FYLKISMENN hafa ekki tekið ákvörðun hvort samið verður við sænska sóknarmanninn Eric Gustafsson, en hann hefur verið hjá Árbæjarliðinu til reynslu síðustu dagana.

Ásgeir Ásgeirsson, formaður meistaraflokksráðs Fylkis, sagði við Morgunblaðið í gær að fyrirhugað væri að Gustafsson færi í æfingaferð með Fylkismönnum til Spánar um miðjan mars og í kjölfarið yrði tekin ákvörðun um hvort honum yrði boðinn samningur. ,,Mér líst vel á það sem ég hef séð til hans. Þetta er stór og sterkur strákur sem ég tel að geti hentað liðinu vel. Hann er mjög áhugasamur á koma til okkar en það er auðvitað þjálfarans að taka ákvörðun um hvort svo verður," sagði Ásgeir. Ásgeir sagði að líklega kæmi breskur leikmaður til Fylkis til reynslu á næstunni en forráðamenn Árbæjarliðsins hyggjast fá tvo til þrjá útlendinga í sínar raðir fyrir komandi tímabil.

Gustafsson er 23 ára gamall framherji sem leikið hefur 21 leik með Örgryte í sænsku úrvalsdeildinni. Hann hafnaði tilboði frá sænsku 1. deildarliðið á dögunum og valdi frekar að reyna fyrir sér hjá Fylkismönnum.