GUÐNI Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, telur að yfirlýsing Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra og Geirs Haarde fjármálaráðherra um breytt eignarhald á Landsvirkjun í framtíðinni sé fyrst og fremst framtíðarsýn ráðherranna tveggja og...

GUÐNI Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, telur að yfirlýsing Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra og Geirs Haarde fjármálaráðherra um breytt eignarhald á Landsvirkjun í framtíðinni sé fyrst og fremst framtíðarsýn ráðherranna tveggja og ráðneyta þeirra. Hafi yfirlýsingin komið mörgum þingmönnum og honum sjálfum sem varaformanni Framsóknarflokksins í opna skjöldu því að málið sé algerlega órætt í Framsóknarflokknum og ríkisstjórn.

"Það liggur ekki fyrir nein ákvörðun um þetta mál og ég held að framsóknarmenn hafi mjög mismunandi skoðanir á því. Ég hef ekki trú á því að það eigi einfaldlega að selja Landsvirkjun. Í mínum huga leikur enginn vafi á því að hér er um að ræða gríðarlega stórt pólitískt mál og það á algerlega eftir að móta stefnu um það, hvað þá að taka ákvörðun. Þetta er eingöngu framtíðarsýn Valgerðar Sverrisdóttur og Geirs Haarde. Sala Landsvirkjunar er ekki komin á dagskrá Framsóknarflokksins í náinni framtíð."

Spurður hvort hann lýsi sig mótfallinn einkavæðingu Landsvirkjunar segir Guðni að það sé langt í frá einfalt mál að selja fyrirtækið. "Það er stórmál. Við erum í miðjum klíðum að selja Landssímann sem er mikið verkefni. Ég er á þeirri skoðun að í stórum pólitískum málum eigi að ræða þau fyrst innan raða flokkanna og fara síðan með þau fram," segir hann.

"Hitt liggur svo alveg fyrir að ég tel gott samstarf um það í ríkisstjórn að kaupa eignarhlut Reykjavíkurborgar og Akureyrar í Landsvirkjun og skoða í framhaldinu að sameina Landsvirkjun, Orkubúi Vestfjarða og RARIK."