"Mér fannst áheyrendur afar hlýlegir í viðtökum sínum og viðmóti og því er ég glaður að vera á leiðinni þangað aftur," segir tenórsöngvarinn José Carreras um tónleika sína hérlendis árið 2001.
"Mér fannst áheyrendur afar hlýlegir í viðtökum sínum og viðmóti og því er ég glaður að vera á leiðinni þangað aftur," segir tenórsöngvarinn José Carreras um tónleika sína hérlendis árið 2001. — Morgunblaðið/Þorkell
José Carreras er einn þekktasti söngvari óperuheimsins og heldur aðra tónleika sína á Íslandi eftir tíu daga.

José Carreras er einn þekktasti söngvari óperuheimsins og heldur aðra tónleika sína á Íslandi eftir tíu daga. Inga María Leifsdóttir hélt á vit tenórsöngvarans í heimaborg hans Barcelona, ræddi við hann um list hans og líf og komst að því að hann telur það forréttindi að fá að vinna starf sem hann hefur köllun til.

Hann er lágvaxinn og grannur, orðinn eldri en mann grunar. Hárið hefur einhvern tíma verið hrafnsvart en er nú grátt. En augliti til auglitis hefur hann þó ekki glatað neinu af þeirri útgeislun sem hann er svo rómaður fyrir. Augun eru enn sindrandi dökk; í þeim er að finna þann trega og þá ástríðu sem líf hans hefur einkennst af. José Carreras, hinn heimsþekkti tenórsöngvari, situr andspænis mér í litlu upptökustúdíói í einu af öngstrætum Barcelonaborgar.

Indæll og hógvær

Það var ekki auðvelt mál að finna þetta litla stúdíó, þar sem Carreras hefur kosið að haga fundi okkar. Það kemur í ljós að litla gatan í Poble Espanyol, spænska hverfinu, er ekki merkt inn á almenn kort af borginni og þrátt fyrir að starfsmenn hótelsins hafi gert sitt besta til að merkja staðsetninguna nokkurn veginn inn á kortið er leigubílstjórinn heillengi að finna staðinn. Þá kemur í ljós að stúdíóið er til húsa í kjallara venjulegrar íbúðarblokkar og er ekki mikið fyrir augað. En að sögn umboðsaðila Carreras, Peters Kupfer sem ég hitti í stúdíóinu, þykir stórsöngvaranum vænt um þennan stað. "Við höfum tekið upp í alls konar stúdíóum; allt frá Abbey Road til pínulítilla einkastúdíóa. Af vissum ástæðum stendur þessi staður hjarta hans sérstaklega nærri," segir Kupfer við mig. "Hljómburðurinn í salnum hentar rödd hans vel og hér ríkir viss stemning, þrátt fyrir að umhverfið sé ekkert glæsilegt."

Það er eitthvað notalegt við þá tilhugsun að stórsöngvari á borð við José Carreras, maður sem er elskaður og dáður vegna stórkostlegra sönghæfileika sinna af milljónum manna um víða veröld, skuli ekki hafa hrokafyllra viðhorf en þetta. Að það sem honum finnist skipta mestu sé hljómur og stemning, ekki umhverfi og útlit. Reyndar hafði mér verið sagt að Carreras væri einstaklega viðkunnanlegur maður og hógvær í viðkynningu. Því fengu nokkrir íslenskir fréttamenn að kynnast þegar hann kom síðast hingað til lands. Og það á eftir að koma á daginn; þegar hann kemur sjálfur á staðinn í stúdíóið litla er hann allt að því feiminn. En indæll er hann vissulega og virðist veita viðtöl vegna tónleika sinna á Íslandi hinn 5. mars næstkomandi með ánægju.

Grieg á efnisskránni

Ég byrja því á að spyrja hann þeirrar klassísku íslensku spurningar, hvort hann hlakki til að koma til landsins. "Vissulega. Ég kom í fyrstu heimsókn mína til landsins ykkar árið 2001, og hélt mína fyrstu tónleika þar. Mér fannst áheyrendur afar hlýlegir í viðtökum sínum og viðmóti og því er ég glaður að vera á leiðinni þangað aftur," svarar Carreras.

