Laugavegur 5
Laugavegur 5 — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Miklar umræður hafa að undanförnu farið fram um nýtt deiliskipulag við Laugaveg, þar sem heimilað er að rífa 25 hús sem byggð voru fyrir 1918. Sveinn Guðjónsson kynnti sér sögu húsanna sem hér um ræðir og Ómar Óskarsson festi þau á filmu.

Laugavegur hefur verið í brennidepli að undanförnu vegna nýs deiliskipulags, sem felur í sér að heimilt er að rífa 25 hús sem byggð voru fyrir 1918. Ekki eru allir á eitt sáttir hvað þetta varðar og hafa spunnist miklar og heitar umræður um málið, ýmist með eða á móti. Umræðan endurspeglar sterkar tilfinningar manna til þessarar gömlu verslunargötu í hjarta höfuðborgarinnar.

Upphaf þessa máls má rekja til fyrirspurnar Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa F-listans, en í svari sviðsstjóra skipulagssviðs á fundi borgarráðs kom fram, að samkvæmt nýja deiliskipulaginu væri heimilt að rífa þessi 25 tilteknu hús og hefði steinbærinn Laugavegur 22A, frá árinu 1892, þegar verið rifinn.

Í framhaldi af þessu lét Ólafur bóka að engum ætti að dyljast að í uppsiglingu væri allt of mikil röskun á byggingarsögu og heildstæðri götumynd Laugavegarins. Endurskoða þyrfti deiliskipulag Laugavegar á svæðinu frá Laugavegi 1 til 73 og skoða málið heildstætt. Ólafur bendir ennfremur á að hér sé um að ræða þriðjung allra húsa á þessu svæði. Af þessum húsum eru 22 þeirra yfir hundrað ára gömul og þar af 13 frá því á 19. öld.

"Ekki verður unað við þá niðurstöðu sem starfshópur um endurskipulagningu Laugavegarins komst að fyrir nokkrum árum, en þar var lagt til mun meira niðurrif gamalla húsa við Laugaveg en áður hafði verið talið verjandi," segir í bókun Ólafs. Fulltrúar R-listans í borgarráði létu bóka að í bókun Ólafs kæmi fram ákveðinn misskilningur: "Mikil áhersla hefur verið lögð á það við deiliskipulag Laugavegar að tryggja nauðsynlega uppbyggingu nýs verslunar- og atvinnuhúsnæðis, en tryggja í leiðinni að yfirbragð og karakter gömlu húsanna við Laugaveg haldi sér, " segir í bókuninni og ennfremur að nú sé lokið miklu átaksverkefni varðandi deiliskipulag á Laugavegi sem tryggi nauðsynlegt jafnvægi verndunar og uppbyggingar. Allt tal um annað sé fyrst og fremst til þess fallið að slá ryki í augu fólks.

Í framhaldi af þessum bókunum hafa farið fram miklar umræður um málið og sýnist sitt hverjum. Á opnum umræðufundi á vegum Vinstri-grænna í Reykjavík miðvikudaginn 23. febrúar síðastliðinn las einn frummælenda, Páll V. Bjarnason, formaður Torfusamtakanna, upp úr ályktun samtakanna þar sem vitnað var í þann árangur sem náðist í baráttu samtakanna gegn niðurrifi húsa á Bernhöftstorfu í kringum 1970. Síðan segir í ályktun Torfusamtakanna:

"Samkvæmt nýsamþykktu deiliskipulagi er heimilt að rífa fjölda gamalla húsa við Laugaveg og nálægar götur, aðallega timburhúsa, og byggja ný og stærri hús. Torfusamtökin telja að borgaryfirvöld séu á algerum villigötum í þessum efnum og hér stefni í menningarsögulegt slys sem ekki verði bætt."

