Óperusöngvararnir Elín Ósk Óskarsdóttir, sópran, og Jóhann Friðgeir Valdimarsson, tenór, ásamt píanóleikaranum Kurt Kopecky halda tónleika í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit miðvikudaginn 23. febrúar kl. 20.30.

Óperusöngvararnir Elín Ósk Óskarsdóttir, sópran, og Jóhann Friðgeir Valdimarsson, tenór, ásamt píanóleikaranum Kurt Kopecky halda tónleika í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit miðvikudaginn 23. febrúar kl. 20.30. Tónleikarnir eru liður í samstarfi Íslensku óperunnar og Tónvinafélags Laugarborgar.

Á efniskránni eru aríur og dúettar úr óperunni Toscu, sem sýnd er um þessar mundir í Íslensku óperunni, en þau Elín Ósk og Jóhann Friðgeir eru þar í hlutverkum söngkonunnar Toscu og málarans Cavaradossi.

Óperan Tosca er nú ein allra vinsælasta ópera Puccini. Tónlistin er margslungin og grípandi og persónusköpunin kemur ljóslega fram í tónlistinni í gegnum allt verkið, segir í frétt um tónleikana.

Ennfremur munu þau Elín Ósk og Jóhann Friðgeir syngja aríur og dúetta úr öðrum óperum Puccinis og úr óperum eftir Verdi á tónleikunum.