Jón Marinó Stefánsson fæddist í Reykjavík 19. júní 1929. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík þriðjudaginn 15. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Stefán Georg Elísson, bifreiðarstjóri í Reykjavík, f. í Stóru-Vogum í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu 12. júlí 1900, d. í Reykjavík 7. maí 1985, og Aðalheiður Guðmundsdóttir, húsfreyja og saumakona, f. á Bláfeldi í Staðarsveit 21. nóvember 1908, d. í Reykjavík 29. sept. 1979. Jón var einkabarn foreldra sinna og ólst hann upp í Reykjavík.

Jón kvæntist 16. janúar 1954 Valgerði Marsveinsdóttur, f. í Hafnarfirði, 7. nóvember 1926, d. 6. febrúar 2004. Hún var dóttir Marsveins Jónssonar, f. á Stokkeyri, f. 1897, d. 1984, og Sólveigar Guðsteinsdóttur, f. á Kringlu í Árnessýslu 1905, d. 1988. Dætur Jóns og Valgerðar eru: 1) Aðalheiður sjúkraliði, f. 1954, gift Einari Baldvinssyni framkvæmdastjóra, f. 1954. Börn þeirra eru Baldvin, f. 1974, Jón Valur, f. 1984, Einar Örn, f. 1988, og tvíburarnir Anna Karen og Erna Björk, f. 1992. 2) Stefanía Gerður hjúkrunarfræðingur, f. 1961, í sambúð með Þórði Jónssyni bankamanni, f. 1961. Synir þeirra eru Jón Andri, f. 1990 og Valgeir, f. 1994.

Jón Marinó fékk sveinspróf í rennismíði 1949. Fyrst vann hann í Hamri, þá hjá Eimskip. Hann var í leigubílaakstri um tíma og 1970 hóf hann störf hjá Íslenska álfélaginu í Straumsvík, (ÍSAL). Í fyrstu starfaði hann á járnalagernum en í kjölfar vinnuslyss fór hann að vinna sem hliðvörður. Við það starfaði hann þar til hann lét af stöfum vegna aldurs.

Jón Marinó verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Hefur þú talað við hann Jón? var spurning sem konan mín spurði mig oft á fyrstu hjónabandsárum okkar Rúnu. Þegar eitthvað kom upp sem þurfti að smíða eða lagfæra, sérstaklega úr járni, var Jón alltaf fórnarlambið sem þurfti að leysa málið. Hann leit ekki á sig sem slíkan því hann var einstaklega bóngóður maður, hjálpfús, ljúfur og hjartahlýr. Þó maður yrði aðeins sjálfstæðari og meira sjálfbjarga þá héldu tæknileg vandamál áfram á heimili okkar og þegar strákarnir okkar Rúnu urðu hjálparvana í einhverju smíðastandi var einfaldast að segja við þá "Ertu búinn að tala við hann Jón?" Hann var lærður rennismiður og hafði alltaf lausn á öllu sem viðkom járni. Jón vann hjá Ísal frá stofnun þess fyrirtækis þar til fyrir nokkrum árum að hann fór á eftirlaun. Gaman að segja frá því að Jón og nokkrir starfsfélagar þar tóku sig saman og smíðuðu tjaldvagna fyrir sig, töldu innflutta tjaldvagna ekki í gæðaflokki fyrir íslenska vegi sem þá var sums staðar boðið upp á. Og aftur nokkrum árum síðar var sett í fleiri tjaldvagna fyrir fjölskylduna.

Ég á grip sem ég held mikið uppá, gullfallegan laxarotara smíðaðan af Jóni, reyndar náðum við aldrei að veiða nema silunga en í nokkrar veiðiferðirnar fórum við saman, stundum tveir en oftast með fjölskyldum okkar og þá aðallega í Skorradalsvatn eða Heiðarvatn við Vík í Mýrdal, einnig fóru fjölskyldur okkar saman til sólarlanda, mjög gott samband var á milli fjölskyldnanna. Jón og Vala höfðu yndi af ferðalögum og nutu þess að tína steina sem síðan voru slípaðir, hann var í steinaklúbbi með samstarfsmönnum sínum hjá Ísal. Fyrir allmörgum árum bjuggu þau hjón sér annað heimili í vinalegum sumarbústað og dvöldu þar allmikið.

Ef annað líf er til þá á Jón von á hlýjum móttökum fyrir handan en Vala lést fyrir ári síðan. Tíminn var komin, Jón kveðjum við með söknuði. Fjölskylda okkar sendir dætrum þeirra hjóna, Allý, Stebbý og fjölskyldum þeirra okkar samúðarkveðjur en við eigum í huga okkar mynd af góðum manni.

Gunnar Kr. Gunnarsson.