Íranar gráta við rústir heimilis síns í þorpinu Dahouyeh sem jafnaðist við jörðu í jarðskjálftanum í gær.
Íranar gráta við rústir heimilis síns í þorpinu Dahouyeh sem jafnaðist við jörðu í jarðskjálftanum í gær. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
AÐ MINNSTA kosti 420 manns létu lífið þegar snarpur jarðskjálfti reið yfir Kerman-hérað í Íran í gær. Embættismenn töldu að dánartalan myndi hækka. Að minnsta kosti 40 bæir og þorp með alls um 30.

AÐ MINNSTA kosti 420 manns létu lífið þegar snarpur jarðskjálfti reið yfir Kerman-hérað í Íran í gær. Embættismenn töldu að dánartalan myndi hækka. Að minnsta kosti 40 bæir og þorp með alls um 30.000 íbúa urðu fyrir tjóni í jarðskjálftanum sem mældist 6,4 stig á Richters-kvarða og reið yfir strjálbýlt fjalllendi laust fyrir klukkan sex í gærmorgun að staðartíma.

Íbúar þorpanna hófu strax örvæntingarfulla leit í rústum leirsteinshúsa sem hrundu í skjálftanum. Lítið tjón varð á steinsteyptum húsum á svæðinu. Úrhelli torveldaði björgunarstarfið og senda þurfti björgunarþyrlur til nokkurra fjallaþorpa þar sem vegir lokuðust. "Við teljum að dánartalan fari yfir 500 og tala slasaðra verði allt að 5.000 þegar við komumst til þorpanna," sagði talsmaður heilbrigðisyfirvalda í Kerman-héraði.

Þorp jöfnuðust við jörðu

Rauði hálfmáninn í Íran sagði að um tuttugu þorp hefðu orðið fyrir miklu tjóni. Haft var eftir héraðsstjóranum í Kerman að nokkur þorp hefðu jafnast við jörðu. Hermt var að þorpið Dahuyeh hefði gereyðilagst og margir íbúanna hefðu verið í mosku sem hrundi í skjálftanum.

Skjálftamiðjan var um 200 km frá borginni Bam sem jafnaðist nánast við jörðu í jarðskjálfta í desember 2003. Yfir 30.000 manns létu þá lífið í skjálfta sem mældist 6,7 stig á Richters-kvarða.

Jarðskjálftinn í gær reið yfir strjálbýlla svæði og upptök hans voru dýpra í jörðu en í skjálftanum 2003.

Sarbagh. AP, AFP.

Sarbagh. AP, AFP.