Ásgerður Jóna Flosadóttir
Ásgerður Jóna Flosadóttir
Ásgerður Jóna Flosadóttir fjallar um vald kjósenda: "Stjórnmálamenn hafa í áraraðir brotið á rétti öryrkja, farið og fara illa með eldri borgara sem byggðu grunninn að okkar nútímaþjóðfélagi."

VIÐ, sem erum kjósendur í þessu landi, göngum heiðarlega á kjörstað og veljum okkur "heiðarlega" fulltrúa í kosningum til alþingis, borgarstjórnar og sveitarstjórna. Við höfum flest velt því fyrir okkur hvað hin og þessi stefnumál flokkanna muni gera fyrir okkur og greiðum atkvæði samkvæmt því. Við erum jú að ráða menn til starfa fyrir okkur kjósendur og í framhaldinu fara þessir einstaklingar á launaskrá hjá okkur og setjast í æðstu stöður þjóðfélagsins til næstu fjögurra ára. Við eigum að gera þær kröfur til þeirra sem fá brautargengi hverju sinni í kosningum að þeir framkvæmi það sem þeir boðuðu í aðdraganda kosninganna og varð til þess að við kusum þá. Ef þeir uppfylla ekki loforð til kjósenda á kjörtímabilinu er málið ósköp einfalt. Við kjósum nýja fulltrúa fyrir okkar hönd í næstu kosningum. Við Íslendingar erum innan við 300.000 talsins og getum haft öll þjóðþrifamál í hendi okkar ef við viljum. Við kjósendur höfum valdið ekki stjórnmálamennirnir. Stjórnmálamenn hafa í áraraðir brotið á rétti öryrkja, farið og fara illa með eldri borgara sem byggðu grunninn að okkar nútímaþjóðfélagi svo ekki sé minnst á forsjárlausa foreldra í þessu landi. Við segjum hingað og ekki lengra. Ef kosnir stjórnmálamenn vinna ekki sitt starf samkvæmt fyrirfram gefnum samningum, ber að reka þá eins og tíðkast á hinum frjálsa markaði.

Við kjósendur eigum að stofna félag sem vakir yfir kosningaloforðum og athöfnum stjórnmálamanna undir heitinu Almannavaktin. Áhugasamir um stofnun slíks félags sendi tölvupóst til dalros@islandia.is.

Ásgerður Jóna Flosadóttir fjallar um vald kjósenda