Síðar í ályktuninni segir svo: "Það verður að bjarga þessum húsum frá niðurrifi og stuðla að því að þau fái uppreisn æru á sama hátt og Bernhöftstorfan fyrir 30 árum. Sem dæmi um sérstaklega mikilvæg hús má nefna Laugaveg 11 (veitingahúsið Ítalía), Laugaveg 21 (Hljómalind), Laugaveg 27 og 29 (Brynja) og húsaröðina Laugaveg 33, 33a (steinsteypt frá 1916) 35, 41, og 45, sem mynda frábæra heild með Laugavegi 37. Samkvæmt samþykktu deiliskipulagi er Laugavegur 37 eina timburhúsið á götukaflanum milli Vatnsstígs og Frakkastígs sem er verndað! Þegar öll hin eru farin stendur það eftir eitt eins og sýnishorn, en ekki hluti af sögulegri heild. Stjórn Torfusamtakanna leggst eindregið gegn áformum um að heimila niðurrif þessara húsa og fer fram á að deiliskipulag reita við Laugaveg verði endurskoðað með það að markmiði að varðveita sem flest þeirra."

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi R-listans og formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, gerði grein fyrir þeim hugmyndum sem liggja að baki hinu nýja deiliskipulagi og þeim rökum sem þar liggja til grundvallar. Í framsöguerindi sínu lagði hann áherslu á að mikil vinna hefði verið lögð í hið nýja deiliskipulag Laugavegar og kappkostað að vanda til verka, enda hefðu menn gert sér grein fyrir mikilvægi þessa svæðis í sögu Reykjavíkur. Markmiðið væri að skapa nýja framtíðarsýn fyrir miðborgina þar sem tryggt væri nauðsynlegt jafnvægi verndunar og uppbyggingar.

Fundarmenn, sem tóku til máls, voru flestir andvígir nýja deiliskipulaginu og í andsvari í fundarlok sagði Dagur B. Eggertsson meðal annars að þótt ef til vill hefðu verið gerð mistök í því að kynna málið ekki rækilega og betur væri ekki þar með sagt að skipulagið væri ekki gott. "Þetta er nefnilega gott skipulag. En þessi þarfa umræða, sem nú hefur staðið í tíu daga, byggist ekki að öllu leyti á þessu skipulagi. Ég held að þar séu menn að glíma við handvömm og mistök úr fortíðinni. Margir sem ekki hafa kynnt sér þetta skipulag, þar á meðal margir hér inni, eru tilbúnir til að tala gegn því sem þeir telja að muni eiga sér stað á Laugaveginum, vegna þess að það hefur eitthvað brugðist í traustinu á milli stjórnvalda og þeirra sem þykir vænt um Laugaveginn," sagði Dagur.

Í eftirfarandi yfirliti um gömlu húsin við Laugaveg, sem eru á listanum yfir þau sem heimilt er að rífa samkvæmt nýja deiliskipulaginu, felst engin afstaða til skipulagsins, heldur er þetta birt lesendum til nánari glöggvunar og fróðleiks um uppruna og sögu þessara tilteknu húsa.

Laugavegur 4 : Byggt sem prentsmiðja 1890. Fyrsti eigandi: Halldór Þórðarson bókbindari. Viðbygging við húsið frá 1905 er við austurgafl. Þetta er fyrsta húsið við Laugaveg sem byggt er sem atvinnuhúsnæði.

Laugavegur 5 : Byggt sem íbúðarhús 1875 og elsta húsið sem hér um ræðir. Fyrsti eigandi: Símon Alexíusson. Steinsteypt viðbygging 1919 og 1931. Timburhúsið hækkað um eina hæð 1925.

Laugavegur 6 : Byggt sem íbúðarhús 1871. Fyrsti eigandi: Guðmundur Jónsson snikkari. Miklar endurbætur voru gerðar á þessu húsi árið 1879. Þá átti húsið Pétur Bjerring. Viðbygging 1917.

Laugavegur 11 : Byggt sem íbúðarhús 1868. Fyrsti eigandi: Símon Alexíusson. Árið 1891 var húsið frá 1868 breikkað um tvo metra. Þá var það einnig klætt bárujárni. Viðbygging frá 1907 stendur við Smiðjustíg. Viðbygging frá 1920 er úr steinsteypu.

