FÉLAG grunnskólakennara (FG) lýsir andstöðu við það samkomulag sem 10 kennarar hafa gert við Ísaksskóla og telur það ekki standast lög um starfskjör launafólks.

FÉLAG grunnskólakennara (FG) lýsir andstöðu við það samkomulag sem 10 kennarar hafa gert við Ísaksskóla og telur það ekki standast lög um starfskjör launafólks. Félagið beinir því til stjórnar og samninganefndar FG að staðfesta ekki samkomulagið og láta á það reyna fyrir dómstólum hvort um löglega gjörð sé að ræða, reynist þess þörf.

Árni Pétur Jónsson, formaður skólanefndar Ísaksskóla, segir skólann harma ályktun Félags grunnskólakennara. Hún sé á misskilningi byggð eða vanþekkingu.

Í tilkynningunni segir: "Samkvæmt samkomulagi kennaranna og skólans er mögulegt að raða kennurum og námsráðgjöfum til launa undir þeim kjörum sem kjarasamningar Kennarasambands Íslands og Launanefndar fyrir grunnskóla kveður á um. Þetta er gert um leið og ákvæði um greiðslur fyrir kennslu eru afnumin. Aldursafsláttur er með öllu afnuminn og svo mætti lengi telja.

Grunnskólakennurum sem voru í verkfalli vikum saman til að knýja fram minnkaða kennsluskyldu og hækkuð grunnlaun er misboðið með tilraunum af þessum toga.

Aðalfundurinn bendir á að samkomulag þetta brýtur í bága við lög um lágmarkskjör launafólks sbr. 1. gr. laga númer 55 frá 9. júní 1980. Fundurinn beinir því til stjórnar og samninganefndar FG að staðfesta ekki samkomulagið og láta á það reyna fyrir dómstólum hvort um löglega gjörð er að ræða, reynist þess þörf."

Árni segir Ísaksskóla ekki standa í deilum við Félag grunnskólakennara eða Kennarasambandið. "Þvert á móti vinnum við að sömu markmiðum og þeir, þ.e. bættum kjörum kennara og að efla menntun í landinu," segir hann og bætir því við að kjarasamningur Ísaksskóla við kennara sína tryggi þeim betri kjör en þeir fengju ef þeir væru á þeim samningi sem FG og Launanefnd sveitarfélaga gerðu. Í samningnum séu ýmsar nýjungar sem bæði nýtist skólanum og kennurum. Að auki hafi samningurinn verið gerður í mikilli sátt á milli aðila. "Ég bendi á að allir kennarar samþykktu samninginn í kosningu, enginn skilaði nei eða auðu," segir Árni og bendir á að fulltrúi FG hafi verið viðstaddur atkvæðatalningu.

Hann segir að leitað hafi verið lögfræðiálits nokkurra lögfræðinga, þeir hafi lesið yfir samninginn og ekki séð neitt athugavert við hann. Hann sé því á engan hátt ólöglegur.