að vera í hópi mótmælenda við Perluna þegar Kínaforseti sat þar að snæðingi 14. júní. Hann fór inn fyrir borða sem lögregla hafði strengt við veitingahúsið, lögregla sneri hann þá niður og flutti með valdi inn í lögreglubíl. Honum var ekið á lögreglustöðina og þar sagt að fara út úr bifreiðinni sem hann gerði.

Daginn eftir fór Kínaforseti í ferðalag um Suðurland, m.a. til að skoða Geysi í Haukadal. Þangað fór maðurinn ásamt fyrrnefndum félögum sínum. Þeir gengu um hverasvæðið með mótmælaspjöld og borða og tóku sér síðan stöðu ofan svæðisins. Þangað kom lögreglan og sagði þeim að taka niður borðana og fara burtu. Bundu þeir svarta borða fyrir munninn og réttu upp hendur til að mótmæla skerðingu á tjáningarfrelsi. Samskipti þeirra við lögreglu enduðu síðan með því að þeir voru handteknir og settir inn í lögreglubíl. Seinna voru þeir færðir í annan lögreglubíl og voru í haldi lögreglu eina klukkustund og 13 mínútur áður en þeim var sleppt. Þá var Kínaforseti lagður af stað til Reykjavíkur.

Lögmaður mótmælandans var Sigríður Rut Júlíusdóttir hdl., Sigurður Gísli Gíslason hdl. var til varnar fyrir hönd íslenska ríkisins. Friðgeir Björnsson kvað upp dóminn.

Deilt um fyrningarfrest

Íslenska ríkið hafði krafist sýknu vegna þess að bótakrafa mótmælandans væri fyrnd, en því hafði verið hafnað fyrir dómi.

Af hálfu ríkisins var því haldið fram að miða ætti fyrningarfrest við handtökudag. Skýrslum lögreglunnar á Selfossi hefði ekki verið beint gegn honum eða félögum hans og því hefði hann hlotið að gera sér grein fyrir því að málinu væri lokið. Sex mánaða fyrningarfrestur hefði því verið löngu liðinn þegar málið var höfðað. Lögmaður mannsins hafnaði því og benti m.a. á að honum hefði aldrei verið tilkynnt með formlegum hætti að rannsókn málsins hefði verið felld niður. Fyrningarfresturinn væri því ekki byrjaður að líða. Á þetta féllst héraðsdómur 19. október síðastliðinn. Þá var lögmaður mannsins Sigríður Rut Júlíusdóttir, Skarphéðinn Þórisson var til varnar og Friðgeir Björnsson kvað upp dóminn.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.