— Morgunblaðið/Kristján
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ef skammir dygðu væru ekki til óþæg börn. Hugo Þórisson mælir ekki með að foreldrar misnoti vald sitt með skömmum því öll heilbrigð samskipti foreldra og barna byggjast á gagnkvæmri virðingu.

Langflest börn fara eftir leiðbeiningum foreldra sinna því þau vilja reglur og eru samþykk því í hjarta sínu að þau eigi að ganga vel um og taka þátt í þrifum á heimilinu. Nauðsynlegt er fyrir foreldra að kunna ráð til að ná í þennan staðfasta vilja í staðinn fyrir að beita skömmum fyrir að gera ekki þau verk, sem til er ætlast af börnunum," segir Hugo Þórisson sálfræðingur, sem ásamt Wilhelm Norðfjörð stendur fyrir námskeiðum fyrir foreldra.

Hann segir að það hafi aldrei þótt góð uppeldisaðferð að pirrast út í börnin því ef skammir dygðu, þá væru ekki til óþæg börn.

"Mér er mikið í mun að viðhalda virðingu milli foreldra og barna. Foreldrar mega þá ekki misnota vald sitt með skömmum, heldur ber þeim að tala af virðingu við börnin sín svo að þeir eigi sjálfir virðingu barna sinna skilið. Í þessu samhengi þarf að velja orðin af kostgæfni og ég mæli eindregið með svokölluðum ég-boðum. Í rólegheitum lætur foreldrið barnið vita hvers konar vanlíðan fylgir framkomu barnsins. Mjög margir foreldrar eru til að mynda að glíma við slæmar umgengnisvenjur barna sinna. Ekki er gengið frá skónum, úlpan ekki hengd upp og skólataskan er á forstofugólfinu þegar foreldrarnir koma þreyttir heim úr vinnu og herbergið er eins og eftir sprengjuárás og eldhúsið sömuleiðis. Þetta flokkast ekki undir agavandamál, en er uppeldislegt verkefni allra foreldra.

Í raun má segja að þessi vandamál, sem endurspeglast í því að börn í dag sinna ekki þeim skyldum sem börn sinntu áður, megi skrifast á tímaskort foreldra, sem ekki eru jafnfærir og áður um að sinna hlutverkinu að kenna, leiðbeina, fræða og aðstoða.

Börn eru nefnilega nákvæmlega sömu fyrirbærin og áður, en það hefur orðið breyting á því hvernig foreldrar nálgast uppeldishlutverkið. Nú er það æ algengara að börn verji mestum tíma með jafnöldrum sínum í stað fullorðinna. Þau læra hvert af öðru og börn verða þannig fyrirmyndir annarra barna.

Kennt að hugsa í lausnum

Fyrir utan það að sakast við foreldrana, hefur komið til sögunnar fjöldi freistinga, sem börnin ástunda af kappi. Nefna má tölvuleiki, Netið, sjónvarps- og myndbandaáhorf, tónlist og ástundun íþrótta. Ég vil þó ekki meina að börnin séu keyrð áfram um of því yfirleitt eru námshestarnir líka duglegastir við tómstundaiðkanir."

Hugo segir að upp séu komin agavandamál þegar börn eru komin í andstöðu við umhverfið og farin að neita að fara eftir reglum. Þá þurfa foreldrar að tileinka sér úrræði til að efla og kenna ábyrgð, sjálfstæði, frumkvæði, tillitssemi, virkni, iðni og áhuga. Auk þess væri mikilvægt að kenna þeim að hugsa í lausnum. "Sjálfur nota ég orðið "agi" í takmörkuðum skömmtum því agi snýst um að fara eftir reglum, sem aðrir hafa sett. Hins vegar tala ég mikið um "tillitssemi", sem er börnum afar nauðsynleg til að kunna að lesa aðstæður og kringumstæður rétt hverju sinni. Barnið þarf að læra að það getur ekki leyft sér hegðun, sem kallar fram gremju, leiða og pirring hjá öðrum. Því er nauðsynlegt að foreldrar tjái barninu líðan sína við það að sjá allt draslið ófrágengið í forstofunni í stað þess að spyrja hvað þetta eigi eiginlega að þýða. Það kennir barninu vonandi tillitssemi enda hefur enginn leyfi til þess að róta upp vanlíðan hjá öðrum."

Eftir því sem tækninni hefur fleygt fram, hefur uppeldishlutverkið orðið flóknara og í öllu tímaleysinu fá foreldrar samviskubit og reyna þá að kaupa börnin sín glöð, segir Hugo. "Allt dótið er bara svo ómettandi. Miklu árangursríkara er að dekra við börnin sín með því að njóta samvista við þau. Þegar maður er bara lítill, er miklu skemmtilegra að lita með mömmu og pabba en að leika sér einn með dót inni í herbergi."

Nettenging og sjónvarp í barnaherbergjum

Rannsóknir hafa leitt í ljós að ofbeldi á myndböndum og í tölvuleikjum hefur mikil áhrif á börn og passaði oft hvorki við aldur þeirra né þroska. Hugo tekur undir þetta og segist vera farinn að sjá fullt af vandamálum í íslensku þjóðfélagi sem rekja megi til ofbeldisleikja.

"Börn ráða ekki við það fyrr en í fyrsta lagi 16-18 ára gömul að stýra sínum tíma fyrir framan skjáinn og er orðið æ algengara að þau verða að tölvufíklum fyrr en varir. Alltof mörg börn eru komin með tölvur, nettengingu og sjónvörp inn í herbergin sín og eiga það þá til að vaka fram á nætur eftir að foreldrarnir eru sofnaðir. Ég vara eindregið við því að fermingarbörn fái allar þessar græjur inn í herbergin til sín því þau hafa engar forsendur til að velja og hafna auk þess sem foreldrar hafa takmarkaðan tíma til að fylgjast með því sem börnin eru að innibyrða." Foreldrar eru í vaxandi mæli að vakna til vitundar um að eðlilegt sé að sækja sér fræðslu um foreldrahlutverkið, segir Hugo.

join@mbl.is