Akranes/Reyðarfjörður | Sveinbjörn Sigurðsson ehf. átti lægstu tilboð í byggingu fjölnota íþróttahúsa á Akranesi og Reyðarfirði. Býðst hann til að byggja óeinangrað og óupphitað hús á Akranesi fyrir liðlega 336 milljónir kr. og fyrir 324 milljónir kr.

Akranes/Reyðarfjörður | Sveinbjörn Sigurðsson ehf. átti lægstu tilboð í byggingu fjölnota íþróttahúsa á Akranesi og Reyðarfirði. Býðst hann til að byggja óeinangrað og óupphitað hús á Akranesi fyrir liðlega 336 milljónir kr. og fyrir 324 milljónir kr. á Reyðarfirði. Verði samið um byggingu beggja húsanna býðst hann til að veita liðlega 3 milljóna króna afslátt af hvoru húsi. Fyrirtækið býðst til að byggja einangrað hús á Akranesi fyrir um 471 milljón kr. og 453 milljónir á Reyðarfirði.

Bæjarstjórn Akraness ákvað í byrjun ársins að auglýsa opið alútboð á Akraneshöllinni. Miðað er við að húsið verði óeinangrað og óupphitað en jafnframt óskað eftir verði í einangrað og hitað hús. Eftir að útboð hafði verið auglýst ákvað bæjarstjórn Fjarðabyggðar að óska eftir samvinnu við Akurnesinga um útboðið með það í huga að byggja eins hús á Reyðarfirði. Tilboðin voru opnuð á Akranesi í gær.

Hærri tilboð en vonast var eftir

"Flest tilboðin í óeinangrað hús eru heldur hærri en við vonuðumst eftir en lægsta tilboðið var ekki fjarri því sem við væntum. Tilboð í einangruðu húsin eru í takti við það sem búast mátti við," segir Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi. Hann segir að tilboðin verði nú yfirfarin af Hönnun hf. og síðan lögð fyrir bæjarstjórn til ákvörðunar.

Átta tilboð bárust til beggja sveitarfélaganna. Tilboð í óeinangruðu húsin eru á bilinu 324 til 533 milljónir. Einangruðu húsin kosta á bilinu 453 til 596 milljónir kr.

Í húsinu verður 68 sinnum 105 metra gervigrasvöllur, hlaupabraut og áhorfendapallar. Í útboði er miðað við að framkvæmdir hefjist í haust og ljúki eigi síðar en 1. júní á næsta ári.