Ahmed Omar Abu Ali
Ahmed Omar Abu Ali
BANDARÍSKUR ríkisborgari af jórdönsku bergi brotinn var formlega ákærður fyrir alríkisrétti í Alexandríu í Virginíu-ríki í gær fyrir að hafa lagt á ráðin um að myrða George W. Bush Bandaríkjaforseta.

BANDARÍSKUR ríkisborgari af jórdönsku bergi brotinn var formlega ákærður fyrir alríkisrétti í Alexandríu í Virginíu-ríki í gær fyrir að hafa lagt á ráðin um að myrða George W. Bush Bandaríkjaforseta. Maðurinn, Ahmed Omar Abu Ali, er 23 ára gamall og var handtekinn í Sádi-Arabíu í júní 2003. Hann er einnig sakaður um aðild að al-Qaeda-hryðjuverkasamtökunum.

Í ákærum á hendur Ali er hann sakaður um að hafa rætt það við annan, ónefndan mann á árunum 2002 og 2003 að myrða Bush en Ali var þá við nám í Medina í Sádi-Arabíu. Fólu áætlanir þeirra í sér að Ali reyndi að komast nægilega nálægt Bush til að geta skotið hann á götu úti eða þá að hann myndi sprengja bílsprengju er Bush æki hjá.

Ali fæddist í Houston í Texas en flutti síðar til Virginíu. Saksóknarar segja að hann hafi gengið til liðs við al-Qaeda í Sádi-Arabíu árið 2001. Ákæruatriðin eru alls sex og Ali á yfir höfði sér allt að 80 ára fangelsisdóm ef hann verður fundinn sekur. Fullyrt er að upplýsingar um meint samsæri Alis um að myrða Bush hafi komið fram í dagsljósið við yfirheyrslur á tveimur mönnum í Sádi-Arabíu eftir hryðjuverkaárás í borginni Riyadh 12. maí 2003 sem kostaði 34 lífið.

Ali fullyrti fyrir réttinum í gær að hann hefði sætt pyntingum á meðan hann var í varðhaldi í Sádí-Arabíu. Segja ættingjar hans að bandarísk stjórnvöld hafi fengið þau sádi-arabísku til að handtaka Ali og að það hafi verið ósk ráðamanna í Washington að Ali yrði haldið í Sádi-Arabíu þannig að hægt væri að pynta hann meðan á yfirheyrslum stæði.

Alexandríu, Washington. AP, AFP.

Alexandríu, Washington. AP, AFP.