19. febrúar 2005 | Menningarblað/Lesbók | 2548 orð | 7 myndir

Húsin í bænum

Tala ofan í hvert annað

Landsbankinn Viðbygging Gunnlaugs Halldórssonar við Landsbankann í Austurstræti var umdeild en henni var lokið 1940. Í Tímanum sagði Jónas frá Hriflu að "arkitektinn hafi leyst byggingamál bankans þannig að stappaði nærri þjóðarsorg". Jónas taldi mikilvægt að koma slíkum "nýhyggjumönnum í húsagerðarlist" fyrir kattarnef eins og fram kemur í fyrirlestri sem Gunnlaugur hélt á kvöldfundi í arkitektafélaginu árið 1978. Þar lýsti Gunnlaugur ástandinu í íslenskri byggingarlist þegar hann kom heim menntaður í faginu og hlaut það verkefni að teikna viðbyggingu við Landsbankahúsið. Höfundur þess var Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins en af fyrirlestri Gunnlaugs má skilja að vald Guðjóns hafi verið nánast algert í húsagerðarlist á landinu. Að mati Gunnlaugs og annarra ungra arkitekta sem komu heim frá námi á árunum 1933 til 1938 var Guðjón mjög afturhaldssamur og gamaldags í viðhorfum sínum til byggingarlistar. Það hafi mátt sjá í byggingum hans svo sem Landsbankahúsinu í Reykjavík og á Selfossi sem hafi verið í anda 400 ára gamallar stíltegundar, það er í endurreisnarstíl. Af fyrirlestri Gunnlaugs má skilja að með viðbyggingu Landsbankans hafi hann verið að mótmæla þessu ástandi. Að mati Péturs H. Ármannssonar er þessi viðbygging Gunnlaugs orðin hluti af menningarsögu þjóðarinnar þótt það sé umdeilanlegt hvernig hún eigi við aðalbygginguna. "Séð frá Hafnarstræti er þetta raunar afar fallegur arkitektúr," bætir Pétur við. "Efnisval er fallegt og frágangsatriði eru vönduð. Þetta er fáguð byggingarlist þótt umdeild sé."
Landsbankinn Viðbygging Gunnlaugs Halldórssonar við Landsbankann í Austurstræti var umdeild en henni var lokið 1940. Í Tímanum sagði Jónas frá Hriflu að "arkitektinn hafi leyst byggingamál bankans þannig að stappaði nærri þjóðarsorg". Jónas taldi mikilvægt að koma slíkum "nýhyggjumönnum í húsagerðarlist" fyrir kattarnef eins og fram kemur í fyrirlestri sem Gunnlaugur hélt á kvöldfundi í arkitektafélaginu árið 1978. Þar lýsti Gunnlaugur ástandinu í íslenskri byggingarlist þegar hann kom heim menntaður í faginu og hlaut það verkefni að teikna viðbyggingu við Landsbankahúsið. Höfundur þess var Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins en af fyrirlestri Gunnlaugs má skilja að vald Guðjóns hafi verið nánast algert í húsagerðarlist á landinu. Að mati Gunnlaugs og annarra ungra arkitekta sem komu heim frá námi á árunum 1933 til 1938 var Guðjón mjög afturhaldssamur og gamaldags í viðhorfum sínum til byggingarlistar. Það hafi mátt sjá í byggingum hans svo sem Landsbankahúsinu í Reykjavík og á Selfossi sem hafi verið í anda 400 ára