Jón Páll Bjarnason gítarleikari.
Jón Páll Bjarnason gítarleikari.
Jón Páll Bjarnason, gítar, Zbigniew Jaremko, tenór-sópransaxófón og klarinett, Tómas R. Einarsson, bassa og Scott McLemore, trommur. Fimmtudagskvöldið 17. febrúar.

ÞAÐ ER alltaf jafn gaman að heyra Jón Pál leika á gítarinn og þótt hann breytist lítið frá tónleikum til tónleika er upplifunin alltaf sterk er hann spinnur í hinum klassíska boppstíl sem hann tamdi sér ungur, enda segir hann stundum: ,,Uppáhaldsgítarleikarinn minn er Charlie Parker. Auðvitað blés Parker í altósaxófón, sem trúlega hefur verið seldur á einar 70 milljónir á uppboði þegar þetta birtist, en það skiptir engu máli því það er tónlistin, hinar fræknu bíbopplínur og spuninn, sem skipta höfuðmáli, ekki hvort blásið er í sax eða pikkaður gítar. Jón Páll og félagar spiluðu líka næstum eingöngu Parker fyrir hlé og hófu leikinn á þeim Parker-ópusi sem oftast heyrist hjá íslenskum djassspilurum: Au privave. Jeremeko, sem er Pólverji og starfar sem tónlistarkennari í Bolungarvík, var með nokkuð harðan bopptón meðan Parker var á dagskrá þótt greinilegt væri að rætur hans lægju aftar, hjá mönnum einsog Don Byas sem bæði blés með Basie og Gillespie. Hann komst sæmilega frá sínu en Jón Páll var að sjálfsögðu sólóhetjan og einsog Dexter Gordon byggir hann sífellt upp rýþmíska spennu í samspili sínu við hrynsveitina. Þeir Tómas og McLemore náðu vel saman, þéttir og sterkir, og það var sérdeilis gaman að heyra Scott leika klassískt bíbopp og söngdansa - hann er fautatrommari og hvort sem hann var í hröðu boppi eða hægum standördum einsog Stardust, þar sem hann beitti burstunum, var hann á heimavelli. Erik Qvik hinn sænski hefur leikið mikið á Múlanum undanfarin ár með miklum ágætum, en það verður gaman að fá tilbreytni og ekta Njújork-trommuleik einsog Scott býður uppá inná milli.

Það var boðið uppá meiri Parker: Yardbird-svítuna og My Little Suede Shoes, sem var listilega leikin samba og Jaremko á sópran einsog í Softly Rodgers og tókst ágætlega upp þótt hljóðfærið sé oft snúið meðferðar. Pólís bauð uppá skemmtilega veislu þegar Jaremko blés að hætti hawkinista How high the moon og síðan léku Jón Páll og Tómas samstiga með honum bopplínuna sem Parker byggði á laginu, Ornithology, og svo lauk syrpunni á klassískri Jóns Páls-útsetningu. Afturá móti datt engum í hug að leika Anthropology, Confirmation eða eitthvert þeirra mörg hundruð laga sem boppararnir byggðu á I got rhythm eftir að Jaremko blés Gershwin-ópusinn með fínasta Goodman-stæl í klarinettið. Gamall bekkjarbróðir minn, sem sat við hlið mér, sagði þá stundarhátt: ,,Þetta er hvalreki fyrir eldra fólk. Það var líka hvalreki að heyra Ellington-klassíkina I let a song go out of my heart eða söngdans Ray Nobles: Cherokee - satt að segja var þetta fyrsta Múlakvöld ársins hvalreki fyrir alla sem hafa gaman af góðum djassi þar sem boppið og sveiflan haldast í hendur.

Vernharður Linnet