Þorgerður Einarsdóttir
Þorgerður Einarsdóttir
Þorgerður Einarsdóttir fjallar um ímynd kvenleika og karlmennsku: "Ég hef ekki komist í þessa stöðu vegna þess að ég er karlmaður heldur vegna eigin verðleika? Er það kannski vegna þess að leiðtogaímyndin og hugmyndir okkar um hæfileika, greind og hæfni eru samofnar viðteknum hugmyndum um karlmennsku?"

HVAÐ er sameiginlegt með þeim konum sem hafa náð langt í viðskiptalífi á Íslandi? Jú, þær hafa ekki endalaust verið að velta sér upp úr því að þær séu konur. Þessi orð féllu á fjölsóttum fundi í Iðnó 16. febrúar þar sem rætt var um völd og áhrif kvenna. Það fylgdi sögunni að það væri svo niðurlægjandi fyrir konur að komast áfram út á kyn sitt. Margar þeirra kvenna sem nú skipa áhrifastöður í þjóðfélaginu hafa sagt að þær hafi ekki komist áfram vegna þess að þær séu konur heldur á eigin verðleikum. Nokkrar hafa líka lýst því yfir að þær hafi aldrei fundið fyrir því að vera konur, hvernig sem það er hægt í samfélagi þar sem aðgreining kynjanna er eitt skýrasta birtingarform félagslegrar stigskiptingar.

En hvað felst í svona yfirlýsingum? Það þarf ekki mikinn speking til að sjá að í þessu felst merkingarauki eða hughrif sem áheyrandinn reynir að botna. Þegar átak um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum stóð yfir voru margir sem spurðu af hverju það þyrfti að fjölga konum í pólitík "bara af því þær væru konur". Þetta viðhorf kallast á við viðkvæðið að kyn skipti ekki máli sem Gunnar Hersveinn rifjaði upp í greininni "Jafnréttisbaráttan 2004" í Morgunblaðinu 29/1. Hann nefndi m.a. karlanefndirnar sem ríkisstjórnin skipaði í fyrra þrátt fyrir eigin jafnréttisáætlun um að jafna kynjahlutföll. Allar fjalla nefndirnar um mál sem skipta miklu fyrir lýðræðið og almannahag, þ.e. fjölmiðla, þjóðaratkvæðagreiðslu og stofnanakerfi og rekstur ríkisverkefna. Þegar Geir Haarde var gagnrýndur á Alþingi fyrir að hafa sniðgengið konur í síðustu nefndinni sagði hann að kyn skipti ekki máli fyrir efnisatriði málsins.

En hvaða rök eru fyrir því að kyn skipti máli? Það væri að bera í bakkafullan lækinn að tíunda þau út í hörgul, áhugasömum er bent á rit Hagstofunnar Konur og karlar 2004 sem vitnar um víðtækt valdamisræmi kynjanna. Varla þarf að árétta að á hér á landi ríkir lagalegt jafnrétti. Í íslenskum lögum er þó að finna tvö ákvæði um kynjakvóta, aðgerð sem almennt er talin niðurlægjandi fyrir konur. Hið fyrra er að í jafnréttisráði skuli hlutfall kynjanna vera jafnt og er þar gengið miklu lengra en í ákvæðinu um nefndir og ráð hins opinbera þar sem einungis skal tilnefna fólk af báðum kynjum. Rökin að baki má rekja til skýrslu karlanefndarinnar árið 1993 um að ekki megi halla á karla í jafnréttisumræðunni. Hefur nokkur heyrt umræðu um hvort nægilega margir karlar hafi sérþekkingu á jafnréttismálum til að uppfylla ákvæðið, eins og oft heyrist um konur þegar lágt hlutfall kvenna í ráðum og nefndum ber á góma? Eða af hverju karlar eigi að sitja í jafnréttisráði "bara af því þeir eru karlar". Hið síðara er þriggja mánaða fæðingarorlofskvóti karla, stærsta handaflsaðgerð Íslandssögunnar í jafnréttismálum. Hver hefur heyrt spurt af hverju karlar eigi að fara í fæðingarorlof "bara af því þeir eru karlar"? Eða að það sé niðurlægjandi fyrir þá að beita hafi þurft handaflsaðgerðum í því skyni? Það er ekki síður athyglisvert að þá sjaldan að kyn er til umræðu þegar konur í áhrifastöðum eiga í hlut þá eru þær gjarna gerðar að kyntákni, útlit þeirra og kynþokki verður aðalatriði en ekki málaflokkurinn sem þær standa fyrir. Slíkt er fáheyrt með karla.

En hver er sá merkingarauki sem marar í hálfu kafi þegar talað er um að komast áfram á eigin verðleikum en ekki sem kona? Af hverju þurfa konur að tiltaka þetta sérstaklega? Er það til þess að aðgreina sig frá einhverjum öðrum konum sem hafa komist áfram án verðleika? Er það vegna þess að til að komast í innsta kjarna valdsins þurfa konur að sverja af sér kyn sitt og jafnréttisbaráttu? Eru þetta fyrirheit um að rugga ekki bátnum? Eða er verið að gefa í skyn að þessar tvær breytur séu illsamræmanlegar, þ.e. að vera kona og hafa verðleika? Að viðkomandi líti á sig sem undantekninguna sem sanni regluna. Hefur nokkur heyrt karlmann í áhrifastöðu segja: "Ég hef ekki komist áfram sem karlmaður heldur á eigin verðleikum"? Er það kannski vegna þess að leiðtogaímyndin og hugmyndir okkar um hæfileika, greind og hæfni eru samofnar viðteknum hugmyndum um karlmennsku?

Málið snýst um völd og valdatengsl, norm og viðmið. Tökum önnur dæmi. Hvaða skilaboð væri samkynhneigður maður að gefa sem segðist bjóða sig fram til forystu en ekki sem hommi heldur á eigin verðleikum? Eða svartur maður? Þýðir það að þetta sé almennt ekki talið fara saman? Að viðkomandi muni ekki beita sér í þágu þessara hópa, ekki hrófla við ráðandi valdakerfi? Eða að hann telji það sér til framdráttar að sverja af sér samkennd með þeim hópi sem hann tilheyrir? "It doesn't matter if you're black or white" eins og Michael Jackson söng eftir að hafa reynt að afmá öll merki uppruna síns úr andlitinu.

Konur á valdastólum eru hverfandi fáar og þær verðskulda án vafa þá stöðu sem þær hafa náð. Afstaða þeirra skiptir miklu fyrir þróun jafnréttisins. Meðan aðeins konur en ekki karlar þurfa að réttlæta metnað sinn, frama og völd með mismunandi vafasömum tilvísunum í kynleysi er full ástæða til að ætla að kyn sé þar einmitt grundvallaratriði.

Þorgerður Einarsdóttir fjallar um ímynd kvenleika og karlmennsku