Frá Önnu Maríu Einarsdóttur, fyrrverandi starfsmanni og núverandi notanda: "HAFA skal það sem sannara reynist varðandi félagsmiðstöðina við Hæðargarð. Stefanía Runólfsdóttir skrifar í bréfi til blaðsins í dag, 18. febrúar, um gerræðisleg vinnubrögð forstöðumanns og starfsfólks á staðnum."

HAFA skal það sem sannara reynist varðandi félagsmiðstöðina við Hæðargarð. Stefanía Runólfsdóttir skrifar í bréfi til blaðsins í dag, 18. febrúar, um gerræðisleg vinnubrögð forstöðumanns og starfsfólks á staðnum. Mér finnst leiðinlegt að sitja hjá og láta mér á sama standa um ummæli hennar í þeirra garð. Laufey Jónsdóttir sagði upp stöðu sinni sem leiðbeinandi en fór síðan fram á að uppsögnin gengi til baka, þá hafði þegar verið ráðið í hluta af stöðugildi hennar. Soffía Jakobsdóttir var ráðin til að kenna framsögn, okkur til mikillar ánægju sem sækjum tíma hjá henni. Mánudagar urðu fyrir valinu vegna annarrar vinnu hennar. Þannig háttar til í félagsmiðstöðinni að fá lokuð rými eru á staðnum og erum við því í handavinnustofu með okkar æfingar. Forstöðumaður lét gera aðra aðstöðu fyrir þá sem vildu koma saman til hannyrðaiðkunar án leiðbeinanda. Staðreyndin er sú að þær konur sem úthrópa sig sem brottflæmdar hafa fæstar eða sorglega fáar notað þá aðstöðu sem er fyrir hendi. Notendur í Hæðargarði mega þakka sínum sæla fyrir að ekki var búið að ráða í alla stöðu Laufeyjar þegar hún dró uppsögn sína til baka, þannig að við njótum hennar enn í tréskurði og postulínsmálun. Fram kemur í bréfi Stefaníu að Hæðargarður sé félagsmiðstöð fyrir eldri borgara en það eru mörg ár síðan félagsstarf stöðvanna í Reykjavík var opnað öllum, óháð aldri.

ANNA MARÍA

EINARSDÓTTIR,

Klapparhlíð 5,

270 Mosfellsbæ.

Frá Önnu Maríu Einarsdóttur, fyrrverandi starfsmanni og núverandi notanda