ÁHUGAMANNAFÉLAGIÐ Vinir Akureyrar skorar á bæjaryfirvöld að taka ákvörðun um að hefja snjóframleiðslu í Hlíðarfjalli strax á haustdögum 2005.

ÁHUGAMANNAFÉLAGIÐ Vinir Akureyrar skorar á bæjaryfirvöld að taka ákvörðun um að hefja snjóframleiðslu í Hlíðarfjalli strax á haustdögum 2005. Félagið bendir á Hlíðarfjall sé miðstöð vetraríþrótta á Íslandi og ef svæðið eigi að standa undir nafni verði nú þegar að hefjast handa við undirbúning framkvæmda svo tryggt sé að snjóframleiðsla geti hafist næsta haust.

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli hefur verið lokað öðru hverju yfir vetrartímann undanfarin ár og stundum á háannatíma. Ástæðan er fyrst og fremst snjóleysi og telja Vinir Akureyrar að tryggja verði þann stöðugleika í ferðaþjónustu sem fjallið býður upp á, því ferðaþjónusta yfir vetrartímann byggist mjög svo á því að hægt sé að skella sér á skíði.

Uppbygging fyrir 300 milljónir króna á síðustu árum

Bent er á að sú gríðarlega uppbygging sem átt hefur sér stað í Hlíðarfjalli, upp á 300 milljónir króna frá 1998, nýtist ekki þá daga sem fjallið er lokað. Fram komi í skýrslu sem gerð var fyrir Vetraríþróttamiðstöð Íslands árið 2003 að stofnkostnaður við snjóframleiðslu sé um 80 milljónir króna og rekstrarkostnaður 2 til 3 milljónir á ári hverju. Þetta séu ekki háar tölur, ef haft er í huga að þær geta komið í veg fyrir að fjallið sé lokað marga daga á vetri hverjum vegna snjóleysis.

Vinir Akureyrar er áhugamannafélag sem hefur það að markmiði að auka straum ferðamanna til Akureyrar og efla Akureyri á allan þann hátt sem unnt er.

Síðastliðin fjögur ár hafa Vinir Akureyrar m.a. staðið fyrir fjölskylduhátíðinni "Ein með öllu" um verslunarmannahelgina.