Herramannsmatur Tómas Hallgrímsson, starfsmaður Reykofnsins - Grundarfirði, með stórt og myndarlegt sæbjúga.
Herramannsmatur Tómas Hallgrímsson, starfsmaður Reykofnsins - Grundarfirði, með stórt og myndarlegt sæbjúga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sæbjúgu hafa til þessa ekki þótt boðlegur mannamatur á Íslandi. En í Asíu þykja þau herramannsmatur og jafnvel búa yfir lækningamætti.

Sæbjúgu hafa til þessa ekki þótt boðlegur mannamatur á Íslandi. En í Asíu þykja þau herramannsmatur og jafnvel búa yfir lækningamætti. Íslenskt fyrirtæki hefur nú hafið vinnslu á þessari furðulegu lífveru og Helga Mar Árnasyni lék forvitni á að vita hvers vegna í ósköpunum nokkrum manni dettur í hug að leggja sér hana til munns.

Íslenskir sjómenn hafa hent sæbjúgum jafnharðan aftur í hafið þegar þau hafa slæðst í veiðarfæri, enda eru þau ekki beinlíns lystug á að líta, líkjast einna helst fjólubláum sláturkeppum. Þessi dýrategund hefur þó verið þekkt matvara meðal margra Asíuþjóða í árhundruð en hefur aldrei verið nýtt hér á landi. Þessu sama hefði ef til vill mátt halda fram um ýmsar aðrar skepnur úr hafinu fyrir ekki svo mörgum árum, s.s. rækju, humar, skötusel og e.t.v. fleira sjávarfang, enda eru Íslendingar annálaðir fyrir að fúlsa við kræsingum úr hafinu ef þau líta skringilega út.

Sérstakt fyrirtæki, Reykofninn - Grundarfirði ehf., hefur nú verið stofnað um vinnslu og sölu á sæbjúgum, en það er í eigu Reykofnsins ehf. í Kópavogi, Fiskiðjunnar Skagfirðings og Byggðastofnunar.

Kári Pétur Ólafsson, framkvæmdastjóri Reykofnsins - Grundarfirði, segir að stofnun fyrirtækisins hafi átt sér nokkurn aðdraganda og undirbúning. "Við fórum að huga að þessu fyrir nokkrum árum en hófum síðan vinnslu fyrir alvöru í nóvember árið 2003 en AVS Rannsóknasjóður í sjávarútvegi og Impra hafa stutt við bakið á okkur frá upphafi. Við höfum verið að fínstilla framleiðsluna og læra réttu handtökin í vinnslunni. Einnig hefur farið fram mikil markaðsvinna og við höfum tryggt okkur kaupendur að framleiðslunni. En núna þurfum við að einbeita okkur að því að rannsaka betur veiðiþáttinn sem við höfum satt best að segja ekki náð að sinna nógu vel hingað til."

Fátt er vitað um lifnaðarhætti sæbjúgna hér við land en að sögn Kára Péturs eru þau hópdýr og halda sig jafnan mörg saman, í stórum hópum eða breiðum. Hann segir að margt bendi til þess að sæbjúga finnist allstaðar í kringum landið í umtalsverðu magni. Við strendur Íslands er að finna 16 tegundir sæbjúgna. Þeirra stærst er það sem kallað hefur verið brimbútur (cucumaria frondosa) og er það tegundin sem nú er sóst eftir. Sæbjúgu eru seinvaxta, það tekur þau um 6 ár að ná markaðsstærð en það er mjög svipaður tími og hjá t.d. hörpudiski.

Biðla til sjómanna

Kári Pétur segir að nú sé ætlunin að biðla til sjómanna um að koma að landi með sæbjúgu sem slæðast í veiðarfæri. "Það er mikilvægt að finna þá staði þar sem sæbjúgun halda sig í miklu magni og við myndum gjarnan þiggja upplýsingar frá sjómönnum sem hafa orðið varir við sæbjúgu. Eins ef menn muna á hvaða árstíma sæbjúgna varð vart auk upplýsinga um dýpi, botnlag og fleira myndi það hjálpa mikið. Við vitum að það kemur töluvert af sæbjúgum í snurvoð á ákveðnum svæðum á ákveðnum árstímum og í troll þar sem notað er fótreipi. En veiðarfæri hafa í seinni tíð verið þróuð með það í huga að ekki slæðist í þau óþarfa meðafli á borð við sæbjúgu og því er eitthvað minna um að þau komi í veiðarfærin en áður. Það væri þannig óskastaðan að fá útgerð til samstarfs við okkur sem gæti sinnt þessum veiðum eingöngu."

