Guðlaugur G. Sverrisson
Guðlaugur G. Sverrisson
Guðlaugur G. Sverrisson fjallar um lesblindu: "Lesblindir hafa eðli málsins samkvæmt ekki langskólanám að baki."

Í MORGUNBLAÐINU fimmtudaginn 10. febrúar síðastliðinn er sagt frá stórmerkilegu starfi er Mímir-símenntun heldur úti fyrir þá sem haldnir eru lesblindu og hafa ekki fengið tækifæri til að takast á við hana á sínum námsárum í grunnskóla. Það var þannig fyrir ekki svo mörgum árum að fólk haldið lesblindu var stimplað sem treggáfað og það sett í sérbekk sem fékk af alþekktu umburðarlyndi skólastjórnenda sem og nemenda að sjálfsögðu viðurnefnið tossabekkur. Mímir-símenntun er stofnun sem rekin er af Alþýðusambandi Íslands og heldur sérstaklega utan um endurmenntun ófaglærðra einstaklinga. Er það lofsvert framtak.

Það sem vakti undrun mína og rekur mig til að skrifa um þetta er að í nefndri grein Morgunblaðsins kom fram að námskeiðið kostar viðkomandi einstakling sem haldinn er lesblindu um 200.000 kr. Flestir sem námskeiðið sækja fá niðurgreiðslu frá sínu stéttarfélagi er nemur 75% af kostnaði. Ekki eru allir lesblindir í stéttarfélagi þannig að um veruleg útgjöld er að ræða fyrir fólk, sem flest er í störfum sem ekki er krafist menntunar o.þ.l. oftast á lágu tímakaupi. Á námskeiðinu voru nokkrir tugir manna og sá menntamálaráðuneytið af 250.000 kr í heildina til að styrkja námskeiðið. Þetta finnst mér aumt.

Lesblindir hafa eðli málsins samkvæmt ekki langskólanám að baki. Þeir fara því ungir út á vinnumarkaðinn og byrja að greiða skatta til samfélagsins þá um leið. Aldur þeirra er voru á þessu námskeiði var frá 25+. Það má því reikna með að flestir hafi greitt skatta í 10-15 ár áður en þeir fara námskeiðið.

En hvers vegna þurfa þeir að fara á námskeiðið? Það er líkast til vegna þess að þegar að þeir voru nemendur í grunnskóla, brást það að greina út af hverju þeir glímdu við námsörðugleika. Nú þegar að búið er að greina vanda þeirra, þá spilar menntamálaráðuneytið frítt. Það lætur viðkomandi greiða að fullu lagfæringuna á menntun sinni, sem grunnskólar brugðust við að veita, áður fyrr á ævi viðkomandi. Lesblindir eiga að mínu mati þetta námskeið inni hjá stjórnvöldum og ber menntamálaráðuneytinu að greiða fyrir það af skattpeningum okkar möglunarlaust. Þessir einstaklingar og foreldrar þeirra fengu gallaða vöru í grunnskóla.

Flestir lesblindir eru vel gáfum gæddir og þátttakendur á námskeiðinu höfðu yfirleitt komist vel áfram í lífinu án þess að kunna almennilega að lesa og skrifa. Tossarnir hafa sem sagt plumað sig ágætlega og margir bara mjög vel eftir að skóla lauk. Lesblindir eru gæddir hæfileikum er við hin sem eigum auðvelt með að læra að lesa hafa ekki, s.s. skynjun á vídd og rými. Ekki fengu þeir hæfileikar að njóta sannmælis í námi þeirra í grunnskóla.

Námskeiðið er erfitt og tekur á lesblindu af krafti þann tíma er nemendur sitja það. Bæði er um einkatíma og almenna tíma að ræða meðan á námskeiðinu stendur. Þegar því líkur hafa nemendur lært að lesa og þeirra bíður ærið verkefni við að æfa skrift og lestur næstu vikurnar. Lífsgæði þessa fólks stóraukast. Ekki get ég ímyndað mér að lifa illa læs og skrifandi í okkar samfélagi. Ég gleðst því innilega yfir þessu starfi Mímis-símenntunar. Jafnframt tel ég það ólíðandi að menntamálaráðherra sjá ekki svo um að námskeið fyrir lesblinda verði þeim að kostnaðarlausu í framtíðinni. Nógu erfitt hlýtur að vera að takast á við lesblindu á fullorðinsárum þó að viðkomandi sé ekki rukkaður í drep fyrir að takast á við vanda sinn. Fyllibyttur fá meðferð frítt.

Guðlaugur G. Sverrisson fjallar um lesblindu