Þeir eru þónokkrir Íslendingarnir sem muna þessa tónleika sem Carreras er að tala um, þegar hann troðfyllti Laugardalshöllina ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands og Diddú. Þeir voru vel heppnaðir; "Á sönginn bar engan skugga" var fyrirsögn tónlistargagnrýni Jóns Ásgeirssonar í Morgunblaðinu eftir tónleikana.

En tónleikar hans eftir tíu daga verða með öðru sniði en þá. Með Carreras í för verður strengjakvartettinn Nuovo Quartetto Italiano og píanóleikarinn Lorenzo Bavaj, en enginn söngvari verður honum til fulltingis. Þetta verða því hreinræktaðir einsöngstónleikar og verða haldnir í Háskólabíói, sem þrátt fyrir að vera einn stærsti salur landsins býður upp á mun meiri nálægð við áheyrendur en hin annars ágæta Laugardalshöll. "Það er allt önnur nálgun að þessum tónleikum og þeir verða aðeins sígildari en síðast þegar ég kom," segir Carreras, en á efnisskránni þá voru ýmis verk sem aldrei höfðu komið fyrir eyru Íslendinga áður. Nú verður annað uppi á teningnum, Carreras ætlar meira að segja að syngja eitt lag eftir Edward Grieg, hið yndislega og vel þekkta Jeg elsker dig eða T'Estimo eins og það mun hljóma hjá honum, þó að eflaust verði þar einnig einhver verk sem sjaldan hafa heyrst hérlendis.

Á undanförnum tveimur árum hefur Carreras snúið sér í auknum mæli að einsöngstónleikaforminu, umfram stóra hljómsveitartónleika á borð við þá sem hann flutti hérna árið 2001 og hefðbundnar óperuuppfærslur, sem þó eru alltaf reglulega á dagskrá hans líka. "Það er vissulega önnur og kannski innilegri stemning á slíkum tónleikum þar sem færri koma við sögu á sviðinu," segir hann. "Því mun ég ekki taka óperuaríur á tónleikunum núna þó að efnisskráin sé mjög klassísk, enda finnst mér að slíka tónlist eigi helst að flytja á þann hátt sem hún var skrifuð; með fullri hljómsveit."

Ég freista þess að spyrja Carreras hvort það sé eitthvert sérstakt verk á efnisskránni sem hann heldur sérstaklega upp á, í þeirri von að geta flutt áheyrendum tónleikanna enn meiri innsýn í efnisskrána. Hversu gaman væri ekki að sitja í salnum og vita að þegar kæmi að tilteknu númeri á efnisskránni vissi maður að Carreras væri að syngja uppáhaldslagið sitt. Hann hlær góðlátlega þegar spurningin kemur upp. "Það er erfitt að segja, vegna þess að við erum að setja saman marga ólíka stíla, frá ólíkum tímabilum tónlistarsögunnar, allt frá 18. öldinni og fram á okkar daga, og á ólíkum tungumálum. Því er erfitt að velja eitt stykki umfram annað, en auðvitað eru öll stykkin sem við munum flytja nokkuð sem okkur þykir gaman að flytja. Við vonum að áheyrendur muni njóta þeirra eins vel og við. Reyndar kom Plácido Domingo með gott svar eitt sinn við spurningu af þessu tagi - að velja milli verka er eins og gera upp á milli barnanna sinna," segir Carreras og veit kannski ekki hversu algengt það orðtak er hérlendis. Ef til vill hefði ég getað sagt mér sjálf að þetta væru allt "börnin hans" sem hann tekur með sér á tónleikana.

En Carreras hefur ekki snúið baki við óperunni, þvert á móti vinnur hann þessa dagana að verkefni í samstarfi við Liceu-óperuna í Barcelona, Washington-óperuna í Bandaríkjunum og óperu í Japan um nýstárlega uppfærslu á óperu eftir Umberto Giordano eða Pietro Mascagni. Og hann segist ennþá gjarnan vilja taka þátt í óperuuppfærslum þó að hann geri minna af því en áður.

