Það var nóg að gera í gær hjá Eiríki Auðuni Auðunssyni.
Það var nóg að gera í gær hjá Eiríki Auðuni Auðunssyni. — Morgunblaðið/Þorkell
FORSVARSMENN Fiskbúðarinnar Árbjargar vilja benda almenningi á að fiskur sé síður en svo munaðarvara, og tóku því upp á því að bjóða viðskiptavinum sínum upp á rauðmaga á 25 kr. stykkið í gær á meðan birgðir entust.

FORSVARSMENN Fiskbúðarinnar Árbjargar vilja benda almenningi á að fiskur sé síður en svo munaðarvara, og tóku því upp á því að bjóða viðskiptavinum sínum upp á rauðmaga á 25 kr. stykkið í gær á meðan birgðir entust.

"Fiskurinn er misdýr í innkaupum, og rauðmaginn hefur verið mjög ódýr. Það hefur verið í umræðunni að fiskurinn sé hollur og góður, og við höfum viljað stuðla að því að fólk neyti meira af honum," segir Eiríkur Auðunn Auðunsson, starfsmaður í Fiskbúðinni Árbjörgu.

Hann bendir á að oft séu fisksalar og stórmarkaðir fljótir að hækka þegar hráefnisverð hækkar, en seinir til að lækka þegar það fer niður aftur, og eigi það sérstaklega við stórmarkaði. Verð á fiski í heilu hafi til að mynda að meðaltali lækkað um í kringum 80 krónur á kílóið undanfarið ár án þess að það hafi lækkað til neytenda á sumum stöðum. Því hafi forsvarsmenn Árbjargar ákveðið að lækka verð þegar innkaupsverð lækkar.

"Við erum með mjög gott innkaupsverð á því sem við erum með núna, þetta er fiskur sem kostaði mjög lítið í innkaupum, þó hann sé glænýr og flottur. Það er bara búið að vera mjög gott verð inn núna og það gefur færi á því að lækka fiskinn út, og hinir eru ekki að gera það," segir Eiríkur.