Kristín Bergmann ásamt syni sínum Tómasi Ara sem er á batavegi.
Kristín Bergmann ásamt syni sínum Tómasi Ara sem er á batavegi. — Morgunblaðið/Þorkell
"ÞETTA er hörkuvinna og hefur reynt mikið á," segja foreldrar tvíburanna Tómasar Ara og Jóns Egils sem liggja báðir á Barnaspítala Hringsins með veirusýkingu.

"ÞETTA er hörkuvinna og hefur reynt mikið á," segja foreldrar tvíburanna Tómasar Ara og Jóns Egils sem liggja báðir á Barnaspítala Hringsins með veirusýkingu. Foreldrarnir Kristín Bergmann og Páll Jónsson segja drengina vera á batavegi eftir alls 9 vikna legu en þeir fæddust 22. desember. Þeir veiktust í kjölfarið og voru í öndunarvél um tíma en eru að braggast.

Foreldrarnir eru í fæðingar- og feðraorlofi og segja það hafa skipt sköpum við að geta verið hjá drengjunum á spítalanum. Daglega koma þau Kristín og Páll 2-3 sinnum á dag og dvelja um tvo tíma í hvert skipti.

Á stofunni liggur einnig Aníta Þöll Ómarsdóttir sem fæddist 5. nóvember. Móðir hennar, Guðrún Kristinsdóttir frá Akureyri, hefur verið langdvölum í Reykjavík hjá dóttur sinni. "Við rétt sluppum heim til Akureyrar en þá greindist hún með RS-veiruna," segir Guðrún. Leiðin lá því strax aftur til Reykjavíkur á barnaspítalann þar sem Aníta Þöll var á vökudeild um tíma. Í gær var stefnt svo að því að útskrifa hana á barnadeild. Spítalinn útvegaði Guðrúnu íbúð í Ljósheimum sem hún segir ómetanlegt á meðan hún hefur verið í Reykjavík.

Allir sögðu foreldrarnir að starfsfólk spítalans hefði staðið sig frábærlega við umönnum barna þeirra og yrði þakkarræðan allt of löng til að hafa hana alla eftir í einni blaðafrétt.