Valur Freyr Einarsson
Valur Freyr Einarsson
Höfundur: Árni Ibsen. Leikstjóri: Valur Freyr Einarsson. Ljósahönnun: Jón Þorgeir Kristjánsson. Búningahönnun: Edda Ívarsdóttir og fleiri. Tónlistarflutningur: Ragnar Jón Ragnarsson. Frumsýning í Tjarnarbíói 14. febrúar 2005.
MARGT ungt fólk vill tjá sig um sjálft sig í nútímanum, um samtíma sinn, umhverfi og annað fólk. Margir vilja getað hlegið að fullorðinsbröltinu í sjálfu sér en vilja líka staldra við og hlusta eftir sannleikanum. MR-ingar hafa nú sett upp leikrit frá 1997 sem fjallar um ung brúðhjón, leikrit sem gerir góðlátlegt grín að samtímanum og alveg sérstaklega að því sem sumir kalla eftirlíkingu af bandarísku brúðkaupsstandi. Sýningin er nákvæm og falleg með áberandi heildarsvip og í aðalhlutverkunum eru sterkir leikarar.

Valur Freyr Einarsson leikstjóri á greinilega erindi sem leikstjóri en það sést helst á því að heildarbragur sýningarinnar er jafn og nákvæmur og hefur hann auk þess náð heilmiklu út úr leikurunum. Það er ekki oft sem hægt er að tímasetja innkomur og atriðaskipti jafn vel og hann hefur gert, sérstaklega ekki í verki sem er byggt upp á mörgum stuttum atriðum og hraða og þar sem leikhópurinn telur tugi manns. Til viðbótar er ekki heiglum hent að fara svo ört milli tímaskeiða sem raun ber vitni. Sviðið í Tjarnarbíói er lítið en Valur hefur nýtt það vel og salinn að auki. Þess er ekki getið í leikskrá hver hannar leikmyndina en hún er mjög skemmtileg og einföld þar sem hún hjálpar leikurunum að njóta sín betur og er notuð í lokin til þess að koma áhorfendum á óvart. Lýsingin er einnig órjúfanlegur hluti af leikmyndinni. Búningarnir eru í sama stíl, léttir og skemmtilegir, í rómantískum og glaðlegum litum. Einnig er vel til fundið að skreyta anddyrið eins og brúðkaupssal og hafa eins konar forleik að sýningunni þar.

Því miður er ekkert skrifað um leikritið sjálft og höfundinn í fallegri leikskránni en það vill alltof oft brenna við hjá framhaldsskólaleikfélögum að útlit leikskrár er á kostnað innihaldsins. Það þarf að útskýra fyrir áhorfendum hvernig svona leikrit hefur orðið til. Þetta er spunaverk frá 1997 sem Árni Ibsen samdi fyrir Nemendaleikhúsið í samvinnu við Hafnarfjarðarleikhúsið. Verkið varð vinsælt þá, ekki síst vegna þess að þá voru hin stórbrotnu brúðkaup að verða svo vinsæl með öllum þeim undirbúningi sem fylgdi, þar með talin steggja- og gæsapartí með tilheyrandi fylleríum sem gerð eru góð skil í verkinu. Vinsældir sýningarinnar fyrir átta árum voru þó einnig vegna þess að leikararnir mótuðu sínar persónur sjálfir að miklu leyti en margar þeirra eru eftirminnilegar. Hjá Herranótt gerist það þess vegna nú að allar aukapersónurnar verða nokkuð litlausar, sennilega af því að leikarana vantar forsendur til að vinna með. Þetta er þó smáatriði, það má hafa reglulega gaman af sýningunni af því að hún er bæði falleg og fjörug.

Hrund Ólafsdóttir