STEFNT er að lagfæringum á kjarasamningi stéttarfélaga við Alcan á Íslandi vegna starfsmanna við álverið í Straumsvík. Samningurinn, sem var undirritaður 27. janúar, var felldur sl.

STEFNT er að lagfæringum á kjarasamningi stéttarfélaga við Alcan á Íslandi vegna starfsmanna við álverið í Straumsvík. Samningurinn, sem var undirritaður 27. janúar, var felldur sl. fimmtudag með afgerandi hætti, en 77% sem tóku afstöðu höfnuðu samningnum.

Að sögn Gylfa Ingvarssonar, trúnaðarmanns starfsfólks við álverið, var starfsfólkið óánægt með margt í samningnum. Hann segist hafa fundað stuttlega með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins í gær þar sem staða mála hafi verið rædd. Ákveðið hafi verið að vinna að lagfæringum á samningnum og gefa því um vikutíma, en þá verður samningurinn kynntur starfsfólki álversins á nýjan leik.

"Mönnum fannst, þegar farið var nánar í þetta, vanta inn ýmis tryggingarákvæði fyrir síðasta árið," segir Gylfi, en samningurinn á að gilda út nóvember 2008. Hann segir menn hafa verið ósátta við upptöku tveggja vikna launa, ákveðnar breytingar á bónusum ásamt fleiri atriðum.

"Á sama tíma og við förum að fjalla um kjarasamningana þá kemur inn um bréfalúguna hjá mönnum hækkun á fasteignagjöldum o.fl.," segir Gylfi og bendir á að ýmsar hækkanir að undanförnu hafi farið í skapið á fólki á sama tíma og þegar verið sé að semja um kaup og kjör með tilliti til verðlagsþróunar. Ýmsir aðilar, t.a.m. ASÍ, hafi bent á að verðlagsforsendur samninga, sem hafi verið lagðar til grundvallar allri samningagerð, séu brostnar.

Hann segir trúnaðarráðið hafa fundað í fyrrakvöld og boðið hafi verið til annars fundar næsta mánudag þar sem tekin verður afstaða um gang mála.