Hjónin á ljósastaurnum eru Fellabæjarhrafnar og halda sig einatt í nágrenni hins ágæta Fellabakarís, þar sem margur góður molinn hrýtur af borðum í amstri brauðgerðardaga.

Hjónin á ljósastaurnum eru Fellabæjarhrafnar og halda sig einatt í nágrenni hins ágæta Fellabakarís, þar sem margur góður molinn hrýtur af borðum í amstri brauðgerðardaga.

Hjónakornin sitja gjarna saman á staur eða þá hvort á sínum staurnum beggja vegna íbúðargötunnar í Fellabæ og krunkast á. Ekki skilur Morgunblaðið það krunk en grunar að rætt sé um batnandi tíð og árvissa hreiðurgerð í öndverðum aprílmánuði.

Sex til átta ungar koma úr eggjum í maí, en þó fer það nokkuð eftir tíðarfari hvenær laupurinn fyllist af ungviði.

Hrafnar eru afar tryggir maka sínum og endist hjúskapur þeirra ævilangt. Missi hrafn maka sinn er hann þó fljótur að fylla skarðið. Hæsti staðfesti aldur á einum krumma er tuttugu ár og fjórir mánuðir.