Herdís Jóna Guðnadóttir fæddist í Reykjavík 15. apríl 1914. Hún lést í Reykjavík 15. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðni Eyjólfsson, verkstjóri í Gasstöðinni í Reykjavík, og Sigrún Sigurðardóttir, húsmóðir. Systkini hennar voru Njáll, Kjartan Ragnar, d. 1991, Gunnar Baldur, Hrefna Guðríður, Sigríður, Guðjón, d. 1998, Jóhann, d. 2000, og Agnar.

Herdís giftist Erlendi Vilhjálmssyni, deildarstjóra lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar ríkisins. Foreldrar hans voru Vilhjálmur Ásgrímsson og Gíslína Erlendsdóttir. Herdís og Erlendur ættleiddu saman einn son Guðna Erlendsson, sem er kvæntur Steinunni Skúladóttur og búa þau í Kaupmannahöfn.

Útför Herdísar fer fram frá Neskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Í dag kveð ég ömmu Dísu sem hefur reynst mér líkt og foreldri frá blautu barnsbeini. Þær eru margar góðar stundirnar sem rifjast upp þegar ég hugsa tilbaka. Hún og afi minn Erlendur sem lést 1995 hafa gegnt lykilhlutverki í uppeldi okkar systkina og ekki síst mínu þar sem ég bjó hjá þeim á menntaskólaárunum. Það má því með sanni segja að ég hafi verið ömmu- og afabarn. Með láti ömmu er endir orðinn á ákveðnu skeiði sem einkenndist af sunnudagsheimsóknum með vöfflum, bauna- og kjötsúpukvöldverðum og mikilli maríasspilamennsku. Sumt verður aldrei eins, og ljóst er þegar þetta er ritað að ég mun fást við mína eigin baunasúpueldamennsku fyrir fjölskylduna með uppskrift sem amma lét mig hafa á spítalanum og er í raun aðeins upplýsingar um hráefni þar sem allt annað var unnið eftir áratuga reynslu og innsæi.

Þar sem alsystkini mín og foreldrar eru austurfarar og hafa búið í baunalandi undanfarin 14 ár þá kom það einnig í minn hlut og konu minnar Guðrúnar að vera fulltrúar fjölskyldunnar og aðstoða ömmu Dísu með ljósaperuskipti og annað nytsamlegt sem níræð hefðarfrú treystir sér ekki í. Síðustu mánuðina fylgdi ég henni í gegnum erfiðasta tíma ævi sinnar og fann ég þá sérstaklega vel fyrir því hvað vinátta okkar risti djúpt.

Ég kveð þig, amma mín, með söknuði, veit að þú ert í góðum höndum hjá afa, megi Guð geyma ykkur.

Þitt barnabarn

Erlendur Steinn.

Elsku amma, dúllan mín.

Þetta er síðasta bréfið af mörgum gegnum árin frá mér til þín. Þú hefur verið amma mín og besta vinkona alveg frá því ég man eftir mér og ég á svo margar góðar minningar frá því að ég sem krakki kom á hverju sumri i heimsókn til þín og afa. Og seinna eftir að afi dó hélt ég áfram að koma til þín og var hjá þér í mánuð á hverju sumri. Alltaf vorum við að dútla okkur við að snyrta hvor aðra, spila, fara í bingó og horfa á spennumyndir langt fram á nótt og svo sváfum við langt fram eftir. Það var svo erfitt að kveðja þegar ég átti að fara heim til Danmörku aftur af því alltaf var jafn notalegt að vera hjá þér. Meira að segja dýrin frá nágrönnum stóðu í röð til að heimsækja þig. Fjölskyldan í Danmörku hlakkaði alltaf til að fá þig í heimsókn enda varstu hörku kona og komst þrátt fyrir að þú værir orðin níræð. Alltaf varstu jafn flott í þínum fínu kjólum. Þér var nefnilega ekki alveg sama um hvernig þú leist út. Ég man eftir þegar þú sast síðast í hárgreiðslustólnum hjá mér, orðin níræð og vildir bara fá smartar strípur og ekki neitt pjatt. Þú varst svo ung í anda en það er ekki hægt að lýsa þér, þú varst svo einstök. Þú varst með svo mikinn húmor að maður gleymdi oft hvað þú varst gömul, þú stóðst aldrei kyrr og fylgdist alltaf með öllu, alveg fram á það síðasta. Ég er svo þakklát fyrir að ég var hjá þér tvisvar i sumar og sonur minn og barnabarnabarnið þitt fékk að upplifa þig og sjá hversu yndisleg manneskja þú varst. Ég á svo margar góðar minningar og það er mikill missir að missa þig. Ég vildi óska þess að þú hefðir orðið eilíf. Þú átt svo stórt pláss í hjartanu á mér og ert mér virkilega mikil fyrirmynd. Ég veit að við eigum að vera þakklát fyrir að hafa getað haft þig svona lengi og núna er kominn tími til að afi fái þig aftur af því hann er búinn að bíða eftir þér.

