ÞORMÓÐUR Jónsson júdókappi vann silfurverðlaun á Matsumae-mótinu í Danmörku um liðna helgi en hann keppir í +100 kílóa flokki.

ÞORMÓÐUR Jónsson júdókappi vann silfurverðlaun á Matsumae-mótinu í Danmörku um liðna helgi en hann keppir í +100 kílóa flokki.

Auk þess að ná öðru sæti í sínum flokki varð hann í sjöunda sæti í opnum flokki á mótinu, sem hefur aldrei verið eins sterkt, en þetta er í níunda sinn sem mótið er haldið. að þessu sinni voru keppendur um 200 talsins frá 20 löndum. Þormóður glímdi níu sinnum á mótinu, alltaf við Japani, og vann sex af viðureignum sínum og allar á ippon, með fullnaðarsigri.

Ellefu íslenskir júdómenn tóku þátt í mótinu að þessu sinni, þar af fjórir yngri en tvítugir. Þrír keppendur fyrir utan Þormóð náðu að vinna glímu. Sævar Jónsson lagði tvo mótherja sína í -81 kílóa flokki. Jósep Þórhallsson vann eina glímu í -90 kílóa flokki og Margét Bjarnadóttir eina í -63 kílóa flokki.

Að sögn Bjarna Friðrikssonar vantaði talsvert upp á að íslensku keppendurnir næðu að sýna sitt besta. "Sá sem kom mest á óvart var Kristján Jónsson, sem keppti í -66 kílóa flokki. Hann er aðeins 17 ára og lenti í uppreisnarglímu við Lasse Pedersen, sem er sterkasti, eða næststerkasti Daninn í þessum flokki, og stóð sig frábærlega á móti honum og það vottaði ekki fyrir minnimáttarkennd hjá honum," sagði Bjarni.