Ibrahim al-Jaafari
Ibrahim al-Jaafari
Ibrahim al-Jaafari, sem kosningabandalag sjíta vill að verði forsætisráðherra Íraks, er umdeildur trúmaður, sem nýtur líka virðingar meðal súnníta.

IBRAHIM al-Jaafari, sem sjítar í Írak völdu í gær sem forsætisráðherraefni sitt, er mikill trúmaður, sem þó vill vinna að endurnýjun innan íslam. Er hann einn af fáum stjórnmálamönnum sjíta, sem einnig njóta virðingar meðal súnníta, enda hefur hann lagt sig í líma við sefa ótta þeirra við, að sjítar vilji einir ráða öllu í landinu.

Jaafari, sem nú er annar af tveimur varaforsetum bráðabirgðastjórnarinnar, er leiðtogi Dawa-flokksins en hann var aftur hluti af kosningabandalagi sjíta, sem fékk meirihluta í þingkosningunum 30. janúar.

Í ágúst 2003 var hann skipaður formaður framkvæmdaráðsins gamla og fram kom í skoðanakönnun í fyrra, að Jaafari er þriðji vinsælasti maður í Írak. Vinsælastur var Ali al-Sistani erkiklerkur og trúarleiðtogi sjíta og í öðru sæti hinn róttæki sjítaklerkur Moqtada Sadr.

Dawa er elsti sjítaflokkurinn í Írak. Berst hann fyrir umbótum innan íslams og hefur síðan notið þess að hafa barist hart gegn Saddam Hussein og Baath-flokki hans. Hófst sú barátta með tilræðum við embættismenn Baath-flokksins á áttunda áratugnum en Jaafari flýði land til Írans og síðan til London 1989. Aðild að Dawa var dauðasök og sagt er, að Saddam hafi látið drepa um 77.000 flokksfélaga.

Sumir fjandmenn Jaafaris saka hann um spillingu, segja, að hann gangi erinda Írana og sé andvígur frelsi kvenna þótt annað sé látið í veðri vaka. Í umræðum um nýja stjórnarskrá fyrir Írak var hann í flokki þeirra, sem vilja, að íslam verði eina uppspretta laganna, en hann hefur þó ekki tekið afstöðu með mestu harðlínumönnunum. Segir hann, að íslam hafi breyst og hann sé andvígur því að banna konum að sækja skóla eða aka bíl. "Það er ekki nema eðlilegt, að íslam sé nefnt í stjórnarskránni en það þarf ekki að ganga jafnlangt og í Íran," segir Jaafari.

Bandarískt herlið nauðsynlegt - um sinn

Eftir erlendum manni, fróðum um Írak, er haft, að það muni ekki sýna sig fyrr en Jaafari hefur tekið við embætti, hver stefna hans verður.

"Þá mun koma í ljós hvort hann lætur ráðast af afturhaldssemi sinni í samfélagsmálum eða verður jafnvel neyddur til þess, einkum hvað varðar hlutverk "sharia", hinna íslömsku laga. Á móti kemur, að mikið verður um veraldlega þenkjandi menn á þingi, líka innan hans eigin flokks."

Jaafari var með þeim fyrstu til að mótmæla hernámi Bandaríkjamanna en fyrir skömmu viðurkenndi hann, að vera þeirra væri nauðsyn - um sinn. Brotthvarf þeirra nú gæti leitt til borgarastríðs.

Bagdad. AFP.

Bagdad. AFP.