FÆREYINGAR lögðu sitt af mörkum við gerð Reykjavíkurflugvallar á sínum tíma. Sumarið 1941 komu hingað 250 Færeyingar hvaðanæva úr Færeyjum og unnu við flugvallargerðina í þrjá mánuði.

FÆREYINGAR lögðu sitt af mörkum við gerð Reykjavíkurflugvallar á sínum tíma. Sumarið 1941 komu hingað 250 Færeyingar hvaðanæva úr Færeyjum og unnu við flugvallargerðina í þrjá mánuði.

Nú hyggja þeir, sem enn lifa úr þessum hópi, á endurfundi en flugvallargerðarmennirnir hafa ekki hist í meira en 60 ár. Þetta kemur fram í grein færeyska blaðamannsins Áka Bertholdsen í Sosialurin nýlega.

Aðeins menn á besta aldri

Færeyska lögþingið auglýsti í maí 1941 eftir 800 færeyskum verkamönnum til starfa á Íslandi. Leitað var vinnufærra manna á besta aldri, 20-50 ára. Thorbjørn Lisberg í Trongisvági var einn Færeyinganna sem brugðust við og fóru í Bretavinnuna á Íslandi. Þeir fengu ókeypis far með ensku skipi til Íslands og heim aftur. Í fararbyrjun fékk hver maður tvö teppi til að halda á sér hita á leiðinni. Færeyingarnir voru ráðnir upp á sömu kjör og íslenskir verkamenn, 196 aura á tímann. Þeir gistu í stórum tjöldum, 5-6 í hverju tjaldi, og stóð tjaldborgin í Öskjuhlíðinni nálægt þar sem Perlan er nú. Matinn sköffuðu Bretarnir og urðu verkamennirnir að borga fyrir hann.

Thorbjørn segir að Færeyingarnir hafi lent í mörgum vinnuflokkum ásamt Íslendingum og Bretum. Hann segir að veðrið hafi verið gott meðan á Íslandsdvölinni stóð. Það var keppst við flugvallargerðina, en í frístundum gerðu Færeyingarnir sér dagamun, fóru í bæinn og þótti gaman að fara í bíó í Reykjavík eða Hafnarfirði.

Ortu brag til yfirmannsins

Tiltekinn enskur yfirmaður var í miklu dálæti hjá færeysku verkamönnunum, svo miklu að ort var til hans kveðjuljóð sem þýtt var á ensku. Á skilnaðarstund sungu Færeyingarnir braginn fyrir Englendinginn.

Að lokinni sumardvölinni og flugvallarvinnunni héldu Færeyingarnir aftur heim á leið með stóru farþegaskipi, Bergensfjord. Skipið flutti mennina til Skotlands og þaðan fengu þeir síðan far með öðru skipi til Færeyja.

Þeir sem vilja vita nánar um endurfundina geta hringt til Thorbjørns Lisberg í Trongisvági (s. 37 11 50) eða til Jákup Michael Mikkelsen á Toftum (44 74 45).