[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÍSLENDINGURINN Hannes Högni Vilhjálmsson hefur, ásamt samstarfsfólki sínu við rannsóknarstofu í kennslutækni sem rekin er við háskólann í Suður-Kaliforníu, þróað nýja útgáfu af vinsælum tölvuleik, Unreal Tournament, sem breytir honum þannig að hann...

ÍSLENDINGURINN Hannes Högni Vilhjálmsson hefur, ásamt samstarfsfólki sínu við rannsóknarstofu í kennslutækni sem rekin er við háskólann í Suður-Kaliforníu, þróað nýja útgáfu af vinsælum tölvuleik, Unreal Tournament, sem breytir honum þannig að hann nýtist til kennslu á grundvallaratriðum í arabísku. Verkefnið var styrkt af rannsóknardeild Bandaríkjahers (DARPA) og meiningin að hermenn nýti sér nýju útgáfuna áður en þeir halda til Íraks.

"Þetta var fyrsta verkefnið sem mér var falið þegar ég kom hingað fyrir einu og hálfu ári," sagði Hannes í samtali við Morgunblaðið í gær, en hann bjó áður í Boston þar sem hann lauk doktorsgráðu við Manhattan Institute of Technology.

Hannes hefur stundað rannsóknir á gervigreind og möguleikum á að nota leikjaumhverfi til kennslu. Unreal Tournament er blóðugur tölvuleikur, eins og margir þeir vinsælustu og var það fyrsta verkefni vísindamannanna að breyta leiknum þannig að öll vopn væru úr sögunni. Segir Hannes að leikurinn virki raunar þannig núna að viðkomandi spilari tapar ef til vopnaskaks kemur. Tekur spilari að sér hlutverk hermanns sem þarf að leysa tiltekna þraut, t.d. fara á kaffihús í Bagdad og hafa uppi á eigandanum svo hægt sé að veita særðum hermanni hjálp. "Og þú gerir það með því að tala við fólk og vinna traust þess fyrst og fremst."