Kanadamenn hafa að sögn Kára Péturs náð ágætum tökum á sæbjúgnaveiðum. Þar er settur kvóti á veiðarnar, um 450 tonn á ári, en í gangi er umræða um að auka kvótann umtalsvert. "Í Kanada hafa 8 bátar leyfi til veiðanna og þeir eru mjög fljótir að veiða kvótann, enda vita menn orðið vel hvar sæbjúgun er að finna. Sæbjúgun eru veidd í plóg á 30 til 70 metra dýpi á hörðum botni og fá Kanadamennirnir að jafnaði 100 til 200 kíló í pokann eftir 10 mínútna tog og allt upp í 500 kílóa tog hafa verið skráð þar ytra. Plógurinn sem notaður er í Kanada er frekar lítill, eða 170 sentímetra breiður, enda veiðarnar einkum stundaðar af litlum og meðalstórum bátum."

Verð er viðunandi

Kári Pétur segir annars til um 9 þúsund tegundir sæbjúgna í heiminum en aðeins séu milli 50 og 60 borðaðar. Sumar tegundirnar séu enda taldar eitraðar. "Sæbjúgu þurfa að búa yfir ákveðnum eiginleikum til að vera eftirsótt vara. Hefðbundin sæbjúgu hafa verið ofveidd í Asíu og því hefur spurn eftir öðrum og óþekktari tegundum aukist. Í Kanada er veidd sama tegund og við viljum veiða hér við land og þegar veiðarnar hófust þar fyrir hálfum öðrum áratug fékkst mjög lágt verð fyrir sæbjúgun. En síðan hefur verðið hækkað samfara aukinni eftirspurn og er nú orðið viðunandi. Auk þess er markaðurinn farinn að þekkja þessa tegund, þó að kaupendur séu á varðbergi þegar boðið er upp á vöru frá "nýju" framleiðslulandi eða nýjum framleiðanda. Ástæðan fyrir því er sú að þetta er frekar viðkvæm vinnsla og sérstaklega er slæmt að það er nær ómögulegt að sjá hver raungæði vörunnar eru með því að skoða þurrkaða afurð. Gæðin koma þá ekki í ljós fyrr en sæbjúgun eru undirbúin til matreiðslu."

Og vinnsla á sæbjúgum krefst töluvert margra handtaka en Kári Pétur segir að verkun þeirra sé nokkuð misjöfn eftir því hvaða kaupandi á í hlut. Sæbjúgun eru skorin á ákveðinn hátt og hreinsuð að innan, þau soðin og þurrkuð og reykt ef kaupandinn óskar þess. Kári Pétur segir að tekin hafi verið sýni í öllum mánuðum ársins hér við land og svo virðist sem hægt sé að vinna sæbjúgun allan ársins hring.

5% nýting

Reykofninn - Grundarfirði vann á síðasta ári um 90 tonn af sæbjúgum eða tæp 5 tonn af afurðum en nýtingin í vinnslunni er rétt um 5%, þar sem sæbjúgað er nánast ekkert nema vatn. "Við seldum alla framleiðsluna til Asíu og kaupandinn þar vill fá meira. Við gerum okkur vonir um að verðið hækki og að gengisþróun krónunnar verði okkur jafnvel hliðholl. Við teljum að það sé ágætur grundvöllur fyrir þessari vinnslu ef okkur tekst að ná sæbjúgunum upp úr sjó á hagkvæman hátt og í umtalsverðu magni. Vinnslan þarf helst um 10 tonn af hráefni á dag eða meira ef vel á að vera."

Sæbjúgu þykja lostæti í Asíu, þar sem löng hefð er fyrir neyslu þeirra. Kári Pétur segir að í Asíu sé sæbjúgað útvatnað eftir kúnstarinnar reglum í nokkra daga. Þá hafi sæbjúgað margfaldað þyngd sína þannig að fáein grömm af þurrkaðri afurð geta orðið máltíð fyrir meðalstóra fjölskyldu. "Þetta er mjög vinsæll matur í Asíu. Þeir nota þetta mikið í súpur en steikja það líka í strimlum og setja í hrísgrjónarétti. Kínverjar telja að sæbjúgun búi yfir lækningamætti og gefa þau sjúklingum til heilsubótar. Og íslenska sæbjúgað kemur vel út í þeim samanburði. Í rannsókn sem gerð var á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins með stuðningi frá AVS kom í ljós að magn lífvirkra efna var tiltölulega mikið í sæbjúganu okkar, mun meira en í sumum hefðbundnari tegundum sem það var borið saman við. Það er þannig líka kraftur í sæbjúganu okkar," segir Kári Pétur.

hema@mbl.is