Hefur alltaf viljað syngja

Það er alveg ljóst að José Carreras er lifandi goðsögn í heimi tónlistarinnar. Ein af þeim sögum sem víða má lesa í umfjöllunum um líf Carreras er að hann hafi alltaf verið að syngja frá blautu barnsbeini. Hann brosir þegar ég spyr hann um þetta. "Ég fæddist hér í Barcelona, sem er heimaborg mín. Þegar ég var sex ára fór ég með foreldrum mínum í bíó eitt kvöldið og fyrir einskæra tilviljun var myndin sem sýnd var það kvöldið The Great Caruso með ameríska tenórnum Mario Lanza í aðalhlutverki," segir hann. Carreras er fæddur árið 1946, þannig að þetta hefur verið í upphafi 6. áratugarins, á tímum þegar ekki var úr mörgu að velja þegar farið var í bíó. "Kvikmyndin sjálf, tónlistin, þessi sérstæða persóna sem myndin fjallaði um, hin undurfagra rödd Mario Lanza - eitthvað gerði að verkum að ég heillaðist algjörlega af myndinni. Í kjölfarið fór ég að syngja - auðvitað á mjög barnalegan hátt - öll lögin úr myndinni. Foreldrar mínir hugsuðu með sér að fyrst að ég sýndi þennan áhuga á tónlist væri líklega rétt að ég lærði tónlist og sjö ára gamall hóf ég tónlistarnám. Síðan þá hef ég alltaf viljað syngja."

Söngurinn hefur því greinilega verið stóra ástríðan í lífi José Carreras, sú ástríða sem er svo greinileg af öllu hans fasi. "Ég held að það sé mikill munaður að fá að starfa við það sem maður hefur köllun til og veitir manni fullnægju, ekki bara sem starf heldur sem lífið sjálft. Þú hlýtur að skilja hvað ég á við, því þitt starf er einnig af því tagi, það er ekki hægt að vinna það án þess að hafa á því brennandi áhuga, er það ekki?" spyr Carreras mig. Og jú, svo sannarlega er það mér ofarlega í huga þar sem ég er stödd í Barcelonaborg að hitta einn af þekktustu tónlistarmönnum samtíðarinnar, að sjaldan hef ég fengið eins skemmtilegt og spennandi verkefni.

Barist við krabbamein

En þótt ástríðan sé eitt af því sem einkennt hefur líf José Carreras hefur hann einnig kynnst erfiðari hliðum lífsins. Árið 1987, þegar hann stóð á hátindi frægðar sinnar, greindist hann með bráðahvítblæði. Að mati lækna voru lífslíkur hans innan við 10%. En hann var einn af þeim heppnu sem tókst að yfirvinna sjúkdóminn og hefur ekki kennt sér meins síðan. "Ég var ellefu mánuði á spítala, fyrst í fjögurra mánaða meðferð hér í Barcelona og síðan fór ég til Seattle í Bandaríkjunum þar sem ég gekkst undir beinmergsskipti. Það þýðir að síðustu sautján árin hef ég verið frískur og lifi fullkomlega eðlilegu lífi. Ég lít á mig sem mjög heppinn mann," segir hann.

Carreras hefur þó ekki gleymt örlögum sínum og stofnaði árið eftir að hann læknaðist sjóð, The José Carreras International Leukaemia Foundation, til styrktar rannsóknum á sjúkdómnum og aðstoðar við fórnarlömb hans. "Við styrkjum rannsóknir fjárhagslega, höldum utan um spænskan gagnagrunn yfir óskylda beinmergsgjafa og styðjum einstaklinga og fjölskyldur sem þjást af sjúkdómnum," útskýrir hann. Á ári hverju heldur hann á annan tug tónleika sem eru sérstakir styrktartónleikar fyrir sjóðinn, þar sem allur ágóði rennur óskiptur til hans. Hins vegar segist hann hafa viljað halda slíkum tónleikum aðskildum frá öðrum "venjulegum" tónleikum, og því mun enginn ágóði af tónleikunum hérna á Íslandi renna til sjóðsins. "Það gæti annars verið misskilið. Þegar ég kem til Íslands vil ég halda tónleika sem José Carreras, tenórsöngvarinn, og ekkert annað."

