— Morgunblaðið/Árni Torfason
Stjórn Skeljungs hefur ákveðið að ráðast í þær skipulagsbreytingar á verslanarekstri Skeljungs, Selectverslananna, að fella hann undir 10-11 þægindavöru-verslanarekstur sinn.

Stjórn Skeljungs hefur ákveðið að ráðast í þær skipulagsbreytingar á verslanarekstri Skeljungs, Selectverslananna, að fella hann undir 10-11 þægindavöru-verslanarekstur sinn. Þetta staðfesti Jón Björnsson, forstjóri Haga, í samtali við Morgunblaðið í gær.

"Við höfum ákveðið, í hagræðingarskyni, að fella verslanarekstur Skeljungs, þ.e. sölu á öllum vörum sem ekki eru bensín eða olía, undir 10-11 verslanarekstur okkar," sagði Jón. Hann sagði að þetta væri ekki stórvægileg skipulagsbreyting og yfir 90% af þeirri starfsemi sem farið hefði fram í Skeljungi hingað til, yrðu þar áfram. Hann segir að viðskiptavinir Skeljungs muni ekki á nokkurn hátt verða varir við þessa breytingu, svo sem hvað varðar vildarkort, frípunkta o.s.frv.

Jón sagði að hér væri um 16 verslanir Skeljungs að ræða, Select-verslanirnar, margar þeirra væru litlar.

"Við erum að taka Select-verslanirnar, sem áfram munu heita sama nafni, og fella innkaup til þeirra og hina daglegu rekstrarstýringu á þeim, undir hina þægindavörukeðju okkar, 10-11. Þetta er gert til þess að hagræða og einfalda bókhald þannig að við þurfum ekki tvo innkaupastjóra og svo framvegis, og til þess að Skeljungur geti einbeitt sér að því frumhlutverki sínu að kaupa inn, dreifa og selja eldsneyti," sagði Jón Björnsson.