Dmitri Sjostakovitsj
Dmitri Sjostakovitsj
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Píanótríó í B Op. 94 eftir Beethoven og í e Op. 67 eftir Sjostakovitsj. Tríó Reykjavíkur (Guðný Guðmundsdóttir fiðla, Peter Máté píanó og Gunnar Kvaran selló). Sunnudaginn 20. febrúar kl. 20.

ÆTLI neyzlumarkaðsfræðingar myndu ekki örugglega flokka fylgismenn Kammermúsíkklúbbsins sem vonlausasta markhóp landsins. Því þeir sem einu sinni hafa meðtekið kjarna sígildrar tónlistar eru ósjaldan bólusettir fyrir lífstíð við stopulu stundarglingri; manna óginnkeyptastir fyrir skyndisælu þeirri er John Lennon uppnefndi instant karma , undirrót efnishyggju ef ekki hagkerfi Vesturlanda. Góðkunna tilfinningin fyrir skjóli gegn skrumi var alltjent á sínum stað þegar gengið var í þétt setna Bústaðakirkjuna á þokuhjúpað sunnudagskvöldið var.

Og ekki minnkaði hún við trakteringarnar. Tríóin tvö sem boðið var upp á tilheyrðu hiklaust því bezta sem samið hefur verið fyrir píanó, fiðlu og selló. Fyrst var Erkihertogatríóið svokallaða, síðasta píanótríó Beethovens og tileinkað Hróðólfi af Habsburg, vini hans og nemanda, er reyndist Beethoven sízt verr en Leopold af Köthen J. S. Bach. Það er óviðjafnanleg klassísk heiðríkja yfir þessu nærri sinfóníska kammerverki frá miðju 2. sköpunarskeiði (1811) sem leiðir hugann að Keisarakonsertinum, Egmont og Kóralfantasíunni - og lagrænn grallaraskapur scherzósins að sambærilegum þáttum í t.d. fiðlusónötum Op. 31 eða Razumovsky-kvartett nr. 1. Þá líkist enginn Beethoven að hrynrænu innprentunarafli, og spurning hvort skáki oft ekki hinu lagræna að eftirminnileika. En umfram allt er það tonnatæk samloðun forms og úrvinnslu, drífandi markvissan í framvindunni, sem gert hefur Beethoven að ónáanlegri fyrirmynd síðari tónskálda og tryggt verkum hans óbliknandi endingu.

Tríó Reykjavíkur lék þetta fjórþætta meistaraverk af samvizkusemi og tókst bezt upp í Scherzóinu (II) og næstbezt í lokaþætti, þó að hann skorti aðeins hrynskerpu. Langi Andante-tilbrigðaþátturinn var aftur í daufasta lagi, enda of lítt útfærður í stórmótun; dæmigert einkenni tímahraks við samæfingar, þótt ekki skuli fullyrt hvort hér ætti við.

Betur gekk í hinu bráðsnjalla Tríói í e-moll Op. 67 frá 1944 eftir Dmitri Sjostakovitsj. Skv. skemmtilegum tónleikaskrárpistlingi Sigurðar Steinþórssonar mun verkið nú svo vinsælt að jaðri við að vera í tízku. Klezmer-tilvitnun lokaþáttar kann eftir á að hafa aukið verkinu örlagadýpt þegar upp komst um helför gyðinga, er stóð sem hæst á tilurðartíma verksins. Engu að síður stendur tríóið alveg sér á parti fyrir sláandi hugmyndaauðgi sína og áhrifamátt. TR túlkaði vel örvæntingarfullan hrunadans Allegrósins (II) og hreint meistaralega draugaskotinn lokaþáttinn. Burtséð frá stakri vart heyranlegri loftnótugloppu úr slaghörpu, er einnig brá fyrir í Beethoven, var aðalmínusinn öllu heyranlegri innlifunarstunur sellistans er trufluðu Largó-þáttinn (III) óþarflega mikið.

Ríkarður Ö. Pálsson