"Já, Úkraínumenn horfa til Evrópu þessa dagana; þeir vilja ekki bara komast í ESB og NATO..."

Það var kannski tímanna tákn að úkraínska söngkonan Rúslana skyldi vinna Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í maí í fyrra. Hálfu ári eftir sigur Rúslönu, fylgdist heimsbyggðin með forsetakosningunum í Úkraínu, appelsínugulu byltingunni, og því þegar Evrópusinninn Jústsenkó sór embættiseið sem nýr forseti landsins.

Í ljósi þessara sigra, þ.e. sigra Rúslönu og Jústsenkós, er kannski ekki að undra að maður hugsi: Verður Evróvisjón-söngvakeppnin, sem fram fer í Kænugarði í vor, kannski fyrsta (táknræna) skref Úkraínumanna af mörgum, í átt að Evrópu?

Eins og kunnugt er stefnir Jústsenkó, hinn nýkjörni forseti Úkraínu, að því að koma landinu inn í Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið. Notar hann hvert tækifæri til að ítreka þær óskir - nú síðast á leiðtogafundi NATO, sem haldinn var í Brussel í byrjun vikunnar. Hann sagði m.a. við fréttamenn eftir leiðtogafundinn í gær að þeim sem hefðu kosið hann hefði verið efst í huga að Úkraína yrði hluti af Evrópu - en ekki bara nágranni Evrópu.

Úkraína er á mikilvægu landsvæði; hún liggur mitt á milli nýrra Evrópusambandslanda, gamalla Sovétlýðvelda og fyrrum leppríkja Sovétríkjanna; hún liggur m.ö.o. að Rússlandi, Hvíta-Rússlandi, Póllandi, Slóvakíu, Ungverjalandi, Moldóvu og Rúmeníu. Í Úkraínu búa tæpar fimmtíu milljónir manna.

Landið tilheyrði lengi vel rússneska keisaradæminu, var síðar innlimað í Sovétríkin, en öðlaðist fullt sjálfstæði árið 1991, þegar Sovétríkin voru leyst upp.

Ljóst er að Jústsenkó og fylgismenn hans í Úkraínu hafa miklar væntingar til Evrópusambandsins; væntingarnar eru ekki hvað síst bundnar við betri lífskjör.

Þessar væntingar, vonir og þrár fóru ekki framhjá mér þegar ég var í Úkraínu á síðasta ári.

Heimamenn spurðu mikið út í lífskjör á Íslandi, s.s. út í laun, eftirlaun og fleira. Sjálfir sögðu þeir mér að meðallaunin í Úkraínu væru í kringum áttatíu evrur á mánuði.

Ég hitti til að mynda gamlan hermann sem tjáði mér að eftirlaunin sín væru í kringum hundrað evrur á mánuði. "Ætli eftirlaunin hækki við inngönguna í Evrópusambandið?" spurði þessi aldni hermaður, svolítið hugsi, þegar við ræddum þessi mál. Ekki treysti ég mér til að fullyrða neitt um það.

Já, Úkraínumenn horfa til Evrópu, þessa dagana; þeir vilja ekki bara komast í ESB og NATO, þeir hafa líka sóst eftir því að halda Evrópukeppni landsliða í knattspyrnu árið 2012. Svo má ekki gleyma Evróvisjón - Söngvakeppni evrópsku sjónvarpsstöðvanna, en hún verður haldin í Kænugarði í vor, eins og áður sagði.

Því má bæta við, áður en lengra er haldið, að orðrómur um að Jústsenkó vildi ekki að Evróvisjón-keppnin yrð haldin í Úkraínu, lét á sér kræla, fyrir forsetakosningarnar á síðasta ári. "Ertu viss?" spurði ég unga úkraínska konu sem tjáði mér þessi undarlegu tíðindi. "Já," svaraði hún sannfærandi. "Ertu ekki að meina Janúkóvítsj?" spurði ég aftur og vísaði þar til hins forsetaframbjóðandans sem hafði á stefnuskrá sinni að færa Úkraínu nær Rússlandi. "Nei," svaraði hún aftur án nokkurra svipbrigða eða athugasemda um það hvað henni sjálfri fyndist um þessi mál.

Sennilega var þetta bara enn ein furðusagan sem gekk um í kosningabaráttunni í Úkraínu. Alltént virðist fara vel á með þeim Rúslönu og Jústsenkó, á mynd sem birt er á forsíðu Evróvisjón - vefjarins á Netinu. (Ekki má heldur gleyma því að Rúslana fór í hungurverkfall, að eigin sögn, til að mótmæla kosningasvikum í Úkraínu á síðasta ári og studdi þar með málstað Jústsenkós).

Á vef söngvakeppninnar er greint frá því að Rúslana og Jústsenkó hafi nýverið hist, ásamt yfirstjórnanda keppninnar, til að ræða framkvæmd hennar. Skýrt er frá því að fundur þeirra hafi staðið yfir í um það bil klukkustund og að forsetinn hafi lýst yfir fullum stuðningi við keppnina. Hann hafi jafnframt getið þess að Úkraína hafi beðið eftir þessu tækifæri síðustu fjórtán árin! Þá hafi hann sagt að söngvakeppnin yrði ofarlega á verkefnalista nýrrar ríkisstjórnar!

Ef marka má vef keppninnar - og reyndar engin ástæða til annars - er nýkjörnum forseta mjög umhugað um að hún takist vel. Ekkert ætti því að koma í veg fyrir að Úkraína taki sín fyrstu formlegu skref, ef svo má segja, í átt að Evrópu í vor.

Sumir myndu kannski segja að þetta væru ekki sérlega menningarleg skref, enda flokkaðist Evróvisjón-keppnin undir svokallaða lágmenningu fremur en hámenningu.

En hvað sem því líður er keppnin, eins og við Íslendingar þekkjum manna best, afskaplega vinsæl. Á sjálfu Evróvisjón- kvöldinu, tæmast götur og áhugamenn - ekki bara á Íslandi heldur víða um Evrópu - sameinast í spenningi yfir stigagjöfinni.

Ég verð þó að viðurkenna að mér hefur fundist sem keppnislögin hafi haft tilhneigingu til að líkjast hvert öðru æ meir undanfarin ár - með fáeinum undantekningum þó. Eins og það sé eitthvert ósýnilegt "Evrópustaðals-lag", sem allir séu að reyna að líkja eftir. Það er þó vonandi að ný keppnislönd haldi sérkennum sínum og geri fjölbreytnina meiri. Já, vonandi að Úkraína stígi ekki skrefið allt of langt inn í Evrópu!

Eftir Örnu Schram arna@mbl.is