Laugavegur 12b : Byggt sem íbúðarhús og verslun 1891. Fyrsti eigandi: Júlíus Andreas Hansen Schau steinsmiður. Geymslan sem byggð var árið 1882 er austasti hluti húslengjunnar nú. Árið 1913 var sundinu lokað milli aðalhússins og skúrsins og voru húsin þá komin í núverandi mynd. Júlíus steinsmiður keypti land og hús þar sem nú eru gatnamót Laugavegar og Bergstaðastrætis, byggði við húsið sem stóð á horninu og er sú viðbygging hluti jarðhæðarinnar sem nú telst númer 12a við Laugaveg.

Laugavegur 17 : Byggt sem íbúðarhús árið 1908. Fyrsti eigandi: Jóhannes kr. Jóhannesson trésmiður. Árið 1909 höfðu fernar svalir verið byggðar á húsið og árið 1918 bættist við útskot. Jón Stefánsson, þáverandi eigandi, byggði þá geymsluhús og skósmíðaverkstæði nyrst á lóðinni.

Laugavegur 19 : Byggt sem íbúðarhús 1890. Fyrsti eigandi: Pétur Hjaltested úrsmiður. Upphaflega var það ein hæð og ris en hefur tekið miklum breytingum í gegnum tíðina og var forskalað 1938.

Laugavegur 20 : Byggt sem íbúðarhús og verslun 1902, þá kallað 20a. Fyrsti eigandi: Pétur Jónsson kaupmaður. Áður stóð þarna hús, sem kallað var Vegamót. Það var rifið árið 1902. Árið 1918 var húsið klætt bárujárni. Árið 1921 var það minnkað og ennfremur sett viðbygging og stóð Kristín Sigurðardóttir kaupkona fyrir þeim framkvæmdum.

Laugavegur 20a : Fyrsta hús á lóðinni, þá kallað 20a, var byggt 1902 (sjá Laugavegur 20). Húsið var minnkað árið 1921 og nýtt steinsteypuhús byggt við austurenda hússins. Húsið sem var minnkað er í dag Laugavegur 20. Nýja húsið var þrílyft íbúðar- og verslunarhús. Það hús hýsir Kaffi List í dag.

Laugavegur 21 : Byggt sem íbúðarhús 1884. Fyrsti eigandi Magnús Pálsson múrari. Þetta er næstelsta húsið í reitnum og hefur því verið vel við haldið. Árið 1895 var það stækkað af Ole Johan Haldorsen, Óla norska, og hækkað um eina hæð.

Laugavegur 22a : Gamli steinbærinn frá 1892 þegar rifinn.

Laugavegur 23 : Byggt sem íbúðar- og atvinnuhúsnæði 1899. Fyrsti eigandi: Steingrímur Guðmundssson trésmíðameistari. Árið 1916 voru settir kvistir á framhlið hússins. Húsið var upphaflega járnklætt á tvo vegu en er nú klætt timbri að utan.

Laugavegur 27 : Byggt sem íbúðarhús 1899. Fyrsti eigandi: Jón Magnússon kaupmaður. Jón byggði timburhús 1899 við vesturgafl steinbæjarins sem þarna stóð. Ári síðar let hann breikka húsið, hækka og byggja inngönguskúr við norðurhlið. Árið 1922 var byggð þrílyft viðbygging úr steinsteypu við austurenda hússins.

Laugavegur 28b : Byggt sem íbúðarhús og verslun 1914. Fyrsti eigandi: Árni Einarsson kaupmaður. Árið 1924 er nýtt geymsluhús hlaðið úr steyptum holsteini reist á lóðinni. Árið 1944 er kominn veitingastaður á neðri hæð aðalhússins. Í geymsluhúsinu er þá íbúð með húsgagnavinnustofu. Á árunum 1947-49 var húsið allt endurnýjað.

