Ýmir Örn Finnbogason
Ýmir Örn Finnbogason
Þeir eru duglegir að skrifa á pólitísku vefina, andstæðingar banns við reykingum á veitingastöðum. Þeir segjast gjarnan vera vinir frelsisins og eignarréttarins.

Þeir eru duglegir að skrifa á pólitísku vefina, andstæðingar banns við reykingum á veitingastöðum. Þeir segjast gjarnan vera vinir frelsisins og eignarréttarins. Einn þeirra, Ýmir Örn Finnbogason, skrifar í Deigluna og segir að sé sjónarmiðið að vernda fólk fyrir óbeinum reykingum, hljóti menn að spyrja hvort ekki beri að vernda önnur saklaus fórnarlömb en starfsfólk veitingastaða. Börn hafi, ólíkt gestum á veitingahúsum, ekki val um annað umhverfi ef þau verði fyrir áhrifum reykinga foreldra sinna. Með verndunarsjónarmiðum ætti því rökrétt framhald frumvarpsins að vera annað sem kvæði á um bann við reykingum foreldra í heimahúsum og bílum þegar börn viðkomandi væru annars vegar.

Flestir hljóta að vera sammála því að slík lagasetning væri út í hött. Af hverju? Jú, því þarna er ríkið að skerða stórlega rétt fólks til þess að ákveða gjörðir sínar á eigin heimilum. Með öðrum orðum þá er verið að ganga á eignar- og ráðstöfunarrétt þess fólks," segir Ýmir.

Af hverju í ósköpunum ættu flestir að vera sammála því? Velflestar vísindarannsóknir sýna að óbeinar reykingar geta valdið þeim, sem fyrir verða, miklum skaða. Það á ekki sízt við um börn. Í greinargerð með frumvarpi Sivjar Friðleifsdóttur o.fl. um reykingabann á veitingastöðum kemur fram að óbeinar reykingar geti m.a. valdið vöggudauða, eyrnabólgu, sýkingum í öndunarfærum, þróun astma hjá einkennalausum og astmaköstum hjá börnum sem eru veik fyrir.

Það má raunar halda því fram að það sé nú þegar bannað, lögum samkvæmt, að spúa eitri yfir börnin sín heima fyrir. Samkvæmt barnaverndarlögum ber foreldrum "að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna". Er það gert með því að loka þau inni í reykfylltum herbergjum? Þrátt fyrir friðhelgi eignarréttar og einkalífs gera foreldrar ekki hvað sem er heima hjá sér. Þeir berja börnunum sínum ekki við veggi, jafnvel þótt það sé bara laust, þeir dreifa ekki pínulitlu uppþvottadufti yfir skyrið þeirra á morgnana og þeir reykja ekki heldur ofan í þau. Öllum hugsandi foreldrum ætti raunar að standa á sama, þótt þeim væri bannað að reykja ofan í börnin sín, því að þeim dettur það varla í hug hvort sem er.