Thomas Gravesen, leikmaður Real, og Marcelo Zalyeta eigast við.
Thomas Gravesen, leikmaður Real, og Marcelo Zalyeta eigast við. — Reuters
MISTÖK markvarðarins Jerzy Dudek á síðustu mínútu gætu reynst Liverpool dýr þegar upp verður staðið að loknum síðari leiknum við Bayer Leverkusen eftir hálfan mánuð.

MISTÖK markvarðarins Jerzy Dudek á síðustu mínútu gætu reynst Liverpool dýr þegar upp verður staðið að loknum síðari leiknum við Bayer Leverkusen eftir hálfan mánuð. Dudek tókst ekki að halda boltanum eftir skot að marki sínu, þess í stað hrökk boltinn út í teiginn þar sem Franca greip tækifærið og skoraði eina mark Leverkusen í þann mund sem flautað var til leiksloka.

Rétt áður en Franca minnkaði muninn hafði Dietmar Hamann gert þriðja mark Liverpool með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu. Þá var staða Liverpool vænleg, liðið virtist vera komið með annan fótinn í undanúrslitin, en Adam var ekki lengi í paradís. "Það var skömm að sjá hvernig fór hjá okkur á síðustu andartökum leiksins en því miður þá getur einbeitingarleysi komið upp á síðustu sekúndunum þegar lið er komið með góða forystu. Menn bíða þess að flautað er til leiksloka," sagði Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, eftir að flautað var til leiksloka á Anfield í gærkvöldi.

Luis Garcia kom Liverpool yfir á 15. mínútu og tuttugu mínútum síðar bætti John Arne Riise öðru marki við beint úr aukaspyrnu sem hann tók rétt utan vítateigshornsins hægra megin, sérlega laglegt mark.

"Að marki Leverkusen slepptu þá var frammistaða okkar góð," sagði Benítez og að mörgu leyti má taka undir það. Liverpool lék án Stevens Gerrards, sem tók út leikbann, en hann mætir væntanlega sprækur til leiks í Leverkusen eftir hálfan mánuð.

Áður en Liverpool komst á bragðið með marki Garcia á 15. mínútu höfðu leikmenn Leverkusen átt tvö upplögð marktækifæri. Robson Ponte fór illa að ráði sínu á 11. mínútu þegar hann skaut himinhátt yfir markið af stuttu færi. Skömmu síðar varði Dudek vel frá Dimitar Berbatov og upp því fékk Liverpool sókn sem endaði með marki Garcia.

"Mitt mat er að það var hrein óheppni af okkar hálfu að tapa með þessum mun, en úr því sem komið var þá bætti það verulega stöðu okkar að skora eitt mark í blálokin," sagði Klaus Augenthaler, þjálfari Leverkusen, í leikslok. "Þar með eigum við einhvern möguleika á að komast áfram í undanúrslit, möguleikinn opnaðist með marki Franca."