Foreldrasamtök og aðrir forsjárhyggjumenn vildu gjarnan fá tækifæri til að stroka út Hómer.
Foreldrasamtök og aðrir forsjárhyggjumenn vildu gjarnan fá tækifæri til að stroka út Hómer.
ÞIÐ sem eruð spennt yfir teiknimyndunum vinsælu um Simpson-fjölskylduna og viljið ekki fá að vita hvað á eftir að henda hana í framtíðinni, ekki lesa meira.

ÞIÐ sem eruð spennt yfir teiknimyndunum vinsælu um Simpson-fjölskylduna og viljið ekki fá að vita hvað á eftir að henda hana í framtíðinni, ekki lesa meira.

Hér er stórfrétt fyrir ykkur hina, stórt leyndarmál sem afhjúpað var í spánnýjum þætti sem nýverið var sýndur í Bandaríkjunum. Þátturinn heitir There's Something About Marrying en þar gerist Hómer Simpson netprestur og sér sér hag í því að gefa saman samkynhneigð pör. Þar kemst hann að því að mágkona hans, Patty Bouvier systir Marge, er yfir sig ástfangin af atvinnugolfaranum Veronicu og ætlar að ganga að eiga hana. Upp úr kafinu kemur reyndar í tæka tíð að Veronica er karlmaður eftir allt saman, þegar Patty finnur á honum barkakýlið.

Áður en þessi fréttnæmi þáttur var sýndur var birt viðvörun um að börn skyldu horfa á hann í nærveru fullorðinna.

Fyrir nokkru var farið að ýja að því að ákveðin persóna í þáttunum væri við það að koma út úr skápnum en aldrei gefið upp hver það væri. Töldu flestir að þar væri um hinn hundtrygga aðstoðarmann herra Burns að ræða, Waylon Smithers, en einnig lágu mágkonur Hómers undir grun.

Samtök homma og lesbía hafa gefið út þá yfirlýsingu að þau fagni þessum frjálslynda þætti og lýsa honum sem "ljósgeisla". Í þættinum eru hjónabönd samkynhneigðra lögleidd í heimabæ Simpson-fjölskyldunnar, Springfield, og sér Hómer sér leik á borði og fer að rukka 200 dali fyrir að gefa fólk saman á Netinu.

Forseti Foreldraráðs sjónvarpsmiðla (Parents Television Council), L. Brent Bozell, gagnrýnir umtalaðan Simpson-þátt hins vegar harðlega og lét hafa eftir sér: "Á tímum þegar meirihluti fólks er á móti hjónaböndum samkynhneigðra þá stríða þættir, sem vekja athygli á hjónaböndum samkynhneigðra vísvitandi, gegn ríkjandi viðhorfum."

Þættirnir um Simpson-fjölskylduna hafa löngum verið umdeildir og tekið á viðfangsefnum sem þótt hafa viðkvæm eða á skjön við það sem almennt gerist í bandarísku sjónvarpi.