Aiko prinsessa er ekki há í loftinu núna en gæti síðar orðið keisaraynja.
Aiko prinsessa er ekki há í loftinu núna en gæti síðar orðið keisaraynja. — AP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
STJÓRNVÖLD í Japan sögðust í gær vera að velta því fyrir sér að leyfa konu að setjast í hásæti elsta konung- eða keisaradæmis í heimi. Er ástæðan sú, að keisarafjölskyldunni hefur ekki fæðst neinn drengur í 40 ár.

STJÓRNVÖLD í Japan sögðust í gær vera að velta því fyrir sér að leyfa konu að setjast í hásæti elsta konung- eða keisaradæmis í heimi. Er ástæðan sú, að keisarafjölskyldunni hefur ekki fæðst neinn drengur í 40 ár.

Tvö japönsk blöð, Mainichi Shimbun og Kuodo News , höfðu það eftir mönnum nánum Junichiro Koizumi forsætisráðherra, að hugsanlega yrði lögum breytt til að Aiko prinsessa, sem nú er þriggja ára, gæti tekið við krúnunni. Staðfesti Hiroyuki Hosoda, talsmaður stjórnarinnar, að um þetta væri verið að ræða en sagði, að enn hefði engin ákvörðun verið tekin.

Lögum samkvæmt getur aðeins karlmaður sest í hásætið, sem kennt er við tryggðablóm eða krýsantemu, en í keisarafjölskyldunni hefur enginn drengur litið dagsins ljós frá 1965. Að óbreyttu blasir því ekkert annað við en að ríkiserfðirnar gangi henni úr greipum.

Fyrsti Japanskeisarinn eða tennóinn var Jimmu sem sagður er hafa tekið við völdum árið 660 fyrir Krists burð en sagnfræðingar efast mjög um sannleiksgildi þeirra frásagna. Keisarar hafa hins vegar verið við völd í Japan óslitið í amk. 1500 ár og er talið að þeir hafi allir verið af sömu ættinni. Margir þeirra voru þó í reynd aðeins valdalausar toppfígúrur, hin raunverulegu völd voru hjá svonefndum shogun er var eins konar forsætisráðherra.

Aiko prinsessa er einkabarn Naruhitos, elsta sonar Akihitos keisara, og Masako prinsessu og ekki þykir líklegt, að á því verði breyting enda bæði komin á fimmtugsaldur. Hefur þetta ástand lagst svo þungt á Masako, að hún hefur lítið sést opinberlega í rúmt ár.

Eftir núgildandi lögum stendur Naruhito næst krúnunni, síðan Akishino, yngri bróðir hans, og að lokum Hitachi, föðurbróðir þeirra. Sonaleysið er hins vegar algert, líka hjá þeim.

Skoðanakannanir sýna, að flestir Japanar er því hlynntir, að kona geti sest í keisarastólinn og Masako nýtur mikillar samúðar meðal landa sinna.

Tókýó. AFP.

Tókýó. AFP.