Breiðholt | Óvíst er hvort einbýlishúsalóðir við Lambasel, nýja götu í Seljahverfi í Breiðholti, verða boðnar út eða þeim úthlutað tilviljunarkennt til umsækjenda, og segir Dagur B.

Breiðholt | Óvíst er hvort einbýlishúsalóðir við Lambasel, nýja götu í Seljahverfi í Breiðholti, verða boðnar út eða þeim úthlutað tilviljunarkennt til umsækjenda, og segir Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, að báðar aðferðir hafi galla við það þensluástand sem nú er á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu.

Dagur segir að Reykjavíkurborg hafi hingað til ekki viljað binda sig við eina aðferð við úthlutun á einbýlishúsalóðum, heldur velja hvaða aðferð er notuð eftir aðstæðum hverju sinni.

"Vandamálið er það að annars vegar erum við með leið sem felst í því að bjóða út byggingarréttinn. Hún er réttlát í þeim skilningi að þá hneppir hæstbjóðandi hnossið, en er gölluð að því leyti að þegar þenslan er jafn mikil á fasteignamarkaði og hún er núna þá er hætt við því að þessi aðferð verðleggi fjölda fjölskyldna út úr myndinni varðandi það að búa í sérbýli. Við viljum ekki borg þar sem það er bara stóreignafólk sem á þess kost að búa í sérbýli," segir Dagur.

"Hins vegar er hægt að draga tilviljunarkennt úr hatti úr hópi umsækjenda að viðstöddum sýslumanni, og það hefur verið meginaðferðin hjá okkur þegar einbýlishúsalóðir eru annars vegar. En þá kemur upp það vandamál að ef ekki er haldið utan um það með flóknum kvöðum er það í raun eins og að úthluta happdrættisvinningi, við getum aldrei fyllilega tryggt að þeir sem fá úthlutað selji ekki frá sér. Þá er verðmyndunin orðin sú sama og í fyrra dæminu, og raun einhver milliliður - sá sem fékk úthlutað - sem situr eftir með gróða sem hann hefur ekki verðskuldað á neinn hátt, vegna þess að þetta eru almannagæði sem verið er að úthluta."

Dagur viðurkennir að borgin sé þarna á milli steins og sleggju, hægt sé að setja skilyrði við úthlutun, en alltaf geti komið upp réttmætar ástæður fyrir því að sá sem fengið hefur lóðina þurfi að selja hana, og því megi þau ekki vera of þröng. Væntanlega verður tekin ákvörðun um hvernig verði staðið að úthlutuninni á fundi borgarráðs á morgun.