Tenórarnir þrír

Og það er eflaust von allra sem ætla að leggja leið sína í Háskólabíó hinn 5. mars, að þar verði José Carreras, óskiptur, að syngja með sinni víðfrægu rödd. Leggja má að því líkur að Carreras sé einn af þremur frægustu núlifandi tenórsöngvurum, ásamt þeim Luciano Pavarotti og Plácido Domingo, sem einnig er væntanlegur hingað til lands í marsmánuði. Jón Ásgeirsson tónlistargagnrýnandi lýsti tenórunum þremur þannig í fyrrnefndri tónlistargagnrýni sinni að Pavarotti væri náttúrubarnið, Domingo kunnáttumaðurinn en Carreras fagurkerinn. Í samhengi við hina tvo hefur Carreras einnig verið nefndur sem sá minnst þekkti, samanber víðfrægan þátt úr sjónvarpsseríunni um Seinfeld og vini hans, þar sem einn af karakterunum segir "Pavarotti, Domingo, og...þú veist...hinn þarna."

Eins og gengur hefur samanburðurinn því verið Carreras bæði hagstæður og óhagstæður á vissan hátt. En það var Carreras sjálfur sem var upphafsmaðurinn að hinum svokölluðu "Þriggja tenóra tónleikum", tónleikum sem í senn voru bæði óhemju vinsælir og mjög umdeildir. Hann segist ekki vilja slá sig til riddara með því að taka á sig heiðurinn af hugmyndinni að baki tónleikunum, en viðurkennir þó að hann eigi þar stóran hlut að máli. "Það var nokkrum mánuðum fyrir heimsmeistarakeppnina í fótbolta á Ítalíu árið 1990, að sú hugmynd var borin upp við mig hvort ekki ætti að halda sjónvarpstónleika með mörgum frægum stjörnum í tengslum við keppnina," segir Carreras. Það kemur ef til vill ekki á óvart að Carreras hafi fengið áhuga á tónleikum sem sneru að fótboltakeppni - hann er yfirlýstur áhugamaður um fótbolta og heldur að sjálfsögðu með heimaborgarliði sínu, Barcelona. "Ég kom þá á móti með þá hugmynd að hafa þá dálítið öðruvísi en áður hafði tíðkast - stilla saman þeim þremur tenórum sem á þeim tíma voru ekki endilega bestir, en líklega vinsælastir: Pavarotti, Domingo og sjálfum mér. Við gerðum að öllum líkindum flestar upptökur, sungum oftast við virtustu óperuhúsin og unnum með mikilvægustu hljómsveitarstjórunum. Einhverjum líkaði hugmyndin og þegar málið var borið undir Luciano og Plácido leist þeim undireins vel á þetta. Fyrstu tónleikarnir sem við héldum voru sem sagt árið 1990, en jafnvel þó að það virðist kannski eins og við höfum sungið hundruð tónleika saman höfum við bara sungið 30 tónleika á fimmtán árum. Við skemmtum okkur vel við þessa tónleika, og það meina ég einlæglega."

Carreras er ekki blindur á þá gagnrýni sem þessir tónleikar hafa fengið gegnum tíðina, þar sem viss hópur af fólki hefur þótt þeir vera klassískri tónlist til minnkunar. "Það mætti kannski kalla fólk sem er þeirrar skoðunar púrista og því fannst þetta verkefni umdeilanlegt. Því á að bera fulla virðingu fyrir og er hluti af leiknum enda er aldrei hægt að gera öllum til hæfis. En ég held að hið jákvæðasta fyrir okkur þrjá sem komum saman og sungum sé að við höfðum tækifæri til að ná til miklu breiðari hóps áheyrenda, ekki einungis hreinræktaðra óperuaðdáenda eða unnenda klassískrar tónlistar."

Sjálfsagi mikilvægur

Fyrir viðtalið höfðu mér verið skammtaðar tuttugu mínútur og var beðin að reyna að halda þann ramma eins og ég gæti. Ein til tvær mínútur væru allt í lagi en fimm mínútur framyfir væri of mikið. Klukkan hefur tifað alltof hratt í samtali okkar Carreras, eins og gengur þegar gaman er. Þó höfum við náð að ræða ýmis mál sem er hluti af þeirri ímynd sem tenórinn José Carreras samanstendur af. En áður en ég leyfi honum að fara verð ég að spyrja hann aðeins um sönginn sjálfan, um röddina hans óviðjafnanlegu. Hvað söngvarar þurfi að hafa til að bera og hvers vegna hann hafi þessa rödd.

"Ég held að söngvari þurfi að hafa mikinn sjálfsaga til að bera. Og það er auðvelt að skilja vegna þess að við berum hljóðfærið okkar með okkur hvert sem við förum. Það er ekki eins og eftir æfingu eða tónleika getum við sett hljóðfærið ofan í kassa og sagt, "við sjáumst á morgun" við það," segir hann og hlær við. "Nei, maður ber það með sér og það verður því fyrir áhrifum af hverju því sem maður verður sjálfur fyrir, ekki bara líkamlega heldur einnig andlega stundum. Auðvitað koma þættir eins og mengun, hvað maður borðar og hvernig maður sefur við sögu en það gera líka persónulegir hlutir. Ef það er ekki allt í lagi í kringum mann, vini manns og fjölskyldu, getur það haft mikil áhrif á einbeitinguna. Þá er aginn afar mikilvægur. Á hinn bóginn má aginn ekki íþyngja manni þannig að maður lifi lífinu líkt og í glerkúlu. Maður þarf að lifa eins og venjuleg manneskja en um leið gera sér grein fyrir að maður ber hljóðfærið sitt með sér. Með árunum lærir maður hvað er gott og ekki gott, hvað er algjörlega nauðsynlegt og hverju verður að sleppa. Auðvitað kemur það fyrir að maður fái flensu og því getur maður ekkert gert við. Eins og þeir segja þarf maður sjö daga án lyfja til að lækna kvef, eða eina viku á lyfjum. Maður þarf að hvílast og hvíla röddina. En guði sé lof gerist þetta ekki oft," segir Carreras hlæjandi og lemur þrisvar laust í borðið. Ég segist vona að hann fái enga af þeim flensum sem hafa verið að hrjá Íslendinga svo illa síðustu vikur og hann segist sannfærður um að svo verði ekki.

Hjarta - höfuð - rödd

Áður en ég gekk til fundar við José Carreras hafði ég lagst yfir nokkuð af viðtölum við hann og greinum. Eitt af því sem ég hafði lesið var að hann teldi að söngurinn byrjaði för sína í hjartanu, færi þaðan upp til höfuðsins og loks út í röddina. Ég spyr hann hvort að hans mati sé þetta þrennt - hjarta, höfuð, rödd - þrenning söngsins? "Ég hef aldrei hugsað um það orð, en já, það má sjálfsagt kalla það þrenningu. Ég held að aflið sem knýr okkur sé það sem kallað er sál, eða tilfinningar, og þar verður til fyrsta hvötin til að syngja. Þaðan færist hún til höfuðsins, heilans - tölvu manneskjunnar. Hljóðfærið sem höfuðið kýs að nota er síðan röddin. En allar gjörðir okkar eiga sér rætur í hjartanu, það efast ég ekki um," segir hann. Og söngurinn eflaust ekki síst? "Það hafa margir sett fram kenningar um hvað söngur sé og hvað röddin sé. Ein af þeim kemur frá einu mikilvægasta tónskáldi Ítalta, Pietro Mascagni, sem sagði: "Til þess að syngja þarftu líka rödd." Ég held að það sé mjög góð kenning."

ingamaria@mbl.is