Á stofunni Mariam Elisabeth Hill, 16 ára skiptinemi frá Alaska, var fljót að nýta sér frelsið á Íslandi og fékk sér húðflúr á stofunni í Keflavík. Reyndin er sú að Ameríkanar eru góðir viðskiptavinir húðflúrstofunnar.
Á stofunni Mariam Elisabeth Hill, 16 ára skiptinemi frá Alaska, var fljót að nýta sér frelsið á Íslandi og fékk sér húðflúr á stofunni í Keflavík. Reyndin er sú að Ameríkanar eru góðir viðskiptavinir húðflúrstofunnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Keflavík | "Í þessum bransa eru þrjár tegundir af fólki, þeir sem fá sér aldrei húðflúr, þeir sem fá sér eitt húðflúr og þeir sem fá sér eitt og koma aftur og aftur," sagði Enok Þorvaldsson í samtali við blaðamann sem ákvað fyrir skemmstu að...

Keflavík | "Í þessum bransa eru þrjár tegundir af fólki, þeir sem fá sér aldrei húðflúr, þeir sem fá sér eitt húðflúr og þeir sem fá sér eitt og koma aftur og aftur," sagði Enok Þorvaldsson í samtali við blaðamann sem ákvað fyrir skemmstu að koma sér úr hópi eitt í hóp tvö. "Þú kemur svo aftur og færð þér næst á bakið," bætti Enok við.

Enok Þorvaldsson húðflúrari og Hlynur Ólafsson gatari opnuðu seint á síðasta ári stofuna Húðflúr og götun á Hafnargötu í Reykjanesbæ. Þeir voru þá báðir nýkomnir heim úr námi, Hlynur frá Spáni en Enok frá Bandaríkjunum, þar sem hann nam við World's only tattoo school í Michigan. Allmörg viðurkenningarskjöl stíluð á Enok hanga á vegg við innganginn, ásamt viðeigandi leyfum.

Hann hefur m.a. fengið þjálfun í að húðflúra eldra fólk og blökkumenn. "Það er mikil kúnst að húðflúra blökkumenn en ég get húðflúrað mjög dökkt fólk með svörtum lit svo það sjáist vel," sagði Enok.

Hlynur þarf hins vegar ekki að hafa miklar áhyggjur af mismunandi húðgerðum auk þess sem viðskiptavinir hans eru flestir í yngri kantinum. Það nýjasta nýtt eru göng í eyrað þar sem teygt er á gati í eyrnasneplinum þannig að göng myndast. Hlynur verður var við grettu blaðamanns en svarar því til að þetta sé ótrúlega vinsælt. "Íslendingar eru mjög nýjungagjarnir auk þess sem umræðan í fjölmiðlum hefur verið að aukast. Öll umræða er orðin opnari og fólk er jákvæðara," sagði Hlynur og er þar með rokinn að setja gat í nafla.

"Þetta er vont"

Viðskiptavinir Húðflúrs og götunar verða að vera 18 ára en mega koma 16 ára í fylgd með foreldrum eða forráðamönnum. Mariam Elisabeth Hill, 16 ára skiptinemi frá Alaska, sem er undir verndarvæng blaðamanns, var fljót að taka við sér þegar hún frétti af þessu, enda í sjöunda himni yfir frelsinu á Íslandi. Blaðamaður tók líka við sér enda lengi verið á stefnuskrá að fá sér húðflúr.

Meðan beðið var eftir þjónustu var ekki laust við að kvíðaskjálftinn færðist í aukana hjá unglingnum. Það lagaðist ekki við að koma inn í sjálfa aðgerðarstofuna þar sem ýmislegt minnti á annars konar sársaukafulla reynslu.

"Fólk er mest hrætt við sýkingar," segir Enok, "en það eru allir öruggir hér. Ég kaupi allt í gegnum gamla skólann minn og fer svo með allar nálar í apótekið eftir notkun."

Eftir að Enok hefur boðið blaðamanni til sætis tilkynnir hann: "Þetta er vont," um leið og hann gerir tækið tilbúið með viðeigandi nál. Tækið minnir helst á tannlæknabor, sérstaklega eftir að það er komið í gang. "Þetta er svipað og brenna sig á sígarettu," bætir hann við og vill vera alveg viss um að þetta sé einlægur vilji þess sem situr í stólnum.

"Hvað, maður hlýtur nú að komast í gegnum þetta eftir tvo keisaraskurði og aðrar minniháttar aðgerðir," svarar blaðamaður og lítur glottandi á unglinginn sem getur ekki skýlt sér á bak við viðlíka reynslu.

Víkingarún á stórutá

"Konur eru miklu harðari í þessu," sagði Enok þá og Hlynur tekur heilshugar undir. Með þá vitneskju í farteskinu verður viljinn enn sterkari og Enok tekur til starfa. Blaðamanni til mikillar undrunar er sársaukinn við húðflúrunina sáralítill, en þó fer í gegnum hugann léttir yfir því að verkið skulu ekki vera stærra en lítil víkingarún á annarri stórutánni. Kannski erum við konurnar ekkert harði eftir allt saman, kannski er skýringin frekar sú að þær fá sér lítið húðflúr meðan karlarnir eru í öllu umfangsmeiri skrauti. Það nægir að líta á þá félaga, Hlyn og Enok, sem virðast vera komnir í samkeppni um hvor hafi skreytt sig meira.

Hvað svo sem síðar verður halda þær nýhúðflúruðu út í kvöldið með leiðbeiningar undir höndum um hvernig meðhöndla eigi nýtt húðflúr.