Í fjörunni Myndast hefur fjara við Tóna á Dyrhólaey. Hér er sá fyrsti kominn áleiðis en félagar hans halda í línu hans og búa sig undir að halda af stað.
Í fjörunni Myndast hefur fjara við Tóna á Dyrhólaey. Hér er sá fyrsti kominn áleiðis en félagar hans halda í línu hans og búa sig undir að halda af stað. — Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
Mýrdalur | Þrír menn úr Mýrdal gengu í gegnum minna gatið á Tónni á Dyrhólaey í gær. Ekki er vitað til þess að menn hafi áður gengið út fyrir Dyrhólaey.

Mýrdalur | Þrír menn úr Mýrdal gengu í gegnum minna gatið á Tónni á Dyrhólaey í gær. Ekki er vitað til þess að menn hafi áður gengið út fyrir Dyrhólaey.

"Þetta var mikið ævintýri," sagði Þorsteinn Gunnarsson, bóndi á Vatnsskarðshólum í Dyrhólahverfi, sem gekk í gegnum gatið um hádegið í gær ásamt nágrönnum sínum þeim Kristjáni Kristjánssyni á Dyrhólum og Ásmundi Sæmundssyni á Hryggjum.

Þorsteinn segir að suðvestanátt hafi verið ríkjandi frá því fyrir áramót. Sjórinn hafi hrúgað upp möl á ströndinni, meðal annars á stöðum þar sem ekki hafi sést í möl áður. Þeir félagar gengu niður af lágeyjunni að austan, um Kirkjufjöru og vestur fyrir Dyrhólaey. "Á lágfjörunni gátum við gengið í gegnum minna gatið á Tónni og komist alla leið vestur fyrir. Ég veit ekki til þess að það hafi nokkurn tímann verið farið enda er þessi staður venjulega langt úti í sjó," segir Þorsteinn. Stærra gatið er öllu fjölfarnara, þar siglir Þorsteinn með ferðamenn á hjólabát og flugvélar hafa flogið þar í gegn. Þorsteinn segist raunar hafa róið á litlum plastbát í gegnum minna gatið.

Var orðið mjög tæpt

Hann segir að sú hugsun hafi gripið huga sinn á sunnudag hvort mögulegt væri að ganga í gegnum gatið og hann hafi séð í fyrradag að það væri mögulegt. "Ég var ekki í rónni fyrr en búið var að fara þetta. En ég myndi ekki ráðleggja neinum að reyna þetta, nema mönnum sem þekkja vel til. Þetta var orðið mjög tæpt og hafði grafið úr frá því í gær [fyrradag] og þetta getur breyst á einni nóttu. Leiðin er það löng að ekki er hægt að hlaupa í gegn í einum spretti og þegar ólög riðu yfir tók sjórinn okkur upp undir hendur," segir Þorsteinn.

Mölin hefur hrúgast svo upp að þeir félagar gátu ekið á jeppa suður fyrir Þjófaurð, austan við Dyrhólaey, en þessi urð er venjulega úti í sjó og örsjaldan hægt að komast út í hana. "Það er ótrúlegt að sjá þessar breytingar," segir Þorsteinn. Þá nefnir hann að kunnugir menn hafi getað gengið fjöruna fyrir Reynisfjall síðustu daga. Þorsteinn segir að það hafi verið af hreinni ævintýraþrá að þeir félagar gengu í gegnum gatið. "Nú get ég sagt að ég hafi farið í gegnum gatið," segir Þorsteinn.