Ég elska þig af öllu mínu hjarta og mun geyma allar góðu minningar um þig í hjarta mínu að eilífu.

Þitt barnabarn,

Nína Sif Guðnadóttir.

Ef heimurinn væri ríkari af einstaklingum eins og ömmu Dísu væri hann ekki bara ljúfari og elskulegri; hann væri fyrst og fremst skemmtilegri. Ég hitti ömmu Dísu fyrst þegar ég byrjaði að vera með sonarsyni hennar, Erlendi Steini, í ársbyrjun 1996. Elli hafði mikið rætt um ömmu Dísu og alltaf af jafnmikilli hlýju og lotningu og var ég geysilega stressuð þegar kom að því að hitta frú Dísu. En okkur Dísu kom stórvel saman frá upphafi og áður en ég vissi af var hún orðin mín besta vinkona; mikilvægur og dýrmætur partur af lífinu og tilverunni.

Ég á hafsjó af minningum sem munu ávallt fylgja mér; löng og notaleg kvöld á Flyðrugrandanum, full af kjötsúpu eða baunasúpu, spilamennsku og kjaftasögum. Við fengum okkur glas af sérrí, tuðuðum um pólitík þar til við urðum sammála um að vera ósammála og spiluðum endalausan marías en amma Dísa var heitfeng spilamanneskja og meinilla við að tapa. Enginn trúði henni þegar hún gaf upp aldur enda erfitt að trúa að þessi fallega, unglega kona væri komin á níræðisaldur. Amma Dísa var einfaldlega stórglæsileg kona.

Amma Dísa var full af orku. Hún ferðaðist alveg þangað til í fyrra en hún heimsótti son sinn Guðna og konu hans Steinunni í Kaupmannahöfn á hverju ári þar sem hún naut þess að dvelja. Hún spilaði þrisvar í viku bingó, bridge og vist alveg fram á síðustu stund og kvartaði sárlega undan leiðinlegri veru þegar hún þurfti að fara á sjúkrahús enda lítið um spilamennsku og skemmtilegheit auk þess sem listakokknum í henni var lítt gefið um spítalafæðið. Amma Dísa dó eins og hún lifði; með sæmd og reisn. Og eftir lifa allar góðu minningarnar um konu sem var risavaxin í lífsgleði sinni og ást á fjölskyldu og vinum. Hjarta mitt er fullt sorgar yfir missinum en jafnframt þakklæti yfir að hafa kynnst þessari einstöku konu sem gekk mér í ömmustað og kenndi mér svo ótalmargt.

Ástarþakkir fyrir allt, elsku Dísa mín. Þú gafst mér svo margt, kenndir mér að verða betri manneskja og munt lifa í hjarta mínu að eilífu.

Guðrún Gyða.

Síðustu samræður okkar Dísu snerust um pálmatré í draumi hennar. Sólargeislar brotnuðu á beittum blöðum pálmanna sem stöfuðu frá sér grænni birtu. Sú birta fyllir hug minn hér og nú. Mér fannst blöðin vera táknræn fyrir langt og gott líf hennar.

Líf sem einkenndist af áræði og dirfsku.

Þegar ég var tólf ára kom ég fyrst á heimili hjónanna Dísu og Erlendar á Reynimel. Síðan er liðinn langur tími en ég minnist ætíð þeirra fersku vinda sem þar blésu og voru mér krakkanum framandi.

Hjónin hlustuðu á Megas og Dylan og Dísa framreiddi nýstárlega rétti, rauðvínslegið lambalæri, með blóðbergskrydduðum kartöflum og lavazza-kaffi á eftir.

Heimilisfuglinn Karl I tyllti sér á breið blöð blómanna í stofunni á milli þess sem hann settist á handarbök gestanna til að eiga við þá orð.

Sá fugl er horfinn en annar kominn í hans stað. Hann heitir Karl II og var sólargeislinn í lífi Dísu.

Þann fugl lét hún mér eftir.

Með tímanum fjölgaði afkomendum á Reynimel og síðar í Granaskjóli. Dísa nærði börnin með sínum hætti; tveimur heitum máltíðum á dag, fiski í hádeginu og kjöti á kvöldin.

Þannig gekk það um skeið.

Börnin uxu úr grasi og fengu matarást á Dísu ömmu sinni sem eðlilegt var. En sú ást átti eftir að dýpka með tímanum þegar þeim lærðist hvílíkt kjarnakvendi amma þeirra var.

Ferðalög og spilamennska voru Dísu hugleikin, einkum brids sem hún naut að spila í vinahópi alveg fram til þess síðasta.

Eins og við vitum er lokaspilið aldrei fyrirséð, það var mér einnig hulið þegar hún sagði mér frá draumi sínum um pálmana. Um það hvísla örlögin.

Það birtir í huga mér í hvert sinn sem ég hugsa til þessarar sterku konu. Ég kveð hana með þakklæti og virðingu.

Valgerður.