Laugavegur 29 : Byggt sem íbúðarhús og verslun 1906. Fyrsti eigandi: Guðmundur Hallsson trésmiður. Lengi vel var íbúð á efri hæðinni. Verslunin Brynja hefur verið starfrækt í húsinu frá 1930. Brynja var áður til húsa á Laugavegi 24, en hafði makaskipti við Fálkann.

Laugavegur 33 : Byggt sem íbúðarhús 1902. Fyrsti eigandi: Jón Bjarnason skipstjóri. Árið 1910 var komin sölubúð á neðri hæðina. Við austurgafl hússins er ný þrílyft viðbygging úr steinsteypu með risi og kjallara.

Laugavegur 35 : Byggt 1894 sem íbúðarhús. Fyrsti eigandi: Gunnar Gunnarsson snikkari. Árið 1900 er íbúð í kjallara. Viðbygging frá 1914 er úr steinsteypu. Árið 1930 er búð og gullsmíðaverkstæði á jarðhæð.

Laugavegur 38 : Byggt sem íbúðarhús 1905. Fyrsti eigandi: Guðmundur Egilsson trésmiður. Ásgrímur Gíslason steinsmiður reisti steinhlaðið hús á lóðinni 1890. Árið 1903 á Thomsen eignina og selur hana Guðmundi Egilssyni ári seinna. Árið 1917 er innréttuð verslun. Árið 1980 voru gerðar miklar endurbætur á húsinu.

Laugavegur 41 : Byggt sem íbúðarhús 1898. Fyrsti eigandi: Arinbjörn Sveinbjarnarson bókbindari. Árið 1903 byggir Arinbjörn ofan á húsið þannig að nú er það allt tvílofta með risi.

Laugavegur 45 : Byggt sem íbúðarhús 1897. Fyrsti eigandi: Sigurður Bjarnason söðlasmiður. Árið 1907 var gerð sölubúð. Einnig byggt nýtt tvíloftað hús úr bindingi við vesturgafl hússins. Niðri í því húsi er sölubúð. Árið 1928 var efri hæðin í viðbyggingunni útbúin til íbúðar.

Laugavegur 55 : Byggt sem íbúðarhús 1902. Fyrsti eigandi: Bergur Jónsson skipstjóri. Árið 1919 var húsið hækkað á sökklinum og gerð verslun á jarðhæðinni. Ekki er vitað um önnur hús við Laugaveg sem lyft hefur verið á sökklinum.

Laugavegur 65 : Byggt sem íbúðarhús 1903. Fyrsti eigandi: Rögnvaldur Þorsteinsson. Timburhúsið hefur tekið miklum breytingum og sér upprunalegs útlits þess varla merki nú. Húsinu var breytt í verslunarhús á sjöunda áratugnum.

Laugavegur 67 : Byggt sem íbúðarhús 1902. Fyrsti eigandi: Samúel Jónsson snikkari. Samúel var faðir Guðjóns húsameistara. Húsið er í þeim stíl sem nefndur hefur verið "bárujárnssveitser" og var ríkjandi hér um og upp úr aldamótum 1900. Húsið hefur tapað nokkru af upprunalegu útliti við að vera gert verslunarhúsnæði með tilheyrandi gluggabreytingum, en sú breyting hefur þótt heppnast vel.

Laugavegur 69 : Byggt sem íbúðarhús 1902. Fyrsti eigandi: Jón Jóhannesson. Húsið hækkað og endurbætt árið 1925. Árið 1961 var neðri hæð hússins breytt í verslunarhúsnæði með tilheyrandi gluggabreytingum.

Laugavegur 73 : Byggt sem íbúðarhús og geymsla 1903. Fyrsti eigandi: Jón Magnússon kaupmaður. Húsið er múrhúðað timburhús. Pípugerðarverksmiðja var rekin í húsinu 1917. Húseignin var aukin og endurbætt á sama tíma.

svg@mbl.is