ÍSLENSK stjórnvöld veittu Bobby Fischer, fyrrverandi heimsmeistara í skák, íslenska kennitölu í gær. Kennitala Fischers er 090343-2039.

ÍSLENSK stjórnvöld veittu Bobby Fischer, fyrrverandi heimsmeistara í skák, íslenska kennitölu í gær. Kennitala Fischers er 090343-2039. Þá hafa stjórnvöld ákveðið að gefa út vegabréf fyrir skákmeistarann og mun sendiherra Íslands í Japan afhenta honum það.

Sæmundur Pálsson og fleiri stuðningsmenn Bobby Fischers munu halda til Japans á næstu dögum. Að sögn Sæmundar mun hann funda með stuðningsaðilum í dag og skipuleggja ferð til Japans. Vonast hann til að leggja af stað ekki síðar en næstkomandi föstudag. Þá sagði Sæmundur að stuðningshópur Fischers sé búinn að ganga frá sjúkratryggingu fyrir hann í sex mánuði hér á landi.

Vonast er til að íslensku ferðaskilríkin dugi til að fá Fischer lausan úr haldi, að sögn Einars S. Einarssonar, fyrrverandi formanns Skáksambands Íslands. "Við vonum innilega að þetta muni duga, og Bobby Fischer komi til landsins í næstu viku. Sæmundur Pálsson fer líklegast til Japans og ef til vill ég og fleiri úr okkar hópi. Þá er bara að vona að hann fái að koma með okkur heim," sagði Einar.

Hildur Dungal, forstjóri Útlendingastofnunar, kallaði stuðningsmenn Fischers óvænt til fundar í gær þar sem þeim var tilkynnt að allt væri frágengið. Samþykki hefði borist frá dómsmála- og utanríkisráðuneytinu um að ferðaskjölin yrðu gefin út. Málinu var hraðað, að sögn Einars og undanþágur gerðar þar sem Fischer sé ekki á landinu. Sendiráð Íslands í Tókýó mun afhenda vegabréfið.