gamallar stíltegundar, það er í endurreisnarstíl. Af fyrirlestri Gunnlaugs má skilja að með viðbyggingu Landsbankans hafi hann verið að mótmæla þessu ástandi. Að mati Péturs H. Ármannssonar er þessi viðbygging Gunnlaugs orðin hluti af menningarsögu þjóðarinnar þótt það sé umdeilanlegt hvernig hún eigi við aðalbygginguna. "Séð frá Hafnarstræti er þetta raunar afar fallegur arkitektúr," bætir Pétur við. "Efnisval er fallegt og frágangsatriði eru vönduð. Þetta er fáguð byggingarlist þótt umdeild sé."
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að reisa borg er verkefni sem byggist á samræðu og þessi samræða þarf að fara fram eftir ströngustu kröfum: Aðeins einn talar í einu og hinir hlusta og svara síðan af fullri virðingu fyrir orðum fyrri mælenda, með kurteisi og íhygli; frammíköll, hvers...
Að reisa borg er verkefni sem byggist á samræðu og þessi samræða þarf að fara fram eftir ströngustu kröfum: Aðeins einn talar í einu og hinir hlusta og svara síðan af fullri virðingu fyrir orðum fyrri mælenda, með kurteisi og íhygli; frammíköll, hvers konar orðagjálfur og almennt blaður út fyrir efnið ættu ekki að heyrast enda mjög mikilvægt að samræðan sé markviss þó að þátttakendur kunni að greina á um efnisatriði. Án ágreinings væri raunar lítið um að tala auk þess sem krafturinn, dínamíkin myndi hverfa, og markmið samræðunnar gufaði upp en það er hin endalausa leit að fagurfræðilegri niðurstöðu, samhengi sem í senn gleður augað, lyftir sálinni og fullnægir þörfum okkar - leit að fallegri borg. Í Reykjavík hafa kröfur hinnar yfirveguðu, íhugulu og kurteisu samræðu ekki alltaf verið hafðar í hávegum, hér hafa menn talað ofan í hver annan án þess að hlusta, það má jafnvel efast um að það búi mikil hugsun á bak við sum frammíköllin, að minnsta kosti hefur orðagjálfrið stundum keyrt um þverbak og farið hefur verið út um víðan völl með sum efnisatriði, upp um holt og móa, eins og tilgangurinn einn væri að dreifa athyglinni, eyðileggja samhengið. Reykjavík er borg blaðursins. Því miður. Í mörgum efnum er hún eins og skopstæling á frönsku nýsögunni eða lélegur dægurlagatexti: Hún meikar ekki sens! En samt, samt er eitthvað við hana því að þótt hugsunin í þessum texta sem götur hennar og hús hafa myndað sé oft og tíðum slitrótt þá er þar ein og ein setning, eitt og eitt orð sem vekja tilfinningu fyrir fallegri hugsun, merkingu. Í næstu Lesbókum verður fjallað um samhengisleysi og merkingu í borgarlandslaginu. Í þessari fyrstu grein er skoðað hvernig byggt hefur verið við gamlar byggingar í miðbæ Reykjavíkur, stundum af mikilli virðingu og smekkvísi, stundum af umdeilanlegri smekkvísi, stundum með smekklausum athugasemdum við eldri verk. Með í för er Pétur H. Ármannsson. * 3

Það er eðli borga að breytast með tímanum. Ný hús bætast við eldri byggð, ný hverfi eru skipulögð, nýjar götur lagðar, ný samgöngutæki koma til sögunnar og svo framvegis. Allt er þetta hluti af eðlilegri þróun borgar. Viðbyggingar við eldri hús eru einnig eðlilegur þáttur í þróun borgar. Það er beinlínis gert ráð fyrir að byggt sé við sum hús. Hver kannast ekki við alla gluggalausu gaflana í Reykjavík sem gera ráð fyrir að ný bygging leggist upp að hlið sér. Og hver kannast ekki við breytingar á eldri húsum í borginni sem oftast hafa verið gerðar til þess að húsin nýttust áfram sem best, þjónuðu hlutverki sínu betur og í samræmi við kröfur nýrra tíma. Það verður ekki hjá því komist að halda áfram að byggja og breyta í lifandi borg. En spurningin er hvernig það er gert.

Tala má um tvö grundvallarsjónarmið þegar byggt er við gömul hús: Annaðhvort er leitast við að fella nýbygginguna að stíl eldri byggingarinnar með sem nákvæmustum hætti eða þvert á móti, hið nýja innlegg er látið skera sig frá því sem fyrir var með afgerandi hætti. Báðar aðferðirnar eru í sjálfu sér góðar og gildar. Dæmi um þær eru til í miðbæ Reykjavíkur þó að fyrrnefnda aðferðin sé öllu sjaldgæfari. Viðbyggingin við Eimskipafélagshúsið Hafnarstrætismegin virðist gerð með það að augnamiði að láta sem minnst á henni bera. Ef frá er talið skyggni yfir innganginum í húsið, sem er gríðarmikill steyptur fleki, þá er efnisnotkun sú sama auk þess sem hlutföllum og flestum öðrum útlitseinkennum upprunalegu byggingarinnar er haldið. Viðbyggingarnar við Landsbankahúsið hinum megin Hafnarstrætisins og við Austurstræti eru hins vegar af allt öðrum toga, notuð eru önnur efni og form, og raunar var húsunum sem sneru að Hafnarstrætinu breytt þannig að hvorki sést tangur né tetur af upprunalegri gerð þeirra. (Nánar er fjallað um Landsbankahúsið annars staðar í opnunni.)

Í göngutúr um miðbæinn í ískaldri Reykjavíkurrigningu skoðum við Pétur H. Ármannsson, arkitekt og forstöðumaður byggingalistadeildar Listasafns Reykjavíkur, nokkrar viðbyggingar sem hæglega má setja í þessa tvo flokka en það eru auðvitað mörg önnur sjónarmið sem liggja slíkum byggingum til grundvallar.

Oddfellowhúsið - breyttar forsendur

Margir þekkja sjálfsagt viðbygginguna við Oddfellowhúsið í Vonarstræti. Húsið var stækkað með því að bæta við bakhluta þess sem var gluggalaus og vísaði út í port. Þessi hluti byggingarinnar átti aldrei að vera sýnilegur í borgarmyndinni, að sögn Péturs.

"Húsið teiknaði Þorleifur Eyjólfsson inn í aðalskipulagið frá 1927 sem gerði ráð fyrir að Thorvaldsensstræti, sem liggur austur með símahúsinu, ætti að ná yfir Kirkjustræti og að Vonarstræti en fyrir endann Tjarnarmeginn átti að rísa Ráðhús með turninngangi sem blasti við fólki alla leið úr Austurstræti en göng áttu að vera í gegnum húsin sunnan megin þess þar sem ný skrifstofubygging Alþingis stendur nú. Ekki var gert ráð fyrir að gömlu timburhúsin við Kirkjustræti stæðu áfram heldur átti að reisa aðra jafnháa samfasta byggingu við hlið Oddfellowhússins í Thorvaldsensstræti. Einnig átti að reisa aðra byggingu við vesturhlið hússins Vonarstrætismegin. Báðir þessir gaflar voru því einnig gluggalausir."

Pétri þykir viðbyggingarnar aftan við húsið vera skiljanlegar í því samhengi að portið átti aldrei að vera sýnilegt. Forsendur skipulagsins frá 1927 hafa síðan breyst þannig að timburhúsin í Kirkjustræti hafa verið vernduð og þar með verður bakhlið Oddfellowhússins sýnileg í borgarmyndinni. Í því ljósi er viðbyggingin ef til vill ekki vel heppnuð enda frekar fyrirferðarmikil og klasturskennd. Þessi saga sýnir hins vegar vel við hvað er að glíma í mótun á útliti borgarinnar. Forsendur geta breyst mikið með litlum fyrirvara.

Breyttar forsendur í borgarskipulaginu höfðu ekkert með eldri viðbyggingu við Oddfellowhúsið að gera en það er risið sem sett var ofan á flatt þakið. Líklega vita færri að þetta er seinnitíma viðbót við húsið enda ekki jafnáberandi og viðbyggingin að aftanverðu þótt undarlegt megi virðast. Þegar risið er skoðað sérstaklega er þó augljóst að þar er um viðbyggingu að ræða enda hefur ekki verið hugað að því að hafa það í stíl við aðalbygginguna; risið brýtur upp sterkar láréttar línur í steypubrúnum byggingarinnar en það eru sérstaklega litlu gluggarnir sem standa upp úr þakinu eins og horn í kolli skrattans sem setja annarlegan svip á bygginguna. Pétur H. Ármannsson segir að flata þakið hafi verið hugsað sem útsýnissvalir.

"Þessi bygging var reist sem samkomuhús og áttu gestir að geta gengið út á þakið og horft yfir borgina og út á sundin. Þetta var afar falleg hugsun og í samræmi við fúnksjónalismann en í honum var talað um að nýta þakið sem dvalarstað."

Frek tengibygging milli timburhúsa

Þær tvær meginstefnur í gerð viðbygginga sem nefndar voru hér að framan eru litaðar viðhorfum tveggja ólíkra tímabila í byggingarlist. Á nítjándu öld segir Pétur að menn hafi ekki haft neinar áhyggjur af því hvort bygging væri trúverðugur fulltrúi síns tíma, áherslan var öll á skrautlegt útlit. Hin móralska krafa um að byggingar skírskoti til tímans kom fram með módernismanum. Á tuttugustu öld var því beinlínis lögð sérstök áhersla á að viðbyggingar skæru sig frá upprunalega húsinu. Þessari kröfu hafa arkitektar svarað með ýmsum hætti. Góð dæmi, gömul og ný, er að finna í og við Alþingishúsið við Austurvöll.

Fyrir nokkrum árum var efnt til samkeppni um skrifstofubyggingu fyrir Alþingi. Gefin var sú forsenda að gömlu timburhúsin áðurnefndu við Kirkjustræti ættu að víkja. Ein tillagan í keppninni gerði hins vegar ráð fyrir að húsin stæðu áfram. Hún hlaut ekki verðlaun en segja má að hún hafi unnið samkeppnina þegar upp var staðið því að það varð ofan á að gera upp gömlu húsin og setja tengibyggingu á milli þeirra.

"Þessi tengibygging vakti óneitanlega athygli þegar hún var komin á sinn stað," segir Pétur. "Hún sker sig ansi mikið frá gömlu húsunum og er frek í umhverfinu en hún inniheldur að mestu inngang og stigahús."

Að mati Péturs vekur þessi bygging margar áhugaverðar spurningar um eðli byggingalistar og sérstaklega þess að byggja við.

"Hér hefði vissulega verið möguleiki að framlengja annað húsanna, ef svo má segja, gera viðbyggingu sem hefði gluggaskipan og efnisáferð gömlu húsanna. Mín afstaða er að sú leið sé í góðu lagi, einkum þegar um minni viðbyggingar sé að ræða. Í svona tilvikum verður smekkvísi manna og dómgreind að ráða því hvaða leið er valin."

Alþingishúsið - sýnilegur arkitektúr eða ekki?

Pétur bendir einnig á sjónarmið sem franski arkitektinn Dominique Perrault setti fram um að byggingarlist snerist fyrst og fremst um að ákveða hvenær hún á að vera sýnileg og hvenær ekki.

"Stundum eru eldri hlutir eyðilagðir með því að búa til nýja," segir Pétur.

Og líklega er þetta einmitt spurningin sem glímt var við þegar byggt var við Alþingishúsið sjálft og tengja þurfti viðbygginguna og þá gömlu; átti að gera það með sýnilegum hætti eða ekki? Niðurstaðan varð þessi ótrúlega fyrirferðarmikli, tveggja hæða, grænleiti glerrani sem stendur á milli húsanna og gerir, þrátt fyrir gagnsætt efnið, fátt til þess að láta lítið á sér bera.

Hvað ætli hafi vakað fyrir mönnum?

"Í þessu tilviki stóðu yfirvöld húsafriðunar frammi fyrir ákveðnum vanda," segir Pétur svolítið þungur á brún, "sem er sá að það er eitt af skilyrðum fyrir varðveislu bygginga að þær þjóni hlutverki. Í þessu tilviki var spurningin sú hvort Alþingi gæti starfað áfram í gamla húsinu, haldið áfram að vera táknrænn miðpunktur þessarar merku stofnunar nema með því að auka húsrými. Einhvers konar viðbygging hlaut því að þurfa að koma til. Í samkeppninni um viðbygginguna voru uppi hugmyndir um neðanjarðartengingu milli húsanna. Mér skilst hins vegar að það hafi verið miklir praktískir annmarkar á þeirri lausn. Að auki hafi verið uppi óskir um að hægt væri að ganga á milli húsanna á báðum hæðum. Það myndi fela í sér mikið hagræði og í raun gera mönnum kleift að starfa áfram í gamla húsinu um ófyrirséða framtíð."

Burtséð frá tengibyggingunni hefur viðbyggingin tekist ágætlega. Pétur bendir til dæmis á að hlutföllin milli aðalbyggingarinnar og viðbyggingarinnar séu með þeim hætti að nýja húsið skyggir ekki á það gamla heldur dregur sig til baka þegar horft er frá Austurvelli. Hann segir aftur á móti að útfærsla á þaki og val á gleri og fleiri smáatriði séu með öðrum hætti en hann hefði kosið.

Alþingiskringlan - sérstaðan í hinu smáa

Önnur og mun eldri viðbygging er við Alþingishúsið. Flestir þekkja þennan hluta byggingarinnar enda skagar hún út úr henni en færri vita sennilega að hann var upprunalega ekki hluti af húsinu. Þetta er kringlan aftan á húsinu sem var teiknuð af danska arkitektinum Frederik Kiørboe árið 1909 en hann er einnig höfundur Landakotsskóla og Reykjanesvita. Að mati Péturs H. Ármannssonar er þessi viðbygging ein sú best heppnaða í borginni.

"Munurinn á þessari viðbyggingu og til dæmis þeirri sem tengir saman gömlu timburhúsin í Kirkjustræti er sá að það þarf að rýna vel til þess að koma auga á að hún er frá öðrum tíma en aðalbyggingin en tengibyggingin milli gömlu húsanna hreinlega öskrar á mann. Kiørboe sýnir að oft þarf ekki nema eitthvað pínulítið til þess að skapa sérstöðu og tjá mismunandi tíðaranda. Sé kringlan skoðuð vel má sjá að gluggastærðin er önnur en í frumbyggingunni og það er svolítið meira flúr í veggjunum. Hann leysti verkefnið af mikilli fágun."

Þjóðminjasafnið - aðrar leiðir?

Sennilega verður ekki deilt um að það sé mjög misauðvelt að byggja við gömul hús. Oddfellowhúsið gerir til dæmis ráð fyrir að byggt sé við tvær hliðar þess eins og áður var getið. Það hefur reyndar ekki verið gert á þeim rúmlega sjötíu árum sem liðin eru frá því húsið var reist þótt byggt hafi verið við það með öðrum hætti. Gluggalausir gaflar eru víða í borginni eins konar minjar um hugmyndir um samfellda borgarbyggð. En í borginni eru einnig reist hús sem eru hugsuð sem hringsæjar byggingar, form þeirra er nákvæmlega hugsað frá öllum sjónarhornum og standa nánast eins og höggmynd í borgarlandslaginu. Þjóðminjasafnið á horni Suðurgötu og Hringbrautar er eitt þessara húsa en það er teiknað af Sigurði Guðmundssyni og Eiríki Einarssyni árið 1945. Pétur segir það dæmi um byggingu sem nánast útilokað er að byggja við án þess að setja hana niður.

"Með þessu er ég ekki að gera lítið úr þeim sem teiknuðu viðbygginguna. Næmt formskyn var einkennismerki þeirra Sigurðar og Eiríks; hús þeirra voru listilega úthugsuð í þrívíðu formi. Þeir teiknuðu mörg fyrstu funkishúsin í Reykjavík og þau eru einnig afar viðkvæm fyrir breytingum."

Hin nýja viðbygging við húsið er í raun í tvennu lagi, annars vegar steyptur inngangur við suðurgafl hússins og hins vegar skáli úr gleri og stáli við austurhlið þess. Mikið ber á inngangsbyggingunni enda umbreytir hún algerlega öllum suðurgafli hússins sem var afar fallegur. Sú spurning hlýtur að vakna hvers vegna arkitektar breytinganna létu ekki minna á þeim bera.

"Það má velta því fyrir sér hvort aðrar leiðir hefðu ekki verið heppilegri," segir Pétur. "Hugsanlega hefði mátt byggja anddyrið með austurhliðinni, hafa það í lægri byggingu sem sneri að trjágöngunum og leysa innra flæðið með öðrum hætti. Væntanlega hefði minna farið fyrir slíkri byggingu. Eflaust hafa menn velt þessum möguleikum mjög vel fyrir sér en komist að annarri niðurstöðu."

Pétri þykir það galli á þeirri leið sem farin var að ekki sést vel hvar gamla byggingin endar og hvar sú nýja tekur við.

"Sá sem kemur að húsinu og veit ekki af viðbyggingunni kann að eiga í erfiðleikum með að skilja hina upprunalegu

formhugsun. Skilin eru ekki skýr. Það kann því að vera ákveðinn kostur að hafa viðbyggingar í allt öðrum stíl en frumbyggingarnar eru, til dæmis eins og gert var við Alþingishúsið. En þetta er alltaf spurning um ákveðið jafnvægi og fagurfræðilegt mat."

Fagurfræðileg dómgreind

Jafnvægi og fagurfræðilegt mat. Það eru lykilorð.

Í sjálfu sér er sú hefð sem hér hefur sumpart skapast um að byggja við gamlar byggingar ekki vond. Alþingishúsið og Þjóðminjasafnið eru stór hluti af sjálfsmynd Reykjavíkur og þjóðarinnar allrar. Það eru sannarlega ákveðin verðmæti fólgin í því að þessi hús séu enn í fullri notkun. Þannig halda þau áfram að vera virkur þáttur í þjóðarvitundinni en ekki aðeins hluti af sögulegum minjum. Til þess að hægt sé að nýta þessar byggingar er oft óhjákvæmilegt að stækka þær og breyta þeim í takt við nýjar kröfur og nýja tækni. Út frá byggingarsögulegum og fagurfræðilegum sjónarmiðum séð þurfa þessar viðbætur ekki að vera vondar heldur. Eins og Pétur bendir á er það alþekkt í evrópskri byggingarsögu að mikilvæg hús hafi tekið miklum breytingum í gegnum aldirnar og hver viðbygging beri tíma sínum vitni, sé merkileg menningarsöguleg heimild. Séu byggingarnar varðveittar í sinni upprunalegu mynd eru vissulega ákveðin byggingarsöguleg og fagurfræðileg verðmæti fólgin í því en menningarsögulegt gildi slíkra mannvirkja er annað og í vissum skilningi minna.

En þessi hefð að halda ákveðnum lykilbyggingum í notkun með því að byggja við þær breytir því ekki að aðalatriðið er að ganga um hinn byggingarsögulega arf af fullri virðingu og smekkvísi. Við verðum að gangast við því að borgin verður ekki byggð í eitt skipti fyrir öll en sú samræða sem fram fer á milli ólíkra tímaskeiða verður jafnframt að vera skynsamleg, yfirveguð, í samhengi og samræmi við ákveðin fagufræðileg gildi.

"Arkitekt klárar aldrei verkið," segir Pétur. "Hann getur vandað sig eftir megni en síðan verður hann að treysta komandi kynslóðum fyrir því að lesa úr verki sínu á skynsamlegan og smekklegan hátt. Þegar upp er staðið snúast viðbyggingar, eins og þær sem við höfum verið að skoða, um fagurfræðilega dómgreind einstaklinga sem hafa eitthvað um það að segja hvernig borgin þróast. Til þess að bæta og efla þetta starf er mikilvægast að menntun arkitekta í fagurfræði og sögu byggingarlistar sé með sem bestum hætti."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.