Bresk-bandaríski gömbukvartettinn Phantasm.
Bresk-bandaríski gömbukvartettinn Phantasm.
BRESK-BANDARÍSKI gömbukvartettinn Phantasm er væntanlegur til Íslands í apríl.

BRESK-BANDARÍSKI gömbukvartettinn Phantasm er væntanlegur til Íslands í apríl. Meðlimir kvartettsins munu dvelja á Íslandi í viku sem gestakennarar við tónlistardeild Listaháskóla Íslands, en auk þess mun hópurinn halda tónleika í Tíbrár-röð Salarins í Kópavogi, miðvikudaginn 20. apríl kl. 20.

Að sögn Árna Heimis Ingólfssonar tónlistarfræðings og kennara við LHÍ er Phantasm einn fremsti kammerhópur heims á sviði gamallar tónlistar. Á efnisskrá tónleikanna verða verk eftir meistara barokksins, m.a. Purcell og J.S. Bach, en eftir þann síðarnefnda flytur Phantasm valda kafla úr Fúgulistinni (Kunst der Fuge) og útsetningar Mozarts á fúgum úr Vel stillta hljómborðinu (Das Wohltemperierte Klavier).

Phantasm hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir leik sinn, og má nefna að nýjasti geisladiskur hans, með tónlist eftir Orlando Gibbons, hlaut hin virtu Gramophone-verðlaun árið 2004 fyrir flutning á upprunaleg hljóðfæri. Gagnrýnendur um allan heim hafa hlaðið lofsorði á flutning hópsins, m.a. sagði gagnrýnandi Washington Post að leikur hans væri "eins og rödd úr öðrum heimi, sem hvíslar til okkar tímalausri visku," og Los Angeles Times sagði flutning hópsins vera "ríkan af litum, vel úthugsaðan, tilfinningaríkan og fullan tjáningu frá upphafi til enda".

Í tilefni heimsóknarinnar stendur Listaháskóli Íslands fyrir tveggja daga námskeiði í flutningi barokktónlistar á strengjahljóðfæri, undir leiðsögn Laurence Dreyfus, sem er stofnandi Phantasm og prófessor við King's College-háskólann í Lundúnum. Námskeiðið fer fram í húsnæði tónlistardeildar LHÍ, Sölvhólsgötu 13, 16. og 17. apríl frá kl. 10-17 báða daga. Námskeiðið er ætlað bæði nemendum og atvinnuhljóðfæraleikurum, og er þeim sem hafa áhuga á virkri þátttöku bent á að hafa samband við tónlistardeild Listaháskólans í síma 5525020 fyrir 15. mars nk.