Ágúst Guðmundsson og Gunnar Eyjólfsson í Íslandsbanka, þar sem fyrstu tökur fyrir myndina fóru fram. Í myndinni mun Gunnar Eyjólfsson hleypa sagnagáfu sinni á hlemmiskeið.
Ágúst Guðmundsson og Gunnar Eyjólfsson í Íslandsbanka, þar sem fyrstu tökur fyrir myndina fóru fram. Í myndinni mun Gunnar Eyjólfsson hleypa sagnagáfu sinni á hlemmiskeið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
LEIKSTJÓRINN Ágúst Guðmundsson vinnur nú að sjónvarpsmynd þar sem Gunnar Eyjólfsson leikari er í aðalhlutverki.

LEIKSTJÓRINN Ágúst Guðmundsson vinnur nú að sjónvarpsmynd þar sem Gunnar Eyjólfsson leikari er í aðalhlutverki. Gunnar bregður sér þó ekki í hlutverk neinnar persónu heldur er bara hann sjálfur og rifjar upp atburði sem hentu hann er hann var staddur fyrir nokkrum áratugum á Miðjarðarhafseyjunni Mallorca sem ætti að vera sólarsælum Íslendingum að góðu kunn.

Ágúst og Gunnar voru staddir í Íslandsbanka síðasta laugardag við upptökur en stefnan er svo tekin á Mallorca í vor þar sem fleiri atriði verða "skotin" eins og sagt er á kvikmyndamáli.

Ágúst segir að hann hafi gengið með þessa hugmynd í maganum allt síðan að Gunnar kenndi honum í Leiklistarskóla Þjóðleikhússins á sínum tíma en Gunnar er annálaður sögumaður og segir frá með hrífandi tilburðum. Ágúst segir hugmyndina vera þá að draga fram sögumanninn í Gunnari og hann á fastlega von á því að það verði fremur létt verk og löðurmannlegt ef að líkum lætur.

Aðspurður hvaðan þessi hugmynd komi, sem er óneitanlega nokkuð sérstæð, nefnir hann til myndina My Dinner with André eftir franska leikstjórann Louis Malle. Í þeirri mynd, sem er frá árinu 1981, sitja tveir menn, leikandi sjálfa sig, að snæðingi og ræða málin.

Vinna við myndina er nýhafin en Ágúst mun afhenda myndina, sem verður um fimmtíu mínútur að lengd, til Ríkissjónvarpsins í enda sumars.

Ágúst segir ekkert fast í hendi með hvað hann geri þegar þessu verkefni lýkur. Um þessar mundir er hann að fylgja eftir Stuðmannamyndinni Í takt við tímann sem hefur gengið vel í íslenska áhorfendur. Hún, ásamt forveranum Með allt á hreinu , verður svo sýnd í Lundúnum í næsta mánuði í tengslum við hljómleika Stuðmanna í Royal Albert Hall en Ágúst segist eiga eftir að gera það upp við sig hvort hann verði viðstaddur sýningarnar eður ei.

arnart@mbl.is