— Morgunblaðið/RAX
GRÁ þokuslæða grúfði yfir jörðinni við Skálafellið í gær. Þokan hefur gert sig heimakomna á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni undanfarna daga og virðist ekkert lát á henni. Töluverð röskun varð á innanlandsflugi vegna þokunnar annan daginn í röð.

GRÁ þokuslæða grúfði yfir jörðinni við Skálafellið í gær. Þokan hefur gert sig heimakomna á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni undanfarna daga og virðist ekkert lát á henni.

Töluverð röskun varð á innanlandsflugi vegna þokunnar annan daginn í röð. Var farþegum sem ætluðu að fljúga frá Reykjavík til Akureyrar, Egilsstaða og Ísafjarðar ekið í rútum til Keflavíkur.

Eins og sést á myndinni hefur þokan ekki náð mjög hátt frá jörðu, en að sögn Veðurstofunnar náði hún um tvö til þrjú hundruð metra hæð, en skyggni var aðeins um 300 metrar sem er of lítið til lendingar.

Veðurstofan segir þörf á einhverjum frálandsvindi til þess að þokan leysist upp. Það hefur ekki borið mikið á því þannig að lognið og þokan hafa ráðið ríkjum í borginni.

Búist er við hægri austanátt í dag og því er útlit fyrir að